RIFF – Sex daga vinnustofa um óháða kvikmyndagerð

Bryddað er upp á þeirri skemmtilegu nýjung á RIFF – alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík, sem verður sett á morgun, að starfrækt verður 6 daga Alþjóðleg vinnustofa um óháða kvikmyndagerð á hátíðinni.
Á vinnustofunni verður farið í allt frá undirbúningi til framleiðslu, og að eftirvinnslu og leiðum til að koma verkum á framfæri. „Kvikmyndahátíðina í ár sækja margir erlendir gestir sem halda fyrirlestra, stýra umræðum og hugmyndavinnu ásamt íslensku kvikmyndagerðarfólki.
Alls er um 7 skipti að ræða, og þeir sem mæta á 5 vinnustofur eða fleiri fá sérstaka vottun fyrir þátttökuna,“ segir í tilkynningu frá hátíðinni.

Vinnustofan fer alla jafna fram í Þjóðminjasafninu seinnihluta dags, utan sú fyrsta sem verður í Center Hotels Plaza við Aðalstræti, og er fjöldi þátttakenda hverju sinni takmarkaður. Það gildir því að hafa hraðar hendur og skrá sig!

Þátttökugjald er 2.500 kr. fyrir passahafa á RIFF, annars 3.000 kr. og verð á stökum masterklassa er 1.000 kr.

Hér að neðan má sjá nánari tímasetningar, nöfn fyrirlesara og viðfangsefni hverrar vinnustofu.

Föstudagur 24. Sept. kl. 16:00 Center Hotel Plaza
Laird Adamson (US) Hvernig kemurðu verki þínu á framfæri?

Laird Adamson frá Magnolia Pictures leiðbeinir um kynningu nýrrar kvikmyndar á alþjóðlegum kvikmyndahátíðum og -mörkuðum.

Laugardagur 25. Sept. kl. 13:00 Þjóðminjasafnið

Amy Hardie (UK): Að gera heimildarmynd: Út frá hennar eigin mynd „The Edge of Dreaming“
Viltu fara á „Endamörk drauma“?
Leikstjórinn býður áhorfendum að njóta kvikmynda á nýjan hátt. „Endamörk drauma“ er heimildarmynd sem fer með okkur inn í drauma venjulegrar konu, skynsamrar, önnum kafinnar þriggja barna móður sem hefur ekki tíma til að muna alla sína drauma.

Laugardagur 25. Sept. 16:00 Þjóðminjasafnið

Hlutverk kvikmyndasölufyrirtækjanna í dag: Philipp Hoffmann (DE)

Phillip frá þýska sölufyrirtækinu Match factory lýsir aðstæðum í heimsmarkaði kvikmyndanna í dag og ræðir við þáttakendur um þróunina síðustu ár.
Sunnudagur 26. Sept. 16:00 Þjóðminjasafnið

David Edelstein (US): Jim Jarmusch og seinni bylgja nýamerískrar kvikmyndagerðar:

Blaðamaður New York Magazine, David Edelstein, fer yfir þetta magnaða tímabil í bandarískri kvikmyndasögu.

Þriðjudagur 28. sept. 16:00 Þjóðminjasafnið
Athina Rachel Tsangari (GRI) : Að framleiða og leikstýra leiknum myndum

Gríski leikstjórinn og framleiðandinn Athina Tsangari ræðir ýmis atriði sem koma upp við gerð skáldverka á hvíta tjaldinu og stjórnar umræðum í kjölfarið.

Miðvikudagur 29. sept kl. 16:00 Þjóðminjasafnið

David Kwok (US): Hvernig geta kvikmyndahátíðir stutt sjálfstæða kvikmyndagerð?

Hvernig stæði sjálfstæða kvikmyndagerðin ef ekki væri fyrir kvikmyndahátíðir? Stjórnandi TriBeca-kvikmyndahátíðarinnar í New York stjórnar pallborðsumræðum þar sem leitað verður svara við spurningunni.

Fimmtudagur 30. sept 13:00 Þjóðminjasafnið

N.C. Heiken (US): Að framleiða og leikstýra heimildarmyndum
Leikstjóri heimildarmyndarinnar ,,Kimjongilia“ (2009) reifar helstu atriði heimildamyndagerðar

Ath! Til að öðlast viðurkenningaskjal verður viðkomandi að mæta a.m.k. á 5 viðburði.

Stikk: