Nýtt í bíó – Deadpool!

Marvel ofurhetjumyndin Deadpool verður frumsýnd föstudaginn 12. febrúar í Smárabíói, Háskólabíói, Laugarásbíói, Egilshöll og Borgarbíói Akureyri.

„Deadpool hefur hlotið frábæra dóma og jafnvel verið talað um að Marvel hafi endurskilgreint ofurhetjugreinina með þessari viðbót!,“ segir í tilkynningu frá Senu.

Sjáðu stiklu úr myndinni hér fyrir neðan:

Deadpool fjallar um fyrrverandi sérsveitarmanninn Wade Wilson (Ryan Reynolds) sem veikist af ólæknanlegu krabbameini. Hann ákveður að gangast undir tilraunakennda læknismeðferð sem afmyndar andlit hans og líkama, en breytir honum um leið í ódrepandi andhetjuna Deadpool. Með ofurkraftana, kaldhæðnina og ástina að vopni leitar hann uppi manninn sem afskræmdi hann í því skyni að endurheimta fyrri fegurð.

deadpool

Myndin verður sú áttunda í X-Men röðinni og er leikstýrt af Tim Miller eftir handriti Rhett Reese og Paul Wernic.

Ryans Reynolds fer með aðalhlutverkið og í öðrum hlutverkum eru Morena Baccarin, Ed Skrein, T.J. Miller, Gina Carano og fleiri.

Áhugaverðir punktar til gamans: 

– Á heimasíðu myndarinnar, Deadpoolwebsite.com, er að finna fjölbreytt efni sem tengist myndinni og áhugasamir hafa örugglega gaman af því að kynna sér. Einnig er vert að benda á vefsíðuna Deadpoolcore.com þar sem hægt er að ganga til liðs við Deadpool og félaga. Skoðið málið.

– Deadpool er fimmta teiknimyndapersónan sem Ryan Reynolds hefur leikið og hefur hann látið hafa eftir sér að hún sé jafnframt sú síðasta. Hann lét þó fylgja með að hann myndi leika Deadpool aftur í framhaldsmynd sem allar líkur eru á að verði gerð gangi þessi mynd vel – sem allt bendir til að hún muni gera – þannig að aðdáendur geta andað rólega!