Toni Collette er skemmtileg leikkona, og í myndinni Mental, leiða þær saman hesta sína á ný, hún og leikstjóri og handritshöfundur hinnar stórskemmtilegu Muriels Wedding, PJ Hogan.
Collette leikur í myndinni léttgeggjaða konu sem ræður sig sem barnfóstru fimm barna.
Sjáið stikluna hér fyrir neðan:
Söguþráðurinn er á þá leið að þegar eiginkonan Shirley kiknar undan álaginu sem fylgir uppeldi fimm unglingsstúlkna og því að eiga mann sem er henni ótrúr, þá sendir eiginmaðurinn, Barry, eiginkonu sína á stofnun, en reynir að telja öllum trú um að hún hafi farið í frí.
Nú þarf hann að hugsa um börnin og heimilið sjálfur á meðan hún er í burtu, og hann ákveður því í skyndi að ráða puttaferðalanginn Shaz, sem leikin er af Toni Collette, til að hjálpa til, en hún reynist vera hálfgerð pönkútgáfa af hinni þekktu Disney barnfóstru Mary Poppins.
Myndin var frumsýnd í Ástralíu í síðasta mánuði, en verður frumsýnd í Bretlandi 16. nóvember. Ekki er vitað hvort myndin komi til Íslands í bíó.