Náðu í appið
Gagnrýni eftir:



Harry Potter and the Chamber of Secrets
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Harry Potter and the Chamber of Secrets þjáist af sama vandamáli og forveri hennar, nema bara á mun hærra og alvarlegra stigi: Myndirnar eru alltof nákvæmar kópíur af bókunum! Þetta er alveg hrikalegur galli í Chamber of Secrets þar sem sumar persónur (eins og t.d. Gilderoy Lockhart) eru fáránlega tilgangslausar og draga athygli frá sögunni og aðrar persónur (eins og t.d. Ginny Weasly) fá of litla athygli miðað við að þær skipta miklu máli í lokin. Sem 90 mínútna mynd, byggð á bókinni frekar en ljósrituð úr bókinni, hefði Chamber of Secrets getað orðið klassísk, en eins og hún stendur er hún bara hrikalega pirrandi. Jason Isaacs, t.d., er alveg klassískur vondur kall sem Lucious Malfoy, en myndin leyfir honum aldrei að verða það því hún er of upptekin af whodunit endanum sem, líkt og í fyrri myndinni, er bara þvílíkt út úr kú. Hér höfum við efnivið og persónur sem gætu búið til klassíska mynd en Chris Columbus þorir ekki að móðga aðdáendur bókanna og breytir því engu. Er í alvörunni svona gaman að sjá myndir sem eru nákvæmlega eins og bækurnar? Vill fólk ekki frekar láta koma sér aðeins á óvart? Ég er ekki að segja að það þurfi að breyta e-u drastískt, bara að láta söguna falla aðeins betur að kvikmyndaforminu, því bækur og kvikmyndir eru svo sannarlega ekki sami hluturinn! Svo á ég erfitt með að fyrirgefa það að Hermione dettur út úr sögunni í miðri mynd og er ekki með allan lokahluta myndarinnar! Hefði Ron fengið hlutverk Ginny og Hermione fengið hlutverk Ron í endanum, þá værum við að tala um miklu áhugaverðari mynd! Og sleppa lélega whodunit plottinu og nota bara Lucious Malfoy, sem lyktar af hreinni illsku ... gallarnir í þessari mynd hefðu átt að vera lagaðir strax á handritsstigi! Það er þó ekki hægt að neita því að Chamber of Secrets er fagmannlega tekin upp og skreytt með alveg hreint ótrúlegum sviðsmyndum. Leikararnir standa sig allir frábærlega með tölu (þótt Daniel Ratcliff sé oft á tíð með óþarflega ýkt tilþrif) og fyrsti klukkutíminn (áður en við áttum okkur á því að flestar nýju persónurnar eru tilgangslausar og gagnast sögunni ekki neitt) er yndislegur. Eftir það fer myndin að vera meira og meira tilgangslaus og undir lokin var mér nákvæmlega sama um hvað var í gangi. Ég fann aldrei fyrir hættunni sem stafaði að Hogwarts skólanum (þrátt fyrir að persóna Maggie Smith hafi verið neydd, þrisvar sinnum, til að segja okkur nákvæmlega hvað ætti eftir að gerast) og fann aldrei fyrir neinni ævintýraþrá í persónunum. Þessi mynd var bara flöt og óáhugaverð. Skrítið að mynd sem er svona upptekin af töfrum skuli vera svona töfralaus.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Mulholland Drive
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það eru ekki margir leikstjórar sem geta líkt eftir draumum (eða martröðum) á jafn áhrifaríkan hátt og David Lynch. Og ef eitthvað er, þá er Mulholland Drive besta dæmið um draum sem hefur verið kvikmyndaður. Flestir gagnrýnendur minnast á það hversu óskiljanleg myndin er og vilja meina að það sé annað hvort helsti galli eða kostur myndarinnar. Ég hef engan áhuga á þessum óskiljanlegleika. Fyrir mér gengur flest í myndinni upp, og það sem gengur ekki upp á án efa eftir að gera það eftir frekara áhorf. Mulholland Drive er mynd sem krefst þess að horft sé á hana oftar en einu sinni og oftar en tvisvar og krefst þess einnig að áhorfandinn hugsi virkilega um allt sem fer fram. En ég þarf ekki að segja ykkur það ... Ég vil, hins vegar, tala um allt það sem gerir þessa yndislegu mynd svona frábæra. Til að byrja með er hún óeðlilega falleg. Ég bendi t.d. á atriðið þar sem Camilla leiðir Diane upp Mulholland Drive ... hvernig það er tekið upp, hvernig óaðfinnanleg tónlist Angelo Badalamenti spilar undir og allt sem gerst hefur á undan í myndinni blandast saman og úr verður ólýsanlega fallegt atriði. Engin orð, bara myndir, tónlist og tilfinningin sem Lynch hefur skapað. Annað ótrúlegt atriði er stóra leikprufusenan hennar Betty, sem Naomi Watts leikur frábærlega vel. Þetta atriði er svo ... sérstakt ... að orð fá því ekki lýst. Watts er svo ótrúleg í atriðinu að það hálfa væri nóg. Svo er ekki hægt að tala um myndina án þess að minnast á ótrúlega myndatöku Peter Deming, sem ljáir myndinni þvílíkan draumaljóma sem aðeins fyrirfinnst í myndum eftir David Lynch. Ég hef ekki séð betri mynd í ár en Mulholland Drive. Hvort sem þér finnst hún óskiljanleg eða fullkomin þá er ekki hægt að neita því að hún er frumleg og mögnuð. Ég hlakka bókstaflega til að horfa á hana aftur, svo frábær er hún. Ég get ekki mælt nægilega mikið með henni. Ótrúleg mynd.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
One Hour Photo
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

One Hour Photo kom mér svo sannarlega á óvart. Ég bjóst við svosem ágætri mynd en hafði ekki hugmynd að hér væri á ferðinni meistaraverk sem slagar upp í bestu myndir ársins. Leikstjórinn Mark Romanek kemur úr músík-video bransanum (gerði m.a. myndbandið við Fionu Apple lagið Criminal) en ekki er hægt að sjá það á þessari mynd. Í stað þess að vera innantóm og útlitsfalleg er One Hour Photo djúp, merkileg og útlitsfalleg. Þótt Romanek standi sig eins og hetja bæði sem leikstjóri og handritshöfundur, þá eru það leikararnir sem gera myndina sérstaka. Robin Williams er magnaður og er mun betra illmenni í þessari mynd en hann var í Insomnia. Það er eitthvað við karakterinn hans sem er ekki beint hægt að segja í orðum ... dularfullur, skrítinn, óhugnalegur, viðkunnalegur ... með betri frammistöðum Williams frá upphafi - ef ekki sú besta. Connie Nielsen, sem var hápunktur hinnar ofmetnu Gladiator, er ekki eins ótrúlega frábær og Williams, en samt mjög góð í sínu hlutverki og gerir persónu sína að e-u meira en hún hefði orðið í síðri höndum. Persónurnar eru reyndar allar hverjar vel skrifaðar og er greinilegt að Romanek hefur hugsað vel út í alla þætti myndarinnar, hvort sem þeir tengjast sögunni, persónunum eða útliti og stíl myndarinnar. One Hour Photo er hljóðlát og mínímalísk, en hrikalega áhrifarík og djúpstæð - án efa með betri myndum ársins.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Mothman Prophecies
