Saga Freddie Mercury og hljómsveitarinnar Queen er rakin hér á frjálslegan máta sögulega séð en á ansi kröftugan og skemmtilegan hátt.
Ég man forðum daga þegar ég sá “La Bamba” (1987) í Stjörnubíóinu sáluga og ég og flestir aðrir gjörsamlega heilluðust af sögu hins unga Ritchie Valens sem lést aðeins 17 ára gamall. Persónuleg saga hans, raunir og sigrar voru sannkallaður innblástur og harmleikurinn mikli daginn sem tónlistin dó, þegar Valens ásamt Buddy Holly og Big Bopper létust í flugslysi, sló mann allsvakalega. Síðan smám saman komst maður að því að saga Valens í “La Bamba” var að miklu leyti skálduð og listræna frelsið réði ríkjum. Það breytir þó ekki því að “La Bamba” er kröftug mynd með góðri tónlist, frábærum leik og góðum boðskap og nánast það sama á við um “Bohemian Rhapsody”.
Myndin fjallar að mestu um Freddie (Rami Malek). Aðeins er drepið á tímabilinu þar sem hann gekkt enn undir nafninu Farrukh Bulsara en foreldrar hans voru indverskir Parsar og svo virðist sem Freddie hafi þurft að þola smá fordóma. Fljótlega gengur hann til liðs við hljómsveit sem skipuð var gítarleikaranum Brian May (Gwilym Lee) og trommaranum Roger Taylor (Ben Hardy). Á skömmum tíma vekja þeir athygli, fá bassaleikarann John Deacon (Joseph Mazzello) til liðs við sig og fara að búa til rokkplötur með sérkennandi hljóm sem kom þeim á heimskortið.
Miklu púðri er eytt í kynhneigð Freddie’s og hvernig hann hagaði sínum persónulega lífsstíl. Hann kynnist, verður ástfanginn af og trúlofast Mary Austin (Lucy Boynton) snemma í lífinu. Ekkert varð af giftingu þeirra á milli en Freddie varð ávallt að hafa hana í sínu lífi jafnvel eftir að hann uppgötvaði hvar hneigðirnar lágu. Persónulegir djöflar hans sáu til þess að hann tók margar miður góðar ákvarðanir og átti í ákveðnum erfiðleikum með að sættast við sjálfan sig. En, eins og öllum góðum sorgarsögum sæmir, finnur sinn rétta farveg og sess í tilverunni en því miður aðeins of seint. Freddie smitaðist af ólæknandi sjúkdómi sem dró hann til dauða en hann nýtti restina af tímanum vel og helgaði hann tónlist og naut lífsins.
Gagnrýnendur hvarvetna hafa bent á hve frjálslega myndin fer með staðreyndir og finna henni það til foráttu. Vissulega er farið um víðan völl hér og tímalínur er furðulegar og jafnvel uppruni eins af frægasta lagi sveitarinnar er sett á kolrangt tímabil. Beinlínis er skáldað í eyðurnar til að búa til dramatík, sérstaklega á lokakaflanum þegar Live Aid tónleikarnir nálgast og þörf er á að koma miklu til skila á skömmum tíma. Þeir sem þekkja til hrista hausinn kannski aðeins en þegar uppi stendur er “Bohemian Rhapsody” fantagóð og skemmtileg mynd sem kemur vel til skila lífskraftinum sem Freddie og Queen bjuggu yfir. Tónlistin gæti vart verið betri og mörg söngatriðin eru hreint mögnuð og þá sér í lagi þegar kemur að Live Aid tónleikunum en þá fá sum lög að njóta sín frá byrjun til enda. Endursköpunin á þessum frægu tónleikum Queen er hreint frábært að upplifa í góðum bíósal.
Vel var valið í öll hlutverk en Rami Malek er hreint út sagt magnaður sem Freddie og neglir gjörsamlega taktana og sviðsframkomuna. Hinir meðlimir Queen eru vel leiknir af Lee, Hardy og Mazzello en sérstaklega er Lee skuggalega líkur fyrirmyndinni. Grínistinn Mike Myers skýtur einnig upp kollinum og góð tilvísun í “Wayne’s World” (1992) ætti ekki að fara fram hjá aðdáendum myndarinnar.
Eftir smá umhugsun datt mér í hug að líkja mætti “Bohemian Rhapsody” við tvær Greatest Hits plöturnar sem Queen gaf út. Ég á allar fimmtán plötur sveitarinnar og á það til að skella í spilarann einni “original” plötu og spila frá byrjun til enda. Maki minn þreytist fljótt á hávaðanum og spyr gjarnan með pirringsrödd hvað sé eiginlega verið að spila þarna. Það kemur henni á óvart þegar svarið er Queen en þá segist hún oft hafa sett á Greatest Hits plöturnar og þar leiðist henni ekkert lag. Bæði Greatest Hits I og II taka saman útvarpsvænu bitana, raða í ekkert sérstaka tímaröð og úr verður “playlisti” sem geymir rjómann og hendir fitunni. “Bohemian Rhapsody” velur skemmtilegu bitana og setur þá fram í sérkennilegri tímaröð til að koma öllu því besta og helsta til skila á hnitmiðaðan máta. Og hvað með það þó aðeins sé skáldað í leiðinni!