Í dag eru 14 ár frá andláti Stanley Kubrick og lést hann þann 7. mars árið 1999, rétt áður en síðasta myndin hans, Eyes Wide Shut var frumsýnd.
Athyglin beindist fyrst að Stanley Kubrick þegar hann vann sem ljósmyndari hjá blaðinu Look og tók mynd af grátandi blaðasala sem stóð fyrir framan fréttatilkynningu á húsvegg. Það var fréttin um dauða Roosevelt forseta Bandaríkjanna. Þegar Kubrick var 13 ára, gaf faðir hans honum ódýra kassamyndavél. Þeir feðgar höfðu mikinn áhuga á ljósmyndun, þó lítið væri um peninga á heimilinu.
Hinn ungi Stanley Kubrick var heillaður af myndum, sérstaklega lifandi myndum. Hann langaði að gera kvikmynd og þegar hann var 22 ára, sagði hann skilið við sína góðu atvinnu, sem ljósmyndari hjá Look. Honum tókst að skrapa saman einhverjum peningum, framleiddi síðan og stjórnaði fyrstu myndinni, sem var stutt heimildarmynd.
Þremur árum seinna var hann tilbúinn í slaginn við leiknar kvikmyndir. Kubrick skrifaði handrit- var kvikmyndatökumaður, stjórnandi og klippari. Þetta var árið 1953 og myndin hét Fear and Desire. Næsta mynd hans var Killer’s Kiss, og eftir að Kubrick gerði þá mynd, var hann talinn með allra efnilegustu leikstjórum. Kvikmyndin fékk einróma lof gagnrýnenda en því miður tóku gestir kvikmyndahúsanna ekki við sér. Þó Kubrick fengi heiðurinn, lá við að hann yrði gjaldþrota, þar sem hann hafði veðsett hús sitt og eignir, til að fjármagna gerð myndarinnar. Ágóði af aðsókn brást algjörlega.
Næstu tvö ár, gekk þess ungi, hæfileikaríki maður atvinnulaus. Þá skeði það, að Anthony Mann sem vann sem leikstjóri við upptöku stórmyndarinnar Spartacus hætti og Kubrick tók við. Tókst honum að gera afburða góða mynd um þrælinn Spartacus og eftir það lá leiðin upp á við.
Eftir Spartacus gerði hann átta myndir, mjög ólíkar myndir. Allt frá stríðsmyndum til hrollvekju upp í ofbeldismyndir og hafa þær allar haft mikil áhrif á kvikmyndasöguna. Má þar nefna 2001: A Space Oddyssey, A Clockwork Orange, Barry Lyndon, The Shining, Full Metal Jacket og svo síðasta myndin hans Eyes Wide Shut.