Paródía af bestu gerð. Grínlaust!

Það getur svo oft verið erfitt að útskýra hvernig og hvers vegna eitthvað er fyndið. Þess vegna dettur manni sjaldan betri lýsingu í hug en einfaldlega: „Af því bara!“ Þegar kemur að því að rýna í grínmyndir er ekkert sem skiptir meira máli en að húmorinn haldist stöðugur og skemmtanagildið missi ekki flugið. Þetta eru nú varla nýjar fréttir, frekar en sú staðreynd að ekki finnst öllum sami hluturinn vera jafnfyndinn. Í mínu persónulega tilfelli sýnist mér 21 Jump Street tala alveg nákvæmlega sama tungumál og ég í gríninu, og enn finn ég til í andlitinu og rifbeininu eftir að hafa horft á hana.

Munið eftir myndinni The Other Guys? Nokkuð svipuð þessari og hún reyndi einmitt að vera svona góð en náði því ekki alveg. Annars grunaði mig ekki annað en að ég gæti átt von á einhverju eðalrugli frá sömu leikstjórum og gerðu Cloudy with a Chance of Meatballs, einhverja sýrðustu og fyndnustu ræmu sem tölvur hafa teiknað. Jump Street er einnig skrifuð af öðrum handritshöfundi Scott Pilgrim og ætti þátttaka þessara manna í sameiningu að segja hvernig húmor er hér í boði. Segjum bara að ef Zombieland var bandaríska svarið við Shaun of the Dead, þá er 21 Jump Street það næsta (frá Sony) sem líkist Hot Fuzz. Það er örlítill – en ekki mikill – munur á greindarvísitölum, en ég verð hissa ef mér tekst að finna fyndnari mynd á öllu þessu ári, og kannski næsta. Hún er djöfulsins gimsteinn!

Það er erfitt að elska ekki góða paródíu sem neglir kunnuglegar klisjur (úr löggumyndum, buddy-formúlum og high school-sögum), kemur svo með gígantíska hrúgu af steypugríni inn á milli en býr samt til pláss (aðallega í seinni hlutanum) svo hægt sé að halda upp á persónurnar og taka þær semí-alvarlega. Myndin tekur eðlilegar sveiflur og líður styst á milli góðra brandara í fyrri helmingnum, en hún verður aldrei þvinguð eða þreytt. Flæðið rúllar stöðugt, sem þýðir að lopinn er sjaldan teygður í langdregnum spunasenum (punktaðu þetta niður, Judd Apatow), og myndin heldur frábærum dampi út af hressu, óvæntu gríni, skemmtilegri tónlist og dýnamísku samspili frá leikurunum. Aldrei hefði mér áður dottið í hug að svipbrigðalausa kvennagullið úr Step Up 1 og feiti, kjaftfori lúðinn úr Superbad myndu einn daginn sameinast í drepfyndið gríntvíeyki.

Sá sem kemur best út úr þessari mynd er vafalaust Channing Tatum, sem segir eiginlega nokkuð mikið vegna þess að það eru langflestir fyndnir á sinn hátt. Tatum hefur fengið heldur tilgangslaust diss frá fólki að mínu mati en ég giska að ýmsir eru líklegir til þess að breyta áliti sínu eftir að hafa séð hversu vel hann virkar hérna. Þetta er allt, allt annar Channing Tatum en maður er vanur. Jafnvel þeim sem er illa við leikarann munu kaupa hann strax sem vöðvatröll með sætt andlit og ljóskulega greind. Það eru margir brandarar byggðir í kringum útlit hans og kvennabræðandi sjarma.

Eins og allir aðrir missti ég andlitið þegar ég sá hversu grannur Jonah Hill varð skyndilega orðinn (ætli þetta hafi verið kókaín-kúrinn?). Einhvern veginn fór hann hratt úr því að vera tvífari Cartman eða Chris Penn og breyttist í staðinn í þykkari útgáfu af Frankie Muniz. Hill var fyrst þessi týpíski feiti gaur sem sást í öllum grófum gamanmyndum, og – alveg eins og Tatum – með oftast sama svipinn. Hann átti sína fyndnu daga og síðri, pirrandi daga en undanfarið hefur hann verið duglegur að taka gáfaðar ákvarðanir á ferlinum (enda búinn að hreppa eina flotta Óskarstilnefningu á þessu ári) og fáar betri en sú að snúa bökum saman við Tatum. Hill missti sem betur fer ekki húmorinn með aukakílóunum, og í sitthvoru lagi eru félagarnir oftast góðir, en saman eru þeir helber snilld og nánast fæddir í þetta vinasamband.

Ég á erfitt með að muna hvort ég hafið hlegið mest yfir kúgunarsenunni á klósettinu, vímukaflanum eða bílaeltingarleiknum sem gerði óaðfinnanlega grín að sprengingum í hasarmyndum. Það er að minnsta kosti haugur af skemmtilegum uppákomum; óvæntum, yfirdrifnum, fyrirsjáanlegum og snjöllum, ekki síst þegar búið er að rjúfa fjórða vegginn, sem er gert með óborganlega lúmskum hætti. Litlu, földu djókarnir („I can’t masturbate to this!“) voru einnig alveg ómetanlegir, en slíkt tíðkaðist líka mjög oft í Cloudy.

Þeir sem hafa séð samnefndu þættina vita örugglega hvers vegna enginn hefur gert bíómynd um þá í svona langan tíma, og ákvörðunin að gera þetta að spoof-sýru í líkingu við Starsky & Hutch (bara mun, MUN betri) var algjörlega sú rétta, frekar en að fara t.d. Miami Vice leiðina. Myndin sýnir þáttunum samt aldrei óvirðingu og vitnar í þá á bestu stöðum með fullkomnum hætti.

Leikstjórarnir Chris Miller og Phil Lord hafa núna gert tvær gerólíkar myndir sem fara hratt í gang, halda glæsilegum dampi og eru smekkfullar af skemmtilegum, rugluðum atriðum og skammt af tilfinningum. Cloudy var útlitslega eins og glansandi nammiskál og leit dásamlega út. 21 Jump Street er flott unnin, vel skotin og sýnir merki um vönduð vinnubrögð í eltingarleikjunum (sem er ekki sjálfsagður hlutur í hasargamanmyndum). Það verður stuð að fylgjast betur með þeim í framtíðinni, og líka handritshöfundinum Michael Bacall (sem reyndar átti stóran þátt í hinni metnaðarfullu en auðgleymdu Project X).

21 Jump Street mun allavega eiga sér áberandi sess í minni Blu-Ray hillu bara svo ég geti haft hana við hendi á erfiðum degi eða í ljúfum félagsskap. Ef hún kemur þér ekki í betra skap skaltu aldrei taka mark á orði sem ég skrifa hérna framar. Það eru yfirgnæfandi líkur á því að við munum aldrei verða sammála um neitt sem tengist húmor eða kvikmyndum (eða nokkru öðru ef út í það er farið).


(8/10)