Sér fyrir sér röð Smile kvikmynda

Smile 2 leikstjórinn Parker Finn segir að þó svo að „bölvunin“ hafi verið opinberuð í fyrstu myndinni, Smile, þá sé margt enn ósagt.

Hrollvekjan Smile 2 kemur í bíó á Íslandi í dag.

„Það voru upplýsingar sem ég geymdi með sjálfum mér sem voru ekki notaðar í fyrstu kvikmyndinni og ég notaði tækifærið og hafði þær með í þeirri nýju, þannig að það sem Smile 2 er að gera núna er að sýna okkur þessa nýju hluti,“ segir Finn við SFX tímaritið. „Okkur fannst við hafa opinberað ráðgátuna í Smile 1, en í raun vorum við bara að gefa smá forsmekk.“

Smile 2 (2024)

Ekki aðgengileg á veitum á Íslandi
Rotten tomatoes einkunn7
Rotten tomatoes einkunn 85%

Poppstjarnan Skye Riley er á leið í tónleikaferð um heiminn en fer að upplifa ógnvænlega og óútskýranlega hluti. Eftir því sem hryllingurinn vex og álagið vegna frægðarinnar eykst neyðist Skye til að horfast í augu við fortíðina til að ná aftur stjórn á lífi sínu. ...

Framhald hins óvænta smells Smile er með Naomi Scott (Aladdin, Charlie´s Angels) í aðalhlutverki, hlutverki poppstjörnu sem smitast af bros-bölvuninni þegar hún fer í tónleikaferð um heiminn.

Aðrir leikarar eru Rosemarie DeWitt, Lukas Gage, Miles Gutierrez-Riley, Peter Jacobson, Dylan Gelula, Ray Nicholson og Kyle Gallner sem er sá eini sem einnig var í fyrstu myndinni .

Nokkrar spennandi hugmyndir

„Það eru nokkrar hugmyndir sem mér finnst mjög spennandi. Það er gaman að ímynda sér röð Smile mynda þar sem hver og ein verður ólíkari þeirri fyrstu,“ bætir Finn við, og virðist sjá fyrir sér enn fleiri Smile myndir – sem er ekkert endilega neitt skrýtið, eins og SFX nefnir, þar sem myndirnar hafa allt til að bera til að verða hrollvekjuseríur eins og A Nightmare on Elm Street eða Friday the 13th.

„Það sem er reglulega áhugavert með Smile er að þú getur samsamað þig við ólíkar sögur, persónur og heima.“

Smile kom í bíó árið 2022 og tekjur hennar voru 217 milljónir Bandaríkjadala, en kostnaður einungis 17 milljónir. Gagnrýnendur lofuðu flestir myndina. Sosie Bacon lék þar sálfræðing sem verður vitni að skrýtnu sjálfsmorði sjúklings og kemst að því að þar er eitthvað mun óhugnanlegra og yfirskilvitlegra á ferðinni.

3,5 stjörnur

Vefsíðan Games Radar gefur Smile 2 þrjár og hálfa stjörnu af fimm mögulegum og segir myndina mikið fyrir augað, leikurinn sé góður, ráðgátan haldi áfram og nokkur atriði séu reglulega hryllileg. Það þýði að myndin sé frábært framhald.