Hvítasunnuhelgina 10. – 12. júní verður Skjaldborg, hátíð íslenskra heimildamynda, haldin á Patreksfirði í fimmta sinn. Auk þess að frumsýna nýjar íslenskar heimildamyndir er hátíðinni ætlað að vera tækifæri fyrir kvikmyndagerðarfólk og áhugamenn um heimildamyndir til að koma saman. Í lok hátíðarinnar verður besta heimildamyndin á Skjaldborg 2011 valin af áhorfendum.
Í fréttatilkynningu frá aðstandendum segir að í fyrra hafi hátt í 30 íslenskar heimildamyndir verið frumsýndar: „Á Skjaldborgarhátíðinni í fyrra voru frumsýndar hátt í 30 íslenskar heimildamyndir og hlaut dagskráin mikið lof kvikmyndagerðarfólks og annarra gesta. Backyard eftir Árna Sveinsson var valin besta myndin í fyrra en myndin hefur undanfarið vakið verðskuldaða athygli á kvikmyndahátíðum víða um heim,“ segir í tilkynningunni.
Einnig segir að gróska hafi aldrei verið meiri í heimildamyndagerð hér á landi en á sama tíma sé erfitt að fá myndirnar sýndar í sjónvarpi og kvikmyndahúsum. „Skjaldborg sýnir því heimildamyndir sem annars kæmu varla fyrir augu almennings og ber jafna virðingu fyrir hinu smáa, stóra, skrýtna og fokdýra. Á dagskrá hátíðarinnar hafa verið bæði örstuttar myndir og í fullri lengd og efnistökin afar fjölbreytt.“
Umsóknarfrestur er til 10. maí, en til að heimildamynd teljist gjaldgeng á Skjaldborg má hún hvorki hafa verið sýnd í sjónvarpi né í kvikmyndahúsi.
Dagskrá hátíðarinnar verður kynnt þegar nær dregur, en heimasíðan er www.skjaldborg.com auk þess sem hægt er að finna hátíðina á Facebook.