Sagan endalausa í sundbíói RIFF

Meðal vinsælustu sérviðburða sem Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík býður árlega upp á er sundbíóið, en þá er valinkunn kvikmynd sýnd í innanhússlaug, fullri af bíógestum á baðfötunum. Meðal mynda sem sýndar hafa verið í Sundbíóinu eru Jaws og Some Like It Hot. Nú er röðin hins vegar komin að hinni goðsagnakenndu ævintýramynd The Neverending Story frá 1984, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá kvikmyndahátíðinni.

Myndin segir frá Bastían Balthasar Búx, sem á ekki sjö dagana sæla þar sem skólabullur hrella hann án afláts. Dag einn tekst honum að flýja kvalara sína inn í bókabúð og í framhaldinu kemst hann yfir bók eina veglega, sem inniheldur að sögn Söguna endalausu. Við lesturinn dregst Bastían inni í undraveröldina Fantasíu, sem sjálf þarf sárlega á hetju að halda. Leynist ef til vill ein slík í Bastían Balthasar Búx – þó heldur ólíklegt sé við fyrstu sýn?

„Til að skapa þessari víðfrægu og vinsælu mynd umgjörð við hæfi hafa skipuleggjendur RIFF flutt sundbíóið í hina glæsilegu innisundlaug Laugardalslaugar. Það verður búin til undraveröld sem hæfir sýningunni, með lýsingu og sviðsmynd. Meira er ekki hægt að upplýsa að svo stöddu hvað vettvanginn varðar, enda sjón sögu ríkari og ljóst að gestir Sundbíós á RIFF 2011 eiga mikla upplifun í vændum,“ segir í frétt RIFF.

Þá segir að góðir og jafnframt óvæntir gestir af hinni innlendu tónlistarsenu muni mæta á svæðið og flytja sína útfærslu af titillaginu „The Neverending Story“ sem Limahl gerði ódauðlegt á sínum tíma. „Víst er að margir hugsa sér gott til glóðarinnar að eiga löngu tímabæra endurfundi við Bastían, stríðskappann Atreyju, barnungu keisaraynjuna, lukkudrekann Falkor og síðast en ekki síst tónlistina sem meðal annars var samin af sjálfum Giorgio Moroder.“

Forsala aðgöngumiða á Sundbíó RIFF 2011 er hafin á heimasíðu Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík, www.riff.is.