Seeking a Friend for the End of the World hljómar afskaplega spes. Myndin fjallar um það að heimsendir nálgast þar sem smástirni stefnir á Jörðina. Aðalpersónurnar eru þau Dodge (Steve Carell), sem er svo óheppinn að konan hans fer frá honum um leið og slæmu fréttirnar berast, og Penny (Keira Knightley), nágrannakona Dodge sem vill hitta fjölskylduna sína áður en tíminn er úti. Þau fara saman í ferðalag til að leita uppi æskuást Dodge og hitta fjölskyldu Penny. Nú er komið plakat fyrir myndina sem lítur svona út:
Einnig er komin stikla fyrir myndina sem lítur nokkuð vel út, góð blanda af húmor og drama. Frekar þreytt samt að það sé notað Talking Heads lagið, Road to Nowhere, í lokin á stiklunni. Það er búið að nota þetta lag í svona sirka hundrað kvikmyndum og stiklum áður, þetta er orðið dauðdreytt alveg. Vonum bara að myndin sé ekki jafn ófrumleg og notkunin á þessu tiltekna lagi.
Knightley og Carell virðast bæði leika hérna frekar aulalega karaktera, sem er ekkert nýtt fyrir Carell en Keira Knightley hefur nú ekki verið mikið í svona hlutverkum undanfarin ár, það verður gaman að sjá nýja hlið á henni. Aðalmálið er þó auðvitað að þau nái vel saman og stiklan lætur að minnsta kosti líta út fyrir að þau geri það. Seeking a Friend for the End of the World verður frumsýnd 20. júlí.