Hinir árlegu Stuttmyndadagar í Reykjavík fóru fram fram í Bíó Paradís dagana 3.-4. september. Alls kepptu 16 stuttmyndir um þrenn verðlaun dómnefndar, auk þess sem áhorfendaverðlaun voru veitt.
Í fyrsta sæti var Mission to Mars (stilla fyrir ofan) eftir Hauk M. sem nú stundar nám í kvikmyndaleikstjórn í Póllandi. Annað sætið hreppti Anton Sigurðsson fyrir mynd sína Grafir og bein og í þriðja sæti var zombiesplatterinn Undying Love eftir Ómar Örn Hauksson. Áhorfendaverðlaun hátíðarinnar hlaut myndin Móðir eftir Ingimar Elíasson.
Frá vinstri: Ingvar Þórðarson fulltrúi dómnefndar, Erlingur Jack Guðmundsson framleiðandi (Grafir og bein), Haukur M. leikstjóri (Mission to Mars), Ingimar Elíasson leikstjóri (Móðir) og Ómar Örn Hauksson leikstjóri (Undying Love – plakat fyrir neðan).
Þrjár efstu myndirnar hlutu allar peningaverðlaun; 100.000, 75.000 og 50.000 kr. Auk þess verður sigurvegaranum boðið á kvikmyndahátíðina í Cannes að ári þar sem mynd hans verður sýnd í svokölluðu Short Film Corner sem er sýningarvettvangur stuttmynda á hátíðinni.
Í dómnefnd Stuttmyndadaga er einvalalið: Ingvar Þórðarson kvikmyndaframleiðandi, Ísold Uggadóttir kvikmyndaleikstjóri og Örn Marinó Arnarson kvikmyndagerðarmaður.
Stuttmyndadagar hafa verið grasrótarvettvangur íslenskra kvikmynda allt frá 1991. Þar hafa fjölmargir kvikmyndagerðarmenn, sem síðar hafa getið sér gott orð, stigið sín fyrstu spor. Má þar m.a. nefna Árna Óla Ásgeirsson, Maríu Sólrúnu Sigurðardóttur, Rúnar Rúnarsson, Ragnar Bragason, Róbert Douglas, Grím Hákonarson, Reyni Lyngdal og Gunnar B. Guðmundsson.