Í Gamla bíói í kvöld mun Damo Suzuki, fyrrum söngvari hljómsveitarinnar Kan, spila undir sýningu á bíóklassíkinni Metropolis. Samkvæmt tilkynningu frá RIFF hefur Suzuki aldrei spilað undir sýningu myndarinnar áður, og heldur ekki æft neitt prógram með hljómsveitinni sem spilar með honum!
„Í kvöld á degi þýskrar sameiningar ætlar fyrrum söngvari hinnar snargoðsagnakenndu þýsku súrkálssveitar CAN að spila undir sýningu á Metropolis í Gamla bíói. Það hefur hann aldrei gert áður og ekki heldur æft upp neitt prógramm með hljómsveitinni, svo áhorf-/hlustendur eiga von á góðu!“ segir í tilkynningunni.
Damo gekk í CAN árið 1970 og söng á fjórum plötum með sveitinni, þar á meðal þeim tveimur sem jafnan þykja bestar; Tago Mago (1971) og Ege Bamyasi (1972). Hann tók sér pásu frá músík á milli 1974 og 1983 þegar hann snéri aftur með sólóverkefnið Damo Suzuki‘s Network. Síðan þá hefur hann baukað við ýmislegt, sjá nánar á hér.
Með honum á sviði Gamla bíós í kvöld verða tveir þýskir gítarleikarar og íslenskt hrynpar úr hljómsveitunum Moses Hightower og 1860.
„Á morgun (fimmtudaginn 4. okt) ætlar svo hljómsveitin Kimono að slást í hópinn og steikja enn meira súrkál, en nú á Faktorý,“ segir að lokum í tilkynningunni.
Miðasala fer fram á riff.is