Á Laugavegi 64 í miðbæ Reykjavíkur stendur eitt af síðastu vígjum safnarans enn og gengur býsna vel. Þorvaldur Kristinn Gunnarsson, betur þekktur einfaldlega sem Valdi, hóf rekstur á Geisladiskabúð Valda árið 1998 og enn í dag streymir kúnnahópur til hans og festir kaup á notuðum og nýjum vörum í heimi afþreyingar. Alls voru fjórar safnaraverslanir á þröngu svæði við Laugaveginn þegar best lét en Valdi stendur einn eftir. „Ég held það sé vegna áhuga. Þó hinir hafi haft áhuga þá var hann ekki eins brennandi og hjá mér. Ætli maður sé ekki bara það mikill „nörd“. Það er mikill plús í svona bransa,“ segir Valdi.
Allt að 20.000 titlar í boði
Búðin hans Valda er um 50 fermetrar að stærð og allt að 20 þúsund titla er að finna af tölvuleikjum, geisladiskum, vínyl plötum, Blu-ray, DVD og vídeóspólum. „Það er síðasti séns að kaupa vídeóspólur,“ segir Valdi. Vegna mikils áhuga á tónlist, bíómyndum og tölvuleikjum hóf Valdi rekstur á Geisladiskabúð Valda fyrir um 19 árum síðan og á þeim tíma var hann að klára viðskiptafræði. „Ég var að skrifa ritgerð um rekstarerfiðleika smáfyrirtækja sem er frekar spaugilegt. En þetta var eiginlega bara hugdetta. Ég hugsaði með mér að bara prófa þetta og svo gekk miklu betur en ég átti von á“, segir hann.
Í fyrstu fór reksturinn hægt af stað sökum lítils úrvals af varningi en frá og með árinu 2000 hafa viðskipti haldist nokkuð stöðug. Í fyrstu seldi Valdi eingöngu notaðar vörur en smám saman festi hann kaup á nýju efni og síðan þá hefur nýr varningur verið seldur í bland við notaðan. Búðin hefur alltaf verið á sama stað en Valdi viðurkennir að hafa velt því fyrir sér að flytja hana. „En það er alltaf gott að vera á sama stað. Fólk finnur þig þá alltaf.“
Fjölgun ferðamanna komið sér vel
Þrátt fyrir breytta neyslumenningu og þróun sem hefur leitt til niðurhals á bæði tónlist og kvikmyndum, bæði löglegrar og ólöglegrar, hefur Valdi haldið velli. Að hans sögn tók hann eftir breyttu landslagi fyrir um sex árum síðan en aðrar vörur bæta upp tapið. Sem dæmi hefur tónlist á vínyl komist mikið í tísku og sala á þeim varningi heldur veltunni uppi núna í dag. „Þetta helst því nokkurn veginn stöðugt. Tónlist selst mest. Það er líka góð sala í tölvuleikjum og bíómyndum. Þetta eru vörur sem seljast en þó kannski ekki eins hratt og í gamla daga. Helstu viðskiptin koma frá fastakúnnum og ferðamönnum. Hérna koma oft útlendingar og eru að finna „out of print“ eintök af myndum sem þeir hafa kannski leitað að í mörg ár“, segir hann. Aukinn fjöldi ferðamanna hefur komið sér vel fyrir Geisladiskabúð Valda. „Ég er ánægður með fjölgun ferðamanna og þessi þróun hefur skapað skemmtilegt mannlíf hérna í miðbænum“, segir hann.
Safnarar eru trúr kúnnahópur
Samkeppnin í þessum bransa hefur dregist saman og safnarabúðum hefur fækkað. Lengi vel var Skífan með stóra verslun á Laugaveginum en talsvert er síðan hún lagði upp laupana. Valdi er á þeirri skoðun að safnarabúðir muni ekki deyja út en hann telur að möguleiki sé á þvi að veltuhraðinn verði það hægur að það hætti að borga sig að vera með þær. „Safnararnir verða alltaf til. Um 80% almennings er alveg sama um þá hluti sem safnarar láta sig varða eins og umbúðir og slíkt. Skífan missti safnarana frá sér því þeir voru bara að einblína á vinsælt efni sem vissulega seldist hratt á þeim tíma. En svo hverfur þessi „mainstream“ markaður og þá eru bara safnarar eftir. Þeir fáu sem eru enn að kaupa. Kannski kunna þeir bara ekkert að „downloada“,“ segir Valdi og hlær við. „En þeir eru trúr kúnnahópur.“
„Á meðan maður nennir“
Valdi getur hugsað sér að halda búðinni gangandi í kannski fimm ár í viðbót. „Á meðan maður nennir. Og maður á að hætta á meðan maður nennir ennþá,“ segir hann. Svo fljótlega bætir hann við að „svo getur allt eins verið að maður verði hér eftir 10 ár. Hver veit? Ef maður nennir því.“
Eins og sjá má eru þessir 50 fermetrar vel nýttir.