Skjaldborg í Bíó Paradís: Metfjöldi umsókna í ár

Hátíð íslenskra heimildamynda, betur þekkt sem Skjaldborg, verður haldin í samstarfi við Bíó Paradís helgina 18.-20. september 2020. 

Skjaldborg verður opnunarhátíð Bíó Paradísar sem hefur verið lokað síðan kórónuveirufaraldurinn skall á um miðjan mars. Það er mikið fagnaðarefni fyrir kvikmyndaunnendur á Íslandi að bíóið sé að opna dyr sínar á nýjan leik eftir viðamiklar endurbætur á húsnæðinu við Hverfisgötu með úrvali íslenskra heimildamynda á Skjaldborg. 

Venja er að halda Skjaldborg á Patreksfirði um hvítasunnu sem í ár var frestað fram á Verslunarmannahelgi vegna samkomuhafta, en degi áður en hátíðin átti að fara fram í lok júlí þurfti að aflýsa Skjaldborg vegna nýrrar hópsýkingar COVID-19. Stjórn og framkvæmdateymi Skjaldborgar í samstarfi við Bíó Paradís fagna því að aðstæður í þjóðfélaginu og nýtt og endurbætt menningarhús kvikmynda á Íslandi geri okkur nú kleift að halda Skjaldborg í borg. Fullbúin dagskrá sem auglýst var fyrir Skjaldborg um verslunarmannahelgi hefur verið aðlöguð nýjum aðstæðum, og flyst hátíðin að þessu sinni til Reykjavíkur frá Patreksfirði á fordæmalausum tímum.

Skjaldborg er kraftmikil uppskeruhátíð heimildamyndahöfunda og eina íslenska kvikmyndahátíðin sem sérhæfir sig í að frumsýna íslenskar heimildamyndir. Reynsluboltar í faginu, byrjendur og hinn almenni áhorfandi koma saman á hátíðinni í skemmtilegu og skapandi samtali sem gegnir mikilvægu hlutverki fyrir þróun og miðlun íslenskrar heimildamyndagerðar. 

Metfjöldi umsókna barst hátíðinni í byrjun sumars, bæði umsóknir fullbúinna heimildamynda og verk í vinnslu og er það til marks um mikla grósku á sviði heimildamyndagerðar á Íslandi. Þrettán myndir verða frumsýndar á hátíðinni og sjö verk í vinnslu kynnt, og er það nánast óbreytt dagskrá frá áætlaðri Skjaldborg um verslunarmannahelgi.

Heiðursgestur hátíðarinnar í ár er Hrafnhildur Gunnarsdóttir og verða sýndar þrjár myndir úr hennar höfundasafni auk þess sem Hafsteinn Gunnar Hafsteinsson mun leiða masterclass með Hrafnhildi.

Hrafnhildur hefur unnið ötullega að heimildamyndagerð á íslandi á ferli sínum og í vetur sýndi RÚV t.a.m. Svona fólk, heimildaþætti um málefni samkynhneigðs fólks á Íslandi sem hún vann að í rúma þrjá áratugi og mynd hennar Vasulka áhrifin vann Einarinn, áhorfendaverðlaun Skjaldborgar 2019. 

Eftirfarandi heimildamyndir verða frumsýndar á Skjaldborg 2020: 

Senur úr listrænu ferli

Leikstjóri: Ívar Erik Yeoman

Framleiðandi: Anton Máni Svansson

Join Motion Pictures


Shore power

Leikstjóri: Jessica Auer

Framleiðandi: Jessica Auer

Ströndin Studio


Aftur heim?

Leikstjóri: Dögg Mósesdóttir

Framleiðandi: Dögg Mósesdóttir

Freyja Filmwork


Hálfur Álfur

Leikstjóri: Jón Bjarki Magnússon

Framleiðandi: Jón Bjarki Magnússon

SKAK bíófilm


Last And First Men

Leikstjóri: Jóhann Jóhannsson

Framleiðandi: Þórir Snær Sigurjónsson

Zik Zak Filmworks


Að sýna sig og sjá aðra

Leikstjóri: Sandra Björg Ernudóttir

Framleiðandi: Sandra Björg Ernudóttir


PLAY!

Leikstjóri: Þórunn Hafstað

Framleiðendur: Heather Millard & Þórður Jónsson

Compass Films


Góði hirðirinn

Leikstjóri: Helga Rakel Rafnsdóttir

Framleiðandi: Helga Rakel Rafnsdóttir

Skarkali


Er ást

Leikstjóri: Kristín Andrea Þórðardóttir

Framleiðandi: Kristín Andrea Þórðardóttir og Olaf de Fleur

Andrá kvikmyndafélag í samstarfi við Poppoli kvikmyndir


Just A Closer Walk With Thee

Leikstjóri: Matthew Barney

Radio Bongo


MÍR: Byltingin lengi lifi

Leikstjóri: Haukur Hallsson

Framleiðendur: Haukur Hallsson & Gunnar Ragnarsson

FAMU / Skýlið Studio


The Arctic Circus

Leikstjórar: Haakon Sand & Gudmund Sand

Framleiðandi: Dag Maartmann

Sandbox AS


Ökukveðja 010006621

Leikstjóri: Kolbrún Dögg Kristjánsdóttir

Framleiðandi: Kolbrún Dögg Kristjánsdóttir

Miðasala á pössum og stökum miðum fer fram gegnum vef Bíó Paradísar