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég fór inn á The Mothman Prophecies með litlar væntingar - ég hafði ekki einu sinni góða hugmynd um hvað myndin var. Í raun voru aðeins tvær ástæður sem fengu mig til að sjá myndina: Laura Linney (sem er á góðri leið með að verða uppáhaldsleikkonan mín) og Mark Pellington sem gerði hina óvæntu Arlington Road fyrir nokkrum árum. Hvað er þetta með hann Pellington að gera myndir sem hljóma óspennandi en eru síðan hreinræktuð meistaraverk? The Mothman Prophecies, þrátt fyrir alveg skelfilega óspennandi titil, er með bestu hrollvekjum sem ég hef séð. Ég ætla meira að segja að ganga svo langt að segja að ég hafi aldrei á ævinni orðið jafn hræddur og á þessari mynd. Frá fyrstu mínútunum og allt að enda var ég með óstöðvandi gæsahúð og þegar ég kom heim passaði ég mig á því að horfa ekki í spegla og kíkti meira að segja undir rúmið mitt - eitthvað sem ég hef aldrei gert áður! Ég fullyrði það að The Mothman Prophecies sé áhrifamesta hrollvekja sem komið hefur út í langan tíma og nær hún því takmarki með því að spila á ímyndunaraflið. Að segja að hún sé besta hryllingsmynd síðari ára er kannski of mikið af hinu góða (hún er alls ekki gallalaus) en ég hef a.m.k. ekki séð neina mynd sem er jafn ógnvekjandi! Ég segi þetta vegna þess að það virðist vera komið í tísku hjá nýlegum draugamyndum og hrollvekjum að enda á ljúfum nótum; myndir eins og The Sixth Sense og The Others gera of lítið úr mætti sínum þegar persónurnar komast að því að ótti þeirra byggðist á misskilningi og því er auðveldara fyrir þær (og okkur sem áhorfendur) að líða betur þegar sögunni er lokið. Ég tel þessa þróun ekki góða - bestu hrollvekjurnar senda mann heim óttasleginn; hið illa er ennþá til staðar. Þess vegna deyja vondu kallarnir aldrei í hryllingsmyndum - svo að við getum ennþá verið hrædd við þá þegar myndin er búin. Þó svo Mothman leggist aldrei svo lágt að hafa vondan kall í söguþræðinum, þá líkur hún sér af á virkilega óræðum nótum - og svo er hún líka byggð á sönnum atburðum (eins og Pellington endurtekur í lokin til þess að vera viss um að áhorfandinn muni eftir því þegar hann fer að sofa seinna um kvöldið) og allt það sem við getum ímyndað okkur að komi fyrir okkur er virkilega creepy. Ég get ekki mælt nægilega mikið með The Mothman Prophecies.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Brotherhood Of The Wolf
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Brotherhood of the Wolf er áhugaverð, en því miður misheppnuð, kvikmynd. Myndin er nokkurskonar blanda af ævintýramynd og hrollvekju en svo virðist sem að það hafi ekki nægt leikstjóranum, Christophe Gans, því hann reynir að hlaða pælingum ofan á pælingar án nokkurs árangurs, ég kem að því síðar. Rauði þráður myndarinnar er góður - tveir dularfullir menn koma til þorpsins Gevaudan til að ráða niðurlögum dularfulls skrímslis sem hefur verið að gæða sér á óheppnum konum og börnum í samfélaginu en það virðist forðast karlmenn. Annar mannanna, Mani, er bardagamaður af bestu gerð en hinn, Fronsac, er tungulipur og myndarlegur - týpískur frakki. Á fyrstu 10 mínútunum kemur myndin til skila skemmtilegri og dularfullri sögu - við erum spennt frá byrjun og viljum vita hvað mun gerast. Byrjunaratriðið hjálpar svo sannarlega til en þá sjáum við unga stúlku hakkaða í spað af óséða skrímslinu - þetta atriði er afskaplega vel gert, fallega tekið og slo-mo tæknin notuð óspart. Það bara synd að myndin nær aðeins einu sinni að jafna þetta atriði (flashback atriðið með litlu stelpunni) því eftir þessar fyrstu tíu mínútur versnar myndin stöðugt. Gallinn felst í því að Gans, ásamt meðhöfundi sínum Stéphane Cabel, reynir að gera myndina að einhverju meira en skrímslamynd - þeir reyna að bæta við einhverri þjóðfélagsádeilu sem meikar bara ekkert sens og er ádeilan veik og frekar tilgangslaus. Svo virðist sem að Gans hafi ekki þorað ganga nógu langt í flestum tilfellum. Sem skrímslamynd gengur Brotherhood alls ekki nógu langt þar sem allar útskýringar svíkja meira og minna lit (svo ekki sé minnst á það að þær eru allar frekar ótrúverðugar og ókláraðar) og öll ádeilan, eða það sem virðist vera ádeila, tapast algjörlega í kaosinu í endanum. Og talandi um endalokin á þessari mynd! Ég taldi a. M. k. þrjá mismunandi enda, sem væri ekki frásögum færandi ef ekki væri fyrir það að þeir eru allir meira og minna anticlimaxar sem lofa í byrjun góðu en renna út í sandinn þegar að lokum kemur. Allar tilraunir til að útskýra nokkurn skapaðan hlut eru bara fáránlegar, sérstaklega þegar litið er til þess að Gans og Cabel útskýra hluti sem þurfa ekki á útskýringum að halda en gleyma öðrum atriðum sem við viljum betur skýrð. Ég er ekki ennþá viss um hvað var að gerast í lokin. Bláendirinn eru þó samt alverstur, algjörlega út úr kú miðað við það sem á undan fór og algjörlega tilgangslaus. Svo er myndin líka allt of löng og verður alveg hrikalega langdregin þegar u.þ. B. tveir tímar eru búnir. Brotherhood of the Wolf er frábær mynd sem er föst inni í meðalmynd. Ef hún hefði verið klippt aðeins til (m. A. hin veika frásagnaraðferð - myndin er sögð í flashbacki) og hinu og þessu í sambandi við lokin hefði verið breytt þá væri hér á ferð algjört meistaraverk. Ef Gans og Cabel hefðu bara þorað að fara alla leið með skrímslahugmyndina og sleppt öllum mannlega hlutanum út úr þeirri sögu (eða bara útskýrt hana betur) þá hefði það reyndar verið nóg, en eins og hún stendur þá er Brotherhood óvenju fallega tekin mynd sem hefur lítið annað en útlitið með sér.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Moulin Rouge!
