Ókeypis myndir á RVK Feminist Film Festival

Alþjóðlega kvikmyndahátíðin RVK Feminist Film Festival er hafin og stendur til 17. janúar. Í tilkynningu frá hátíðinni, sem haldin er nú annað skiptið, segir að áfram verði lögð áhersla á kvenleikstýrur, sjóndeildarhringurinn víkkaður og nýju þema bætt við. Haldinn verður Zoom umræðupanell tileinkaður kvikmyndatökukonum.

Aðalmarkmiðið í ár er að tengjast Trans Ísland, Samtökunum ’78 og Intersex Ísland og þar með auka sýnileika LGBTQI+ samfélagsins á Íslandi og erlendis. Vegna COVID-19 fer hátíðin fram á netinu að þessu sinni, en vel valdir viðburðir verða í boði innan sóttvarnatakmarkana.

Lucie Samcová Hall Allen, sendiherra ESB á Íslandi mun opna hátíðina með netskilaboðum fimmtudaginn 14. janúar. Opnunarmyndin í ár er Port Authority, í leikstjórn Danielle Lessovitz. Kvikmyndin er áköf ástarsaga sem gerist í kiki ballroom senunni í New York og neyðir aðalleikarann, Paul, til að takast á við eigin sjálfsmynd og hvað það þýðir að tilheyra þegar hann uppgötvar að Wye, 22 ára stúlkan sem hann leitaði til og varð ástfanginn af er transkona.

Netplatform hátíðarinnar er hægt að nálgast á heimasíðu RVK FFF. Helstu styrktaraðilar hátíðarinnar í ár eru Reykjavíkurborg, Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Sendinefnd Evrópusambandsins á Íslandi, Franska Sendiráðið og Norræna Húsið.

Í ár ætlar RVK Feminist Film Festival að bjóða öllum Íslendingum frítt upp á Kvikmyndahátíð heim í stofu. Líkt og í fyrra verða á boðstólnum kvikmyndaverk eftir konur hvaðanæva að úr heiminum; Frakklandi, Þýskalandi, Íslandi, Egyptalandi, Kýpur, Portúgal, Ísrael, Ástralíu, Noregi og fleiri löndum. Auk þessa verða viðtöl og panelar ásamt Q&A sett á Vlog-hátíðarinnar.

Aðalnýjungin í ár verður frumsýning á glænýrri örseríu NORMS úr smiðju The Lost Shoe Collective. Serían er tekin upp bæði í Reykjavík og Berlín og varpar ljósi á dagsdaglegar raunir okkar kynslóðar sem oftar en ekki er horft framhjá.

„Við ætlum að sýna feminískar kvikmyndir og leggja áherslu á kvikmyndir sem eru öðruvísi, með fjölbreyttum kvenhlutverkum og karakterum sem gefa okkur tækifæri til að umbylta fyrirsjáanlegum kynjamiðuðum normum. Fyrir okkur fjallar feminísmi um jafnrétti fyrir alla,“ segir í tilkynningunni.

„Því miður er raunveruleikinn ekki endurspeglaður í kvikmyndum og sjónvarpi heimsins þar sem kvikmyndabransinn er mjög karllægur. Vissulega er þetta að breytast hægt og rólega en eins og staðan er núna þá er langt í land með að konur, kynsegin fólk og fjölmenning sé sýnd í „mainstream“-miðlum.

Kvikmyndamiðilinn er ótrúlega sterkur áhrifavaldur í lífi fólks og einmitt þess vegna er RVK Feminist Film Festival svo mikilvæg hátíð og með því að auka sýnileika kvikmynda sem endurspegla raunveruleikann erum við að búa til fyrirmyndir og bylta staðalímyndum sem heyra vonandi bráðum sögunni til,“ segir Lea Ævars hátíðastjóri RVK FFF.

Nara Walker verkefnastjóri og María Lea Ævarsdóttir hátíðastjóri

Heiðursverðlaunahafi hátíðarinnar í ár er Halla Kristín Einarsdóttir kvikmyndagerðarkona en hún hefur gert kvikmyndir á borð við Konur á rauðum sokkum og Hvað er svona merkilegt við það. Halla Kristín er sú sem gerði fyrstu kvikmyndina um Transgenderisma á Íslandi – Transplosive, en hún var gerð árið 2006 og verður sýnd á hátíðinni.

Kvikmyndahátíð Norræna Hússins, Nordic Film Focus er aftur í samstarfi við RVK FFF. Norska kvikmyndagerðarkonan og listakonan, Lene Berg, er fókus þeirra í ár. Sýnd verða sex kvikmyndaverk eftir hana en verk hennar byggja hvorki á fyrirframgefnum hugmyndum né viðteknum gildum, þau eru beitt, fyndin og óháð normum samfélagsins. Annað árið í röð verður sýnd þýsk mynd, Cocoon í samstarfi við félaga RVK FFF hjá Goethe-Institute, grípandi kvikmynd sem fær áhorfendur með í ferðalag sjálfsuppgötvunar í leikstjórn, Leonie Krippendorff.


