Í aðdraganda Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík – RIFF verða haldin þrjú svokölluð pöbb-kviss í innri salnum á KEX-hostel við Skúlagötu. Kvikmyndaþema verður á öllum spurningum og í boði eru fínustu verðlaun fyrir hlutskörpustu þátttakendur. Tveir eru saman í liði, 30 spurningar verða bornar upp og leikar hefjast kl. 2000 hverju sinni.
Á fyrsta kvöldinu, fimmtudagskvöldið 13. september næstkomandi verður spyrill Hugleikur Dagsson, listamaður, skemmtikraftur og kvikmyndanörd. Pöbb-kvissið verður svo aftur haldið fimmtudaginn 20. september en þá verður spyrill kvikmyndagerðarkonan Marsibil Sæmundardóttir. Degi fyrir upphaf hátíðarinnar, miðvikudaginn 26. september, má svo reyna að síðustu undir styrkri stjórn spurningarhöfundarins Páls Guðmundssonar.
Fyrstu verðlaun eru 2 passar á RIFF fyrir stigahæsta liðið hverju sinni. Önnur verðlaun verða í fljótandi formi í boði Pilsner Urquell. Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík hefst 27. september næstkomandi. Miðasala er þegar hafin á riff.is.