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

VÁ! Moulin Rouge! er ekki bara besta mynd ársins heldur strax orðin ein af mínum uppáhaldsmyndum! Alveg frá fyrsta ramma, í gegnum fyrstu geðveiku tuttugu mínúturnar, framhjá ástarsöngvum Nicole Kidman og Ewan McGregor, að hinu ótrúlega Roxanne atriði og til hins magnaða lokaatriðis (CHAMMA-CHAMMA!), er Moulin Rouge! stanslaus, gargandi snilld, svo ég noti undirtónafrasa. Ég get ekki lýst því með orðum hversu yndisleg þessi mynd er, né vil ég það - því minna sem þú veist um hana því skemmtilegri er hún - ég vil bara láta ykkur vita hversu góð hún er. En ég get ekki hætt að skrifa fyrr en ég hef minnst á tónlistina, þ. E. dásamlegasta soundtrack kvikmyndasögunnar. Geturðu ímyndað þér Lady Marmelade blandað saman við Smells Like Teen Spirit? Ekki? Farðu þá á Moulin Rouge! Your Song eftir Elton John fær alveg nýja merkingu og er, í flutningi Ewan McGregor, eitt merkilegasta lag kvikmyndasögunnar. Ewan McGregor er með enga smárödd og er auðveldlega stjarna myndarinnar þegar kemur að söng. Nicole Kidman er alls ekki léleg söngkona, en Ewan skyggir algjörlega á hana. Eins og svo margir aðrir hafa tekið fram þá er Roxanne-atriðið ekkert annað en fullkomnun á á filmu, en sjálfur kýs ég hina ótrúlegu sviðsetningu á Chamma-Chamma - allt við það atriði er Ótrúlegt, með stóru ó-i. Baz Luhrmann er orðinn að nýju átrúnaðargoði mínu (enginn annar en geðveikur snillingur gæti gert þessa mynd) og get ég ekki beðið eftir næstu mynd hans, jafnvel þó hann hafi gefið út þá yfirlýsingu að hún verði ekkert í líkingu við Moulin Rouge! Ég get ekki lagt nógu mikla áherslu á það að það er skylda að sjá þessa mynd í bíói. Þetta er stórmynd í orðsins fyllstu merkingu, og ein af fáum virkilega góðum nýlegum Hollywoodmyndum. Ef hún fær ekki óskarinn fyrir allt mögulegt þá verð ég illa svikinn, en þar sem akademían hefur gert það að leik sínum undanfarin ár að svíkja mig þá býst ég ekki við því að þessi óumdeilanlega snilld fái þau verðlaun sem hún á skilið (þ. E. öll). Þessi mynd er frábær. Yndisleg. Ótrúleg. Geðveik. Best. Þú verður að sjá hana. ÞÚ VERÐUR!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
A.I. Artificial Intelligence
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ekki verður auðvelt að útskýra A. I. fyrir þeim sem ekki hafa séð hana, og enn erfiðar verður að útskýra fyrir þeim af hverju þeir ættu að sjá hana þrátt fyrir versta endi sem ég man eftir í augnablikinu. Fyrstu tveir klukkutímarnir eru í einu orði sagt frábærir - fyrsti klukkutíminn með því besta sem Spielberg hefur gert og seinni klukkutíminn er sería af alveg ótrúlega vel gerðum, flottum og skemmtilegum atriðum. Og svo endar myndin. Hún er búin. En samt heldur hún áfram. Ég vil ekki eyðileggja endalokin, en myndin endar á fullkomin hátt hálftíma áður en hún er búin. Ég skil hreinlega ekki hvers vegna þessi hálftíma runa af kjaftæði, væmni og velvilja var skeytt þarna við. Hún bætir engu við myndina, gerir hana ekki dýpri, alls ekki skemmtilegri og sérstaklega ekki betri. En hún eyðileggur heldur ekki alla myndina - það sem á undan fór er bara svo gott að það er eiginlega ekki hægt að eyðileggja það. Ég mæli með því að fólk sjái A. I. og gangi út eftir að voice-overið byrjar aftur. Myndin feidar meira að segja út í svart, og þá ættuð þið að flýja áður en hún ákveður að halda áfram! Á sýningunni sem ég var á var hlegið - oftar en einu sinni - að asnalátunum sem fóru fram og heyrðist murmur í salnum frá bíógestum sem vissu ekkert hvað var að gerast. Ég skil þetta bara alls ekki. Haley Joel Osment, barnastjarnan sem ég hef ekkert sérstakt dálæti á, stendur sig ótrúlega vel sem vélstrákurinn David og Jude Law er skemmtilegur sem ástarvélmenni. Best af öllum er þó Frances O'Connor sem leikur mömmu Davids. Hún var alveg mögnuð. Ég segi það aftur að ég mæli með því að fólk sjái A. I., en ég vara það líka við því að endirinn er með því alömurlegasta sem kvikmyndað hefur verið síðan ég man ekki hvað. Be warned.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Hedwig and the Angry Inch
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Fyrir nokkrum vikum var ég að horfa á sjónvarpið og sá Björgvin Franz Gíslason ásamt Reiðu restinni taka lagið í einhverjum sjónvarpsþætti og spila lagið Kolla í kassa, eða eins og það heitir á frummálinu: Wig in a Box, úr söngleiknum Hedwig og Reiða restin. Eftir það var ég orðinn forfallinn Hedwig-aðdáandi; Ég fór umsvifalaust á netið og náði í lagið, daginn eftir fékk ég vini mína til að koma með mér á sýninguna í Loftkastalanum og nú hef ég séð myndina. Ég vil taka það fram strax að þótt mér finnist sýningin í Loftkastalanum alveg frábær, þá finnst mér myndin miklu, miklu betri. Þetta er kannski vegna þess að sagan hentar kvikmyndaforminu miklu betur. Kannski vegna þess að lögin hafa einhvern veginn meiri sjarma á ensku. Kannski vegna þess að John Cameron Mitchell er algjör snillingur. Ég er ekki alveg viss, en Hedwig kvikmyndin er ekkert annað en frábært meistaraverk sem nær að blanda