Lítið hefur hingað til verið vitað um söguþráðinn í þriðju Hangover myndinni, sem væntanleg er í bíó næsta vor, en söguþræðinum hefur verið haldið vandlega leyndum.
Leikstjórinn, Todd Philips gefur þó dálitla innsýn í söguþráðinn í nýju viðtali við tímaritið Entertainment Weekly þar sem hann segir að myndin muni beina kastljósinu að Alan, sem Zach Galifianakis leikur. „Alan gengur í gegnum erfiðleika eftir að hann missir föður sinn, og Úlfagengið er eina fjölskyldan sem hann á eftir,“ segir Phillips í samtalinu í tímaritinu.
Eins og sést í myndinni hér fyrir ofan þá snúa félagarnir aftur til Las Vegas í Bandaríkjunum en stoppa þar stutt við. Phillips segir einnig að atburðir úr fyrstu myndinni, komi aftur í bakið á þeim, án þess að láta meira uppi um hvað það er nákvæmlega.
Phillips segir einnig í tímaritinu að Mr. Chow, sem leikinn er af Ken Jeong, sé myrkari persóna en nokkru sinni fyrr, og að þessi lokamynd verði „fullkominn endir á þessari þriggja mynda óperu um líkamsmeiðingar og rangar ákvarðanir.“
Enn eru engar kitlur né stiklur farnar að birtast úr myndinni, en sögusagnir herma að eitthvað slíkt sé væntanlegt fyrir lok ársins.
Hér fyrir neðan er mynd af Jeong í hlutverki sínu í myndinni: