Meðal gesta á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík 2011 verður breski leikstjórinn James Marsh. Verður af því tilefni sérstakur flokkur helgaður honum og myndum hans á hátíðinni í ár.
Meðal myndanna sem sýndar verða er hin margfræga heimildamynd Man On Wire frá 2008. Hún segir frá franska ofurhuganum Philippe Petit, sem framdi gjörning árið 1974 sem nefndur hefur verið „listrænn glæpur aldarinnar“: að loknum ítarlegum undirbúningi laumaðist Petit upp á þak á World Trade Center í New York, strengdi stálvír á milli tvíburaturnanna og gekk svo línudans á milli þeirra – í trássi við lög, svo ekki sé meira sagt. Hann varð fyrir bragðið heimsfrægur á svipstundu. Myndin hlaut Óskarsverðlaunin sem Besta heimildarmynd ársins 2008.
Einnig verður sýnd myndin Wisconsin Death Trip frá árinu 1999. Myndin, sem byggir á sannsögulegum heimildum, segir frá smábænum Black River Falls í Wisconsin sem virtist liggja undir einhvers konar bölvun á síðasta áratug 19.aldar; sérviska sumra íbúanna, ofsóknaræði annarra, draugagangur, brennuvargar, og ýmis önnur brjálsemi plagaði bæjarbúa um árabil, svo fá dæmi eru um annað eins. Í myndinni bregður fyrir ljósmyndum sem teknar voru í bænum á sínum tíma ásamt því að vitnað er í greinar úr dagblaði bæjarins frá þessum örlagaríku árum.
Loks mun RIFF sýna myndina Project Nim, sem er heimildarmynd og fjallar um tilraun sem gerð var á vegum Columbia-háskóla á áttunda áratug síðustu aldar. Simpansinn Nim var tekinn frá móður sinni við fæðingu og alinn upp sem mennskt barn í New York á áttunda áratug síðustu aldar, til að sjá hvort hann gæti tileinkað sér táknmál og fleiri hætti manna. Myndin hefur vakið mikla athygli enda vakti tilraunin miklar deilur á sínum tíma.
Í tilkynningu frá Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík segir að það sé hátíðinni mikil ánægja að bjóða James Marsh til hátíðarinnar í ár. Marsh mun verða viðstaddur sýningar á myndum sínum og taka þátt í umræðum með áhorfendum að þeim loknum. Sýningartímar myndanna verða auglýstir er nær dregur.
RIFF 2011 stendur yfir dagana 22. september til 2. október.