saman húmor, drama og frábærri tónlist á undraverðan hátt! Það er eiginlega ekki hægt að flokka þessa mynd í einhverja kvikmyndategund, þó söngleikur kæmist nálægast því. Sjaldan hef ég séð slíka fullkomna blöndu af hárbeittum húmor, ádeilu og alvöru dramatík - mér kemur aðeins í huga American Beauty, en hún var ekki með svona skemmtilegri tónlist! John Cameron Mitchell, leikari, leikstjóri, handritshöfundur og annar lagahöfundur (með Stephen Trask), á skilið mikið lof fyrir þessa fyrstu kvikmynd sína; einhver nefndi Orson Welles í samanburði og svei mér þá ef ég er ekki alveg sammála því! Ekki nóg með það að hann er hreint ótrúlegur í hlutverki Hedwig, heldur vinnur hann myndina með mjög fagmannlegum höndum svo erfitt er að trúa því að þetta sé frumraun hans. Aðrir leikarar fá mun minna að gera en standa sig samt sem áður vel. Tónlistin (lög eftir Stephen Trask, textar eftir Mitchell) er ekkert minna en yndisleg og lyftir myndinni upp á hærra plan. Ég mæli eindregið með því að allir upplifi Hedwig, hvort sem það er á sviði eða í bíósal!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Batman Returns
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég vil byrja á því að taka það fram að mér finnst fyrsta Batman-myndin sú besta í seríunni, þ. E. besta Batman-myndin. Hins vegar finnst mér Batman Returns mun betri Tim Burton mynd og þar sem ég met Tim Burton meira en Batman, þá verður það að segjast að mér finnst, þegar upp er staðið, Batman Returns betri mynd. Þetta kemur til vegna þess að pælingarnar í Batman Returns eru miklu fleiri, dýpri og skemmtilegri en þær í fyrri myndinni. Í Batman Returns er kafað ofan í hluti eins og tvíeðli, kynferðisóra, barnamorð, geðveiki og ýmislegt annað skemmtilegt sem maður býst alls ekki við að sjá í mynd sem er aðallega ætluð 12 ára strákum. Enda er myndin alls ekki ætluð 12 ára strákum og er það algjör misskilningur - reyndar er Batman Returns svo gróf á stundum að réttara hefði verið að setja á hana 14 ára aldurstakmark, enda snýst hún um hluti sem flestir yngri skilja ekki neitt í. Myndin byrjar á drungalegum nótum með skuggalegri tónlist Danny Elfmans þar sem orgel yfirgnæfir önnur hljóðfæri. Við verðum vitni að hræðilegri fæðingu Mörgæsarmannsins og þegar foreldrar hans henda honum í holræsin skömmu eftir. Fallegt. Rúmlega þrjátíu árum síðar er mörgæsarmaðurinn (Danny DeVito) fullvaxinn og hefur hatur hans á foreldrum sínum og Gotham-borg vaxið með. Í samráði við djöfullegan sirkús og spilltan stjórnmálamann, Max Schreck (Christopher Walken), ákveður mörgæsin að hefna sín á bæjarbúum svo um munar, og sá eini sem getur stöðvað hann er Batman (Michael Keaton) sjálfur. Á sama tíma þarf Batman að kljást við mun persónulegri óvin, Kattarkonuna ógurlegu (Michelle Pfeiffer) og ekki líður á löngu þar til kötturinn og mörgæsin taka höndum saman til að stöðva leðurblökuna fyrir fullt og allt. Það sem kemur mest á óvart við Batman Returns, sérstaklega þar sem hún er Hollywood-sumarmynd, er óvenju vönduð persónusköpun. Að vísu er allt ofsalega ýkt eins og gengur og gerist í myndum byggðum á myndasögum, en Batman og Kattarkonan fá dýpt sem maður sér ekki einu sinni í háalvarlegum dramatískum myndum frá Rússlandi. Batman er alls engin hetja, heldur andhetja í orðsins fyllstu merkingu; þunglyndur maður með klofinn persónuleika. Kattarkonan er lítið betri; komin með ógeð á lífinu, hatar allt og alla en hrífst af Bruce Wayne, kannski vegna þess að hann er líkari henni en hún heldur. Besta atriði myndarinnar er alveg ótrúlega vel upp sett sena þar sem báðar þessar persónur dansa saman á grímuballi - einu manneskjunar þar sem eru ekki með grímu (grímur þeirra eru andlegar, ekki efnislegar) - og koma að lokum upp um það hver þau raunverulega eru. Mörgæsin er mun týpískari þegar kemur að persónusköpun, en maður skilur þó af hverju hann vill eyðileggja fyrir öðrum. Batman Returns fékk ekki góðar viðtökur þegar hún var frumsýnd fyrir næstum því tíu árum. Hún var sögð of kuldaleg, dökk og óhugnaleg - enda var það tilgangurinn. Burton fékk að ráða öllu við gerð myndarinnar og var greinilegt að hann vildi ekki hefðbundna ofurhetjumynd. Hann tók film-noir stílinn sem hann hafði notað í fyrri myndinni og fullkomnaði hann hér svo myndin er oft næstum því svart-hvít. Ofbeldið er einnig mun alvarlegra og grafískara en í fyrri myndinni. Þetta er ævintýramynd og myrk ástarsaga fyrir fullorðna, eða eins og Empire orðaði það: dýrasta S&M ástarsaga allra tíma. Eins og í fyrri myndinni eru sviðsmyndir og myndataka til fyrirmyndar, tónlist Danny Elfman fær einnig að bæta einhverju við sig og er nú drungalegri og myrkari, og búningarnir eru æðislegir - enginn á eftir að gleyma klæðnaði Michelle Pfeiffer. Batman Returns er Burtonmynd eins og þær gerast bestar; takið þessa, Edward Scissorhands og The Nightmare Before Christmas og þá fáið þið að sjá þverskurð af því sem gerir Burton svona sérstakan. Frábær mynd, ein besta myndasögumynd sem gerð hefur verið að mínu mati, frá frábærum leikstjóra.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Memento
