Þessa dagana stendur yfir kúbversk kvikmyndahátíð í Bíó Paradís við Hverfisgötu en þetta er í fyrsta skipti sem kúbverskar myndir eru sýndar hér á landi. Af því tilefni spurðum við einn af skipuleggjendum hátíðarinnar, Eyjólf B. Eyvindarson, út í hátíðina, en Eyjólfur bæði valdi myndirnar sem sýndar eru, og situr í stjórn Vináttufélags Íslands og Kúbu.
1. Afhverju hefur aldrei verið sýnd kúbönsk bíómynd á Íslandi fyrr?
Það er góð spurning, sennilega er það vegna þess að fáar kvikmyndir frá rómönsku Ameríku komast í dreifingu hjá þeim aðilum sem kvikmyndahús hérlendis skipta við.
Eitthvað getur það verið vegna þess að þessi menningarheimur þykir of fjarlægur en það hefur verið að breytast upp á síðkastið.
2. Hvernig tengist þú Kúbu og þessum bíómyndum.
Ég fór fyrst til Kúbu 19 ára og nam svo kvikmyndaleikstjórn á Spáni og vann mikið með Kúbönum þar. Við fórum svo í langt ferðalag í fyrra um eyjuna og hluti ferðarinnar var tengd ICAP (vináttustofnun Kúbu).
Ég fór svo að starfa fyrir Vináttufélag Íslands og Kúbu þegar heim kom. Sendiherra Kúbu, sem staðsettur er í Stokkhólmi, kom færandi hendi með nýjar kúbanskar kvikmyndir og kom með þessa hugmynd. Kúbanskar kvikmyndahátíðir hafa verið haldnar á Norðurlöndunum og okkur fannst tími til kominn að gera slíkt hið sama hér.
3. Hvað einkennir þeirra menningu og listir – og þá kannski sérstaklega kvikmyndagerð þeirra?
Lýsing á einkennum menningar þeirra er efni í margar ritgerðir. Hins vegar ef hægt er að draga það saman í stuttu máli varðandi kvikmyndirnar þá snúast þær, líkt og þær sem valdar voru á kúbönsku kvikmyndavikuna, um það að mestu leiti hvernig er að búa á Kúbu. Þeirra samfélag, mannlíf og það sem aflaga fer en einnig það sem er jákvætt.
4. Hafa íslenskar myndir verið kynntar á kúbu að þér vitandi?
Ekki svo ég viti en það er örugglega áhugi fyrir því hjá þeim. Kúbanir eru almennt mjög áhugasamir um útlenda gesti og þeirra menningu.
5. Er einhver mynd þarna sem menn ættu ekki að missa af
Allar myndirnar eru mjög áhugaverðar og voru valdar úr mjög stórum hópi mynda en Habanastöðin, sýnd 24.11, og Paradísarmiðinn, sýnd 25.11, sýna tvö tímabil í sögu Kúbu sem er mjög áhugavert og vel gert. Gott til þess að opna á umræðu einnig.
6. Var mikið mál að fá þessar myndir til sýninga hér á landi
Það þarf alltaf að ganga frá málum líkt og sýningarrétti og annað þegar kvikmyndir eru sýndar í kvikmyndahúsum. Hins vegar hjálpaði kúbanski sendiherrann og Bíó Paradís okkur mikið svo þetta gekk allt upp.
Smelltu hér til að sjá hvaða myndir eru á dagskrá hátíðarinnar.