Zoom – pallborðsumræður um birtingarmynd LGTBQI+ samfélagsins í sjónvarpi og kvikmyndum með Samtökunum ‘78, Trans Ísland og Intersex Ísland verða sunnudaginn 17. janúar ásamt heiðursverðlaunahafa hátíðarinnar, Höllu Kristínu.


Fabúlera – Short Film Script Lab með Gabrielle Kelly í fararbroddi verður sett á ZOOM og verður auðvitað með öðru sniði. Það verður live kynning á ZOOM um stuttmyndagerð með Gabrielle og kvikmyndafólki úr bransanum í USA á meðan á hátíðinni stendur. Þær sem komast inn í Fabúlera fá síðan einkatíma með Gabrielle á Zoom til að vinna að handritinu sínu. Hugmyndin er síðan að halda vinnustofu í raunheimum þegar COVID er farið á brott næsta sumar. Gabrielle Kelly mun þá koma og vinna með umsækjendum í eigin persónu.


RVK FFF mun í samstarfi við Franska Sendiráðið sýna hina margverðlaunaðu frönsku og alsírsku kvikmynd Papicha í leikstjórn Mounia Meddour. Í samstarfi við Alliance Française, Franska Sendiráðið og Institut Français, verða sýndar 13 stuttmyndir (framleiddar á árunum 1898 til 1907) eftir fyrsta kvenleikstjóra skáldskaparmynda í kvikmyndasögunni, Alice Guy. Stuttmyndirnar verða sýndar í höfuðstöðvum Alliance Française en farið verður eftir sóttvarnarreglum í hvívetna. Eftir stuttmyndirnar verður Q&A þar sem franska kvikmyndagerðarkonan Clarisse Charier mun ræða við Véronique le Bris en hún er stofnandi cine-woman.fr, fyrsta kven-vefritsins um kvikmyndahús.

RVK FFF í samstarfi við Sendiráð Kýpur sýnir kvikmyndina Pause í leikstjórn Tonia Mishiali. Kvikmyndin fjallar um heimilisofbeldi og segir frá veruleika konu sem er föst í kúguðu hjónabandi. Í tengingu við þessa mynd verður streymt „live“-pallborðsumræðum um ofbeldi í nánum samböndum. Þar verður málefnið tekið fyrir á fræðilegum, pólitískum og feminískum grundvelli, rætt verður við fólk sem hefur verið áberandi þegar kemur að umfjöllun um heimilisofbeldi/ofbeldi í nánum samböndum. Þessi viðburður, No Woman Alone, verður streymt laugardaginn 16. janúar.

„Sérstaklega á þessum tímum sem við erum að upplifa núna, þegar margir eru án ástvina sinna, vina eða félaglegs tengslanets þá geta kvikmyndir verið okkur mikilvægur félagsskapur í einveru. Dagskráin okkar er mjög fjölbreytt og hugsuð til að gleðja og hlýja hug og hjörtu okkar á þessum erfiðu tímum. Með því að hafa hátíðina á netplatformi opnast möguleiki á því að ná til hóps sem við venjulega náum ekki til í kvikmyndahúsum. Við vonumst til að umræðupallborðið okkar No Woman Alone nái að opna augun á fólki og skapa snjóboltaáhrif langt umfram kvikmyndahátíðina,“ segir Nara Walker verkefnastjóri RVK FFF.

Á SYSTIR stuttmyndakeppni hátíðarinnar verða sýndar stuttmyndir sem komust áfram í keppninni í ár. Verðlaunahafarnir verða tilkynntir á lokadegi hátíðarinnar 17. janúar. Dómararnir í ár eru Guðrún Ragnarsdóttir, Tinna Hrafnsdóttir og Guðrún Elsa Bragadóttir. Í ár verða veitt verðlaun í fjórum flokkum: Besta tilraunakennda stuttmyndin, Besta heimildamyndarstuttmyndin, Besta skáldskaparstuttmyndin og Besta COVID-19 stuttmyndin.

Verðlaunagripirnir í ár eru gerðir af listakonunni Claire Paugam en hún er stjórnarmaður í Nýlistasafni Reykjavíkur og hlaut Hvatningarverðlaunin frá Íslensku Listaverðlaununum árið 2020 fyrir öflugt framlag sitt til myndlistar.

Lokamynd RVK FFF verður heimildamynd frá Egyptalandi, Lift like a Girl. Kvikmyndagerðarkonan Mayye Zayed fylgir Zebiba, ungri stúlku í gegnum fyrstu fjögur ár hennar á keppnisvettvangi lyftinga. Fáum við að fylgjast með Zebiba vaxa úr grasi og sjá hvaða fórnir hún þarf að færa til að ná lengra á þessari íþrótt. Hún notar þann missi og sársauka til að hvetja sig áfram til að verða betri íþróttakona og sterkari manneskja.