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég finn mig knúinn til að skrifa eitthvað um þessa svokölluðu snilldarmynd til þess eins að koma á framfæri áliti sem lofar myndina ekki stanslaust upp í hæstu himna. Memento er ekki svona góð. Hún er góð, en ekki SVONA góð. Ég hreinlega skil alls ekki allt þetta fjaðrafok sem þessi litla mynd hefur valdið. Ég get skilið af hverju þessi mynd fékk svona mikla athygli, á sama hátt og ég get skilið af hverju The Blair Witch Project eða The Sixth Sense fengu svona mikla athygli; þetta er fersk mynd og Christopher Nolan kemur með margar skemmtilega nýjungar en eins og gengur og gerist með marga (flesta) unga kvikmyndagerðarmenn sem eru að gera sína fyrstu alvöru kvikmynd, þá má finna margt að myndinni. Hún er t. D. ekki mjög vel klippt. Hraðinn er of brokkgengur og sú ákvörðun Nolans að sýna myndina afturábak gengur ekki alltaf vel upp. Þetta eru bara merki um byrjunargalla og vandræði og verður þess vegna mjög spennandi að fylgjast með Nolan í framtíðinni. Gallinn við söguna er sá að Nolan nær ekki með fullkomnum hætti að yfirfæra smásögu bróður síns yfir á kvikmyndahandrit, alla veganna ekki í fullri lengd - myndin hefði sómað sér mun betur sem stuttmynd nema Nolan hefði vandað handritið aðeins betur. Það er ekkert að sögunni, en í kvikmyndinni lyktar hún af smásagnarforminu og tel ég það mjög líklegt að Nolan hafi ekki þorað að breyta of miklu í sögunni út af skyldleika sínum við höfund hennar. Eins og hún stendur er Memento mjög áhugaverð mynd en hún á ekki eftir að breyta neinu í kvikmyndagerð og er aldrei það merkileg að hún geti orðið að einhverri klassík eftir nokkur ár. Hún er kannski öðruvísi en aðrar myndir, en það eitt og sér gerir hana ekki að meistaraverki. Og ef það gerir hana ekki að meistaraverki, þá get ég ómögulega séð hvað það er sem gerir hana það.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Planet of the Apes
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Sem mikill aðdáandi Tim Burtons finnst mér það alveg hræðilegt að ég sé að gefa nýjustu mynd hans aðeins tvær stjörnur, en að mínu mati brást honum algjörlega bogalistin í þessari endursýn á gömlu Planet of the Apes myndinni. Reyndar var ég mjög skeptískur á þessa mynd alveg frá því að ég heyrði að Burton ætlaði að endurgera hana - Burton hljómaði ekki eins og rétta manneskjan til að endurgera Planet of the Apes, hún er algjörlega laus við allt það sem Burton er þekktur fyrir. Einnig er ég alls ekki mikill aðdáandi upprunalegu myndarinnar, en hún er þó mun betri en þessi veika nútímaútgáfa. Trailerarnir bættu alls ekki mikið úr skák, enda ekki mjög góðir, og þegar ég gekk inn á myndina í gærkvöld bjóst ég ekki við miklu. Því er ekki hægt að segja að ég hafi orðið fyrir vonbrigðum með myndina, en hún uppfyllti alls ekki neina standarda sem ég geri til kvikmynda, nema kannski þá er snúast að sviðsmyndum og förðun. Opnunar-kredit myndskeiðið var reyndar mjög flott og fyrstu fimm mínútur myndarinnar lofuðu góðu, en eftir það fór henni að hraka mjög alvarlega þangað til ömurlegheitin fullkomnuðust í alveg hræðilegu lokauppgjöri milli manna og apa - atriði sem hefði getað orðið frægt en er of aumt og stutt til að nokkur muni vel eftir því jafnvel mínútum eftir að hafa gengið út af myndinni. Ég verð þó að viðurkenna að hinn rómaði sjokk-endir sem endar myndina vakti mikla kátínu hjá mér fannst mér hann skemmtilegur, þó ég sé alls ekki viss um að hann hafi verið mjög viðeigandi eftir það sem fór fram áður. Það fór margt í taugarnar á mér í myndinni: augljósir gallar sögunnar (allir-geta-orðið-vinir endirinn var bara too-much), margar tilgangslausar aukapersónur (sem minntu mig meira á aukapersónur úr lélegum Star Trek þætti en eitthvað annað) og veruleg ringulreið þegar kom að hvötum og afdrifum þeirra(hvað varð um litlu stelpuna sem virtist skipta svo miklu máli í byrjun?). En það sem pirraði mig mest var það að hvergi var að finna eitthvað sem minnti á Tim Burton. Myndatakan var flöt og óáhugaverð og þótt búningar og förðun hafi verið með því langbesta sem sést hefur lengi þá var ekkert Burtonlegt við neitt af þessu. Sumir gætu haldið því fram að Mark Whalberg sé utangarðsmaður Burtons að þessu sinni, en hann stenst alls ekki samanburð við Edward Scissorhands, Jack Skellington eða Ichabod Crane - hægt er að kenna bæði tilþrifalitlum leik Whalbergs og áhugaleysi Burtons um það. Þessi mynd var á svo miklum auto-pilot að það var eiginlega vont. Ég get alls ekki trúað því að Tim Burton hafi leikstýrt þessari mynd, hvað þá að hann hafi sent hana frá sér undir sínu nafni! Myndin er samt sem áður ekki alslæm - hún hefur húmorinn á réttum stað og er ekki leiðinleg, leikararnir standa sig flestir vel (Helena Bonham-Carter og Tim Roth þá sérstaklega), en sem Burtonmynd þá er hún langt undir meðallagi. Ég vona bara að hann sendi næst frá sér eitthvað í líkingu við Edward Scissorhands eða Sleepy Hollow - með tilheyrandi ævintýralegri Elfman tónlist!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Cats and Dogs
