(spoiler-viðvörun! Fyrir þá sem hafa ekki séð Funny Games)
Funny Games er áhugavert kvikmyndaverkefni. Michael Haneke skrifaði og leikstýrði bæði þeirri upprunalegu frá Austurríki 1997, og endurgerðinni 10 árum síðar í Bandaríkjunum 2007. En endurgerðin var skot-fyrir-skot, og vegna lítilla sem engra breytinga á söguþræði, samtölum og formi mun ég tala um myndirnar sem eitt og sama verkið.
Funny Games er á margan hátt tilraunamynd. Myndin spilar með raunveruleikann og kvikmyndaformið, ásamt því að brjóta fjórða vegginn. Sjaldan hefur mynd fengið jafn misjafna og ósamræma dóma frá gagnrýnendum, og er annað hvort talin hræðileg eða bráðsnjöll. Sjálf tilheyri ég seinni hópnum. Myndin fjallar um ofbeldi, en alls ekki á hefðbundinn hátt. Í fyrsta lagi er ofbeldið ekki sýnt á skjánum, heldur er það utan rammans. Þar sem saga myndarinnar gengur nánst aðeins út á ofbeldi, þar sem tveir ungir menn pynta og myrða þriggja manna fjölskyldu, ónáðar þetta áhorfandann ómeðvitað. Myndin virðist tilgangslaus, þar sem hún snýst út á ofbeldi en sýnir það ekki. Þá gæti áhorfandanum fundist sem svo að hann þurfi að leyta að öðrum tilgangi með sögunni, sem er hægara sagt en gert. Lykilatriðið er að áhorfandinn þarf að setja sig á sama stall og myndin er sett. Myndin er sjálfsmeðvituð og þess vegna þarf áhorfandinn að vera það líka. Hann þarf að minna sig á merkingu orðsins „áhorfandi“ og vera meðvitaður um kænsku kvikmyndaformsins.
Umtalaðasta atriði myndarinnar er án efa hið fræga „fjarstýringar-atriði“. Í þeirri senu nær persóna Anne, sem er móðirin í fjölskyldunni og fórnarlamb mannanna tveggja, Peter og Paul, að grípa til byssu og skjóta Peter. Um leið og skotinu er hleypt af kemur fát á Paul. Hann fer að róta í sófasettinu þar til að hann finnur sjónvarpsfjarstýringu, og svo spólar hann atriðið til baka. Þar með er allt raunsæi myndarinnar flogið út um gluggann, og atburðirnir færast aftur á bak þar til rétt fyrir valdatöku Anne. Paul nær í seinna skiptið að grípa byssuna af henni, og Peter lifir af út myndina. Ég man skýrt eftir þessu atriði þegar ég fór á myndina í kvikmyndahúsum, þar sem að allur salurinn klappaði þegar Peter var skotinn. Fólk hrópaði fagnaðarorð og lýsti yfir létti, þar sem að strákarnir tveir voru einstaklega kvikindislegir og höfðu upp að þessu haft alla stjórnina í myndinni. Samkvæmt umræðum á kvikmyndasíðunni imdb.com gerist þetta mjög oft hjá áhorfendum myndarinnar í kvikmyndahúsum, þeir klappa og fagna. Um leið og Paul spólar til baka trúa áhorfendurnir að sjálfsögðu ekki sínum eigin augum, þarna var atburður sem er ómögulegur í raunveruleikanum framkvæmdur. Áhorfandinn verður ýmist pirraður yfir hagræðingunni, hneykslaður yfir óraunsæinu, eða jafnvel skemmt yfir fáránleikanum. Það sem áhorfandinn áttar sig kannski ekki á um leið er að þar með hefur myndinni tekist að kalla fram blóðþorsta hjá honum og lætur hann vita af því um leið. Ofbeldi var fagnað í örskamma stund og um leið var þaggað niður í fagnaðarlátunum. Atriðið nær algjörlega að spila með tilfinningar, væntingar og sérstaklega viðbrögð áhorfandans. Þar með eru kænskubrögð og óáreiðanleiki kvikmyndaformsins sýnd, sönnuð og nýtt á örfáum andartökum.
