Gamanleikkonan Amy Schumer er hætt við að leika Barbie, í kvikmynd sem Sony framleiðslufyrirtækið ætlar að gera. Ástæðan er sögð, samkvæmt The Wrap, árekstrar við önnur verkefni.
Tilkynnt var í desember sl. að Schumer myndi leika þessa heimsfrægu Mattel dúkku í kvikmynd sem fjallaði um það þegar Barbie er rekin úr Barbielandi fyrir að vera ekki nógu fullkomin, og endar í raunheimum. Stefnt var að frumsýningu sumarið 2018.
Tökur áttu að hefjast næsta sumar. Enginn leikstjóri er enn kominn að verkefninu.
Hilary Winston fékk hugmyndina og skrifaði handritið, en Schumer og systir hennar Kim Caramele, endurskrifuðu handritið.
Barbie leikföng hafa selst fyrir meira en þrjá milljarða bandaríkjadala frá því að dúkkan kom á markað árið 1959. Mattel sagði að í ár myndu verða kynnt til sögunnar ný líkamsform af dúkkunni, og fleiri hörundslitir, til að dúkkan endurspeglaði betur Bandaríkin.
Schumer þurfti að þola illkvitnar háðsglósur eftir að hún réði sig í hlutverkið, og sagt að hún væri allt of feit til að leika Barbie.
Schumer er næst væntanleg á hvíta tjaldið í myndinni Snatched ásamt Goldie Hawn, þann 12. maí nk. Í október kemur síðan myndin Thank You For Your Service í bíó.