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Hvað er þetta með Hollywood og lélegar fjölskyldumyndir? Cats and Dogs er mynd sem ætti að vera frábær - hugmyndin er ekkert minna en stórkostleg - en er því miður í nær alla staði undir meðallagi. Myndin segir frá stríði hunda og katta þar sem, auðvitað, kettirnir eru klækjóttir og vondir en hundarnir klaufalegir og góðir. Ég ætla að láta það vera að fara út í katt-og hundisma eins og amerískir gagnrýnendur gerðu fyrir nokkrum vikum, en persónulega fannst mér kettirnir mun skemmtilegri karakterar. Ja, þ. E. a. S. einn köttur var skemmtilegur karakter og ég tel að það sé eingöngu vegna þess að hinn frábærlega fyndni Sean Hayes talaði fyrir þá persónu, Mr. Tinkles, og á bókstaflega alla brandara myndarinnar (meðal annars einn sem er svo góður að hann er næstum því 800 króna virði einn og sér. Næstum því). Eins og venjan er með bandarískar myndir sem innihalda dýr þá má líka finna stereótýpískt mannfólk: Jeff Goldblum leikur vísindamann sem er allt of upptekinn við starf sitt til að geta mætt á fótboltaæfingar sonar síns og er strákurinn alltaf í fýlu yfir þessari vanrækslu (hvað höfum við séð þetta oft?!). Tobey Maguire, Susan Sarandon, Alec Baldwin, Michael Clarke Duncan, Jon Lovitz og Joe Pantoliano tala ásamt Hayes fyrir dýrin og standa sig ágætlega, þó ég leyfi mér að efast um það að þau hafi lesið handritið áður en þau sögðu já. Þetta er samt sem áður fjölskyldumynd og þar af leiðandi fyrir börn (ég er reyndar algjörlega ósammála þessu, en ég hef útskýrt það á þessari síðu oft áður og nenni því ekki núna) og væri hægt að fyrirgefa myndinni lélegt og klisjukennt handrit ef hún væri eitthvað skemmtileg. En, nei: Cats and Dogs er einfaldlega hund-(og katt-)leiðinleg!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Kiss of the Dragon
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Jet Li hefur aldrei verið í sérstöku uppáhaldi hjá mér; ég er ekki mikið fyrir martial arts myndir þó ég geti vel skemmt mér yfir þeim. Hins vegar eru Luc Besson (handritshöfundur og framleiðandi) og Bridget Fonda manneskjur sem ég hef mikið gaman af og hélt ég að gaman yrði að sjá Bridget Fonda sparka frá sér við hlið Jet Li. Ekki fékk ég nú að sjá það; Fonda gerir lítið annað en að væla út alla myndina og sparkar ekki neitt, en Jet Li stóð sig með ágætum, þ. E. þegar hann var ekki að nauðga ensku tungunni með ömurlegum framburði sínum og tilfinningalausum áherslum. Sem sagt: Hann var góður í bardagaatriðunum. Fonda var í sjálfu sér ekkert slæm, en ég vildi sjá hana taka smá Miru Sorvino-takta! Sam-evrópska súperstjarnan Tchécky Karyo leikur vonda kallinn áfallalaust og á bestu línur myndarinnar. Ekki það að það séu margar góðar línur, en þegar þær fáu sem eru til staðar koma þá er það yfirleitt hann sem fær að segja þær. Luc Besson og meðskrifarar hans voru greinilega ekki að hugsa um djúpa hasarmynd með einhverri áþreifanlegri sögu þegar þeir skrifuðu Kiss of the Dragon, heldur tel ég það mjög líklegt að handritið hafi verið skrifað á einhverju algjöru flippi því mörg atriði og margar aðstæður minna helst á fyndnar spontant-hugmyndir og virka sem brandarar í myndinni. Kiss of the Dragon virkar mjög vel þangað til tuttugu mínútur eru eftir því þá verður myndin einum of hallærisleg og svo vantar eitthvað í endann. Ég er fylgjandi því að allar hasarmyndir eigi að enda á stórri sprengingu og varð því fyrir miklum vonbrigðum þegar það var ekki einu sinni kveikt á eldspýtu í lok þessarar. Í fullkomnum heimi hefði Bridget Fonda komið í lokin með handsprengju og bazooku og sprengt allt til helvítis.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Fast and the Furious
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég las það eitt sinn að eftir að sjá vel heppnaða bíla- og/eða kappakstursmynd ætti mann að langa til að fara út í bíl og bruna af stað - að lifa lífi persónanna í myndinni. Ef þetta er satt þá hefur The Fast and the Furious mistekist. Reyndar yrði ég alls ekkert svekktur yfir því að sjá aldrei aftur bíl á ævi minni. Ef einhvern tímann hefur verið gerð mynd sem sameinar hugtökin overdrive og overkill á versta mögulega máta, þá er það þessi mynd en hún er með eindæmum yfirdrifin og það leiðinlega. Heimski söguþráðurinn samanstendur af urri úr bílavélum, útskýringum á varahlutum í bíla og einhverjum ofsalega þröngvuðum persónuupplýsingum. Burrr burrr. Ég komst ekki í MIT. Burr burr. Ég er lögga. Burr burr. NOS. Burr burr. Pabbi minn dó og ég er reiður... Það gerist ofsalega lítið annað og er myndin einfaldlega leiðinleg. Af leikurunum er það Vin Diesel sem er sá eini sem stendur eftir óskaddaður, enda er hann svalur gaur. Michelle Rodriguez sem vann einhver verðlaun fyrir Girlfight fær hið eftirsótta hlutverk stelpunnar sem kann að keyra. Hún gerir ekkert annað en það, en fær að skipta um sólgleraugu. Svona hundrað og tuttugu sinnum. Paul Walker hefur kannski útlitið með sér en virðist hafa gleymt leikhæfileikunum heima og sömu sögu má segja um konuna sem leikur kærustu hans. Giovanni Ribisi-wannabeið sem á MIT söguna leikur hallærislegustu persónu sem ég hef séð lengi og fá handritshöfundarnir stóran mínus fyrir að skrifa inn fyrir hann augljósasta en um leið ömurlegasta samúðarplott sem sést hefur í kvikmyndum í ár. Bílaatriðin eru fjögur eða fimm og aðeins eitt þeirra stendur undir nafni sem fast og furious, hin eru meira fast og farcical en eru oftast vel tekin upp. Ég verð þó að viðurkenna það að ég er ekki mikill bílaáhugamaður og gæti skoðun mín þess vegna verið spillt, en jafnvel bílaáhugamenn ættu að geta viðurkennt að meiri spennu, hraða og frumleika má finna í Formúlunni.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Evolution