Hver er tilgangurinn með að gera ofbeldisfulla mynd? Mynd um mannvonsku og morð? Oft er reynt að svara spurningum um ástæður mannvonsku og gagnrýna samspilun samfélagsins í slíkum myndum. Að sjálfsögðu spyrja meðlimir fjölskyldunnar af hverju í ósköpunum Peter og Paul séu að gera þeim þetta. Þeir svara slíkum spurningum með lygum og kaldhæðni, og gefa ýmsar mismunandi ástæður yfir gjörðum sínum í gegnum myndina. Sögurnar sem þeir segja minna einmitt á væntingar áhorfandans gagnvart slíkum persónum, og hafa eflaust allar verið notaðar í öðrum kvikmyndum til að útskýra slíka hegðun. Paul snýr sér einnig stundum að myndavélinni og ávarpar áhorfandann beint. Hann spyr spurninga eins og „Hvað heldur þú? Heldur þú að þau eigi möguleika?“ Einu sinni tala Peter og Paul um það að þeir geti ekki drepið persónurnar strax, þar sem að myndin er ekki orðin nógu löng. Slík atriði ásamt fjarstýringaratriðinu afskrifar þá sem raunverulegar persónur. Þeir láta áhorfandann vita að þeir eru skrifaðir í handritið til þess eins að valda fjölskyldunni sársauka og benda um leið á fáránleika þess hlutverks. Um leið er þá bent á fáránleika þess að þú sért að horfa á þessa kvikmynd og að þú sért að búast við svörum og ástæðum, eða allavega ofbeldi og ógeði. Almenn kvikmyndalengd er gagnrýnd, ásamt gægjuþörf (e. voyeurism) áhorfandans. Mörgum fannst þess vegna myndin og leikstjórnin vera full sjálfsaðdáunar, og að það væri verið að svindla á áhorfandanum og tala niður til hans. Að sjálfsögðu er það óþægileg tilfinning og því skil ég það þegar myndin fær neikvæð viðbrögð. Það sem vantar upp á það sjónarhorn er hinsvegar að Haneke er ekki nærri því jafn sekur um að nota áhorfandann og blekkja hann eins og þær myndir sem hann er að vitna í. Haneke er að gagnrýna, ekki upphefja, og þess vegna er myndin ekki móðgun við áhorfandan heldur aðeins skilaboð; einskonar samræður við áhorfandann.
Funny Games er því ekki mynd sem vill miðla áfram sögu. Sagan er sjálfsmeðvituð. Hún þrýfst á viðbrögðum og tilfinningum áhorfenda en nánast engu öðru. Hvað tilraunamyndir varðar er gróði, góðir dómar og vinsældir sjaldnast mikilvægt leikstjóranum. En þessi tilraunamynd er einstök á þann hátt að hún virkar betur eftir því sem fleiri sjá hana og eftir því sem meira er talað um hana. Annars komast skilaboðin ekki til skila, því myndin byggist á viðbrögðum. Þess vegna er skiljanlegt að Haneke hefði tekið fyrir þetta óvanalega verkefni, að endurgera sína eigin mynd skot fyrir skot. Í vestrænu samfélagi er ofbeldi í kvikmyndum einna helst upphafið og því á myndin best heima í því samfélagi. Að endurgera hana á ensku og sýna hana í fleiri vestrænum kvikmyndahúsum en ella var því mjög skiljanlegt og nánast nauðsynlegt boðskapnum.
Myndin er tilraunarmynd í mjög svo ógnvænlegri merkingu; hún er tilraunin, bíósalurinn er búrið og þú ert tilraunarottan. Haneke (menntaður í sálfræði, heimspeki og leikhúsi) er hinn óði vísindamaður. Hugsaðu til Hostel, til Saw myndanna og fleiri slíkra. Af hverju eru þær gerðar? Af hverju ferð þú á þær? Hvað viltu fá út úr því? Horfðu svo á Funny Games og reyndu að svara þessum spurningum, eða í það minnsta átta þig á þeim.