Kvikmyndahátíðin Stockfish European Film Festival verður haldin í Bíó Paradís dagana 19. febrúar til 1. mars 2015. Að hátíðinni standa fagfélög í kvikmyndagerð á Íslandi.
Í tilkynningu frá aðstandendum segir að hátíðin óski eftir íslenskum stuttmyndum til þátttöku í keppninni Sprettfiskur.
Stuttmyndirnar mega vera að hámarki 30 mínútur og ekki meira en ársgamlar. Hátíðin gerir þá kröfu að myndirnar hafi ekki verið sýndar opinberlega og að þær verði frumsýndar á hátíðinni.
Aðeins íslenskar stuttmyndir koma til greina.
Skilafrestur er til 19. janúar og verða fimm myndir valdar á hátíðina sem mun síðan keppa um verðlaunin Sprettfiskur 2015. Allar frekari upplýsingar á stockfishfestival.is.
Í tilkynningunni segir einnig að Stockfish European Film Festival in Reykjavík sé hátíð kvikmyndaunnenda og byggi á grunni Kvikmyndahátíðar í Reykjavík sem stofnuð var 1978. Um þrjátíu kvikmyndir í fullri lengd verða sýndar á hátíðinni auk valinna verka kvikmyndagerðarmanna sem boðið verður til landsins.
„Markmið hátíðarinnar er að þjóna kvikmyndagerð og kvikmyndamenningu í landinu með því að sýna það besta í listrænni kvikmyndagerð og bjóða erlendu fagfólki til að miðla af þekkingu sinni. Þannig stefnir hátíðin að því að efla íslenskan kvikmyndaiðnað og tengsl hans við umheiminn.“
Meðal samstarfsaðila Stockfish European Film Festival eru Reykjavíkurborg og Evrópustofa.
Hátíðin verður í samstarfi við EDDUNA – íslensku kvikmynda- og sjónvarpsverðlaunin.
Í stjórn Stockfish hátíðarinnar eru:
Formaður: Friðrik Þór Friðriksson, f.h. Samtaka kvikmyndaleikstjóra
Bergstenn Björgúlfsson, f.h. Félags íslenskra kvikmyndatökustjóra
Birna Hafstein, f.h. Félags íslenskra leikara
Dögg Mósesdóttir, f.h. Samtaka kvenna í sjónvarpi og kvikmyndum
Guðrún Edda Þórhannesdóttir, f.h. Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda
Sjón, f.h. Félag leikskálda og handritshöfunda