Ný íslensk bíómynd eftir Ásgrím Sverrisson, Reykjavík, verður frumsýnd á föstudaginn næsta, þann 11. mars í Smárabíói, Háskólabíói, Laugarásbíói og Borgarbíói Akureyri.
Myndin fjallar um samband þeirra Hrings og Elsu, sem hangir á bláþræði. Þau og ung dóttir þeirra hafa fundið draumahúsið sitt en plönin fara úr skorðum og Elsa vill endurskoða samskiptin. Meðan Hringur reynir að átta sig á hvað fór úrskeiðis og hvort þau geti borið saman brotin, dregst hann inn í óuppgerð fortíðarmál Tolla besta vinar síns með afdrifaríkum afleiðingum.
Sjáðu stiklu úr myndinni hér fyrir neðan:
Leikstjórn: Ásgrímur Sverrisson
Leikarar: Atli Rafn Sigurðsson, Nanna Kristín Magnúsdóttir, Gudmundur Thorvaldsson, Gríma Kristjánsdóttir, Margrét Friðriksdóttir, Björn Thors, Stefán Hallur Stefánsson.
Áhugaverðir punktar til gamans:
– Þar sem aðalpersónan Hringur er bæði bíóhneigður og rekur verslun með kvikmyndir á mynddiskum er að finna í Reykjavík fjölmargar vísanir í frægar kvikmyndir. Þess má geta að mynddiskaverslun Hrings kallast „Ameríska nóttin“ í höfuðið á mynd Francois Truffaut, La nuit américaine, sem fjallar um kvikmyndaleikstjóra og teymi hans að taka upp kvikmynd.
– Verslunin „Ameríska nóttin“ var útbúin á jarðhæð húss við Óðinstorg í miðborg Reykjavíkur. Fjölmargir íbúar hverfisins og aðrir sem leið áttu hjá lýstu mikilli ánægju með að búið væri að opna slíka verslun og sögðust hlakka til að eiga við hana viðskipti. Einn erlendur ferðalangur komst dag einn óséður inn í búðina og gramsaði áhugasamur í hillum í um hálftíma áður en honum var tjáð að ekki væri um raunverulega verslun að ræða!
– Atli Rafn Sigurðarson er einn kunnasti sviðsleikari þjóðarinnar, hlaut meðal annars Grímuna fyrir leik sinn í uppfærslu Þjóðleikhússins á Englum alheimsins 2014. Atli Rafn er samt síður en svo ókunnugur kvikmyndaleik enda lék hann meðal annars í kvikmyndunum Hross í oss, Veðramót og Mýrin. Hlutverk Hrings er hins vegar fyrsta aðalhlutverk Atla í kvikmynd.
– Nanna Kristín Magnúsdóttir, sem leikur Elsu í myndinni, hefur verið afar áberandi í kvikmyndum, sjónvarpi og á sviði á undanförnum árum. Meðal kvikmynda sem hún hefur leikið í má nefna Foreldra, Sveitabrúðkaup, Kóngaveg og París norðursins, en fyrir síðastnefnda hlutverkið hlaut hún Edduverðlaunin árið 2015. Hún sendi einnig frá sér stuttmyndina Tvíliðaleik, sína fyrstu mynd sem leikstjóri og handritshöfundur, árið 2014.
– Guðmundur Ingi Þorvaldsson, sem fer með hlutverk Tolla, besta vinar Hrings, hefur starfað bæði sem leikari og leikstjóri í mörg ár og er nú enn fremur framkvæmdastjóri Tjarnarbíós, vettvangs sjálfstæðra leikhópa. Guðmundur Ingi var nýlega tilnefndur til National Film Awards í Bretlandi fyrir leik sinn í myndinni Chasing Robert Barker eftir Daniel Florencio.
– Gríma Kristjánsdóttir, sem leikur veigamikið hlutverk í Reykjavík, er að ljúka námi í leiklist og er þetta hennar fyrsta hlutverk í bíómynd.
– Néstor Calvo, tökumaður myndarinnar, er einn af fremstu tökumönnum Spánar. Hann hefur myndað hátt á þriðja tug bíómynda víða um heim, auk auglýsinga og margs konar annarra verkefna. Hann var samskóla Ásgrími Sverrissyni leikstjóra í The National Film School í Bretlandi og filmaði meðal annars lokamynd hans frá skólanum.
– Höfundur tónlistarinnar í myndinni er djasspíanistinn Sunna Gunnlaugs og er Reykjavík fyrsta kvikmyndin sem hún semur tónlist við