Við höfum fylgst ágætlega með því hvað Daniel Radcliffe hefur tekið sér fyrir hendur nú eftir að Harry Potter ævintýrinu lauk (hryllingsmyndin The Woman in Black er væntanleg) og heyrt að Emma Watson haldi sér upptekinni með litlu hlutverki í My Week With Marilyn og stærra í The Perks of Being a Wallflower. En hver vissi að Rupert Grint væri að leika í stríðsmynd um loftbardaga í seinni heimstyrjöldinni yfir norður Noregi?
Myndin Into the White (kallaðist áður Comrade) fjallar um tvo breska og þrjá þýska orrustuflugmenn sem brotlenda í bardögum í Noregi og þurfa að deila kofa saman. Óhætt er að segja að Grint sé þekktasta nafnið á svæðinu, en öÖnnur hlutverk eru í höndum Lachlan Nieboer (Torchwood), Florian Lukas (Good Bye Lenin!), David Kross (The Reader – ekki rugla við David Cross) og Stig Henrik Hoff (Max Manus). Leikstjóri er hinn norski Peter Næss (Elling). Myndin verður frumsýnd þar úti í mars 2012, hvort við fáum hana í bíó veltur líklega talsvert á gengi hennar þar. Þetta eru tæknilega séð ekki nýjar fréttir, en fyrir þá sem misstu af (eins og ég) þegar stikla myndarinnar var frumsýnd í lok nóvember þá ætla ég að deila henni með ykkur:
Minnir svolítið á Liam Neeson myndina The Gray ekki satt? Spennandi val á verkefni hjá Grint annars (sniðugt að gera eitthvað allt annað) og mig hlakkar til að sjá niðurstöðuna. Hvað með ykkur? Vissi einhver af þessari mynd?