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Eftir allt sem ég hef heyrt um Evolution, öll viðtölin sem ég hef lesið, alla trailerana sem ég hef séð o. s. frv., þá veit ég varla hvað ég á að halda um myndina sjálfa, annað en það að hún er alvarlega misheppnuð. Ég man eftir því að hafa heyrt um þessa mynd fyrir meira en ári síðan (mun lengra síðan, ef ég man rétt) og var þá verið að tala um sviðsmyndirnar fyrir þessa nýjustu mynd Ivan Reitmans sem sumir lýstu sem Ghostbusters með geimverum. Hljómaði vel. Ég hafði ekkert sérstakan áhuga á myndinni fyrr en ég sá trailer sem mér fannst mjög fyndinn (kynningin á Julianne Moore er frábær!) og mér fannst það áhugavert að Evolution byrjaði sem alvarleg geimhrollvekja en endaði sem grínmynd. Í kláruðu myndinni má ennþá sjá leifar hrollvekjunnar - margar línur og nokkur atriði hefðu passað vel inn í svoleiðis mynd - en skrítið er að lítið sem ekkert er af húmor í myndinni, a. m. k. ekki góðum húmor. Brandararnir eru flestir mjög ómerkilegir og hitta ekki í mark, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir Reitmans og aðalleikaranna. Talandi um leikarana, þá fannst mér sorglegt að sjá Julianne Moore í þessari mynd. Þessi yndislega leikkona er, á einhvern óskiljanlegan hátt, farin að taka að sér hlutverk í ótrúlega mörgum glossy-Hollywood myndum og er greinilega hætt að lesa handrit - ávísanir eru líklegast mun skemmtilegri, og styttri, aflestrar. Ég hef ekkert á móti góðum leikurum í Hollywood myndum, en hver sem er myndi sjá það að þessi mynd er langt fyrir neðan standarda Frk. Moore - það helsta sem hún gerir í myndinni er að hrasa við hvert einasta tækifæri. David Duchovny, ólíkt samleikkonu sinni Gillian Anderson úr X-Files, er svo gjörsamlega fastur í Mulder-rullunni að hann er algjörlega ófær um að skapa nýja persónuleika og Seann William Scott fær nákvæmlega sama persónuleikann og hann hefur verið að leika síðan hann byrjaði feril sinn. Orlando Jones fær hið ofsalega þreytta hlutverk svarta brandarakallsins og tekst það ekkert ofsalega vel, en á þó fyndnustu línu myndarinnar. Samt sem áður er ekki hægt að setja bara út á ófyndni leikaranna því að það er handritið sem er eiginlega diet-fyndið, það vantar allan kraft í húmorinn. Reitman gerir lítið til að lífga upp á myndina sem er ofsalega litlaus eða hressa upp á stemninguna - myndin er hægvirk og langdregin - og virðist vera á algjörum auto-pilot. Hann leggst jafnvel svo lágt að troða inn í bláendan skoti sem minnti einum of mikið á lokaskotið í Ghostbusters - þ. E. þegar Slimer kemur fljúgandi að myndavélinni. Það sem kemur fljúgandi að myndavélinni hérna (það kemur reyndar ekki fljúgandi, skotið er augljóslega tekið úr atriði sem var fyrr í myndinni og var líklegast skotið inn af Reitman í örvæntingarfullri tilraun til að gera eitthvað við myndina eftirminnilegt) á engan möguleika á því að verða eins ódauðlegt og Slimer, því miður. Myndin er samt ekki alveg dauð: Það koma nokkrir góðir brandarar og ekki er hægt að kalla Evolution leiðinlega mynd, en hún er oft á tíð svo heimskuleg (og í lokin ömurlega aumkunarverð) að ekki er annað hægt en að hugsa um það hversu góð hún hefði getað orðið ef einhverju hefði verið breytt. Evolution er ekki versta sumarmyndin í ár (Pearl Harbor á þann vafasama heiður), en ég held að hægt sé að kalla hana vonbrigði sumarsins - þetta fólk á að geta unnið betur úr svona góðum efnivið.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Lara Croft: Tomb Raider
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Loksins kemur sumarmynd sem þarf ekki að drekkja sér í óþarfa lengd og væmni (Pearl Harbor) eða yfirgengilegri heimsku og óstöðvandi, oftast leiðinlegum, smábarnahasar (The Mummy Returns). Tomb Raider er kröftug hasarmynd sem á sér aðeins eitt takmark: að skemmta áhorfendum. Og henni tekst það frekar vel, upp að vissu marki. Ef ég á að nota hinn vinsæla fyrir-og-eftir-hlé samanburð (sem ég þoli ekki vegna þess að hléum ætti að verða útrýmt!!!!) þá er Tomb Raider mun betri fyrir hlé því flest það sem kemur eftir á er skringilegt, inniheldur of margar hallærislegar tæknibrellur og svo er endirinn hálfgerður anti-climax þar sem reynt er að gera allt of mikið á stuttum tíma svo maður verður ringlaður, hefur ekki hugmynd um hvað er að gerast og fær höfuðverk. En þar með er ekki sagt að myndin sé þannig, alls ekki. Það eru nokkur mjög flott hasaratriði (ég man sérstaklega eftir atriðinu þar sem Angelina Jolie sveiflar sér um á einhverjum teygjum á meðan vondu kallarnir skjóta á hana úr öllum áttum) og svo er sagan skemmtileg, þrátt fyrir að vera einföld og fyrirsjáanleg. Samanburður við aðrar sambærilegar myndir, þ. e. Indiana Jones-myndirnar, gerir Tomb Raider lítið gott, en hún er á svipuðum gæðalevel og fyrri Mummy myndin. Hjálpar þá mikið að Tomb Raider tekur sig mátulega alvarlega (stunurnar úr Jolie hljóta að hafa verið brandarar!). Ef ég á að telja upp einhverja galla þá myndu þessir koma sterklega til greina: tónlistin er ekki nógu góð (þ. e. scorið), leikurinn - sérstaklega hjá vonda kallinum - er ekki alltaf til fyrirmyndar, þó Jolie standi sig mjög vel sem Lara Croft, og handritið er eins og það sé skrifað fyrir tölvuleik. Ég er reyndar ekki viss um að það sé einhver sérstakur galli þar sem myndin er byggð á tölvuleik og eiga aðdáendur leikjanna örugglega eftir að fíla söguþráðinn meira en aðrir. Ég skemmti mér mjög vel á Tomb Raider og mæli hiklaust með henni fyrir þá sem eru að leita að einhverju léttmeti - skemmtilegu og háværu!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Dr. Dolittle 2
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Hafið þið séð mynd sem var svo ófyndin, svo ömurleg, svo laus við allan söguþráð og svo aumkunarverð að ykkur varð illt? Þannig leið mér þegar ég horfði á fyrstu Dr. Dolittle myndina sem kom út fyrir nokkrum árum. Af hverju er ég þá að tala um framhaldið? Af hverju sá ég framhaldið? Ja, þetta er allt saman Regnboganum og óvissusýningu þeirra að kenna! Ég bjóst við (og vonaði innilega) að ég myndi sjá Moulin Rouge, Evolution, A Knight's Tale eða þess vegna Josie and the Pussycats. En, nei! Dr. Dolittle 2 varð fyrir valinu. Þar sem ég geng yfirleitt ekki út af kvikmynd eftir að hún er byrjuð (fyrir utan hörmungina Big Momma's House, sem ég, tilviljunarkennt, sá einnig á óvissusýningu fyrir ári síðan) ákvað ég að sitja sem fastast og reyna að finna a. m. k. eitthvað skemmtileg við myndina. Og það tókst. Og ég þurfti ekki einu sinni að leita lengi. Dr. Dolittle 2 er óendanlega mikið betri en forveri hennar. Húmorinn er betri, söguþráðurinn er betri (þó hann sé eiginlega ekkert annað en endurunninn Disney söguþráður, en samt betri en ósöguþráðurinn í fyrri myndinni) og allt annað er betra. Það fer kannski í taugarnar á einhverjum púristum að myndin skiptir of augljóslega um náttúrulegt location umhverfi og svið og húmorinn er kannski ekki alltaf mjög smekklegur, en fjandinn hirði þá! Þetta er mynd fyrir krakka og þeir eiga eftir að skemmta sér konunglega! Í fyrra sá ég tvær svokallaðar fjölskyldumyndir, The Grinch og Dinosaur, sem voru báðar afskaplega misheppnaðar og vægast sagt lélegar myndir. Þegar ég varaði fólk við því að sjá þær kom næstum alltaf upp þetta comment: En krakkarnir hafa gaman af þessu! Kannski, en þegar talað er um fjölskyldumyndir eiga þá BARA krakkarnir að hafa gaman af þeim? Hvað með foreldrana sem eyða offjár í að fara með börnin sín á myndirnar? Á þeim að leiðast? Ekki held ég það. Sem betur fer er árið 2001 strax mikið betra þegar kemur að fjölskyldumyndum, með þessari mynd og svo hinni frábæru Spy Kids sem er ennþá í bíó. Þó ég mæli sterklega með því að fólk sjái frekar Spy Kids heldur en þessa, þá get ég ekki gert að því að ráðleggja fólki að sjá Dr. Dolittle 2 vegna þess að hún er einfaldlega skemmtileg!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Pearl Harbor
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þessi mynd er vægast sagt hrikalega léleg! Ég bjóst ekki við miklu frá Michael Bay og Jerry Bruckheimer, mönnunum sem færðu okkur t. D. The Rock og Armageddon (þ. E. kvikmyndalegt jafngildi rusls), en maður minn! Þetta var nú bara út í hött! Bruckheimer og Bay hafa hér tekið ófyrirgefanlega lélegt handrit og tekið hvert einasta atriði úr því og filmað það eins og þeir séu að auglýsa eitthvað. Þessi mynd lítur út eins og trailerinn af sjálfri sér. Bara 90 sinnum lengri. Það kom í ljós strax í byrjun að Pearl Harbor yrði ekkert öðruvísi en flestar aðrar Bruckheimer myndir. Stíllinn er sá sami, línurnar þær sömu og yfirgengilega væmnin lét sig svo sannarlega ekki vanta. Hins vegar tekur þessi mynd sig ofsalega alvarlega, ólíkt mörgum Bruckheimer myndum, og er bara verri fyrir vikið. Í stuttu máli segir myndin frá vinunum Rafe og Danny (Affleck og Hartnett) sem hafa alltaf viljað gerast flugmenn og tekst það að lokum. Rafe verður ástfanginn af hjúkkunni Evelyn (Beckinsale) en er sendur til Bretlands og lendir í alvarlegu slysi og er talinn af (en er, auðvitað, ennþá á lífi). Þetta verður til þess að Evelyn og Danny hefja ótrúlega órómantískt ástarsamband og svo koma Japanir og sprengja Perluhöfn (þar sem Evelyn og Danny eru) í fjörutíu mínútur. Ég man eiginlega ekki hvað gerðist eftir það; klukkutíminn þar á eftir var svo endaslepptur, hraðklipptur og óáhugaverður að ég held að enginn hafi fylgst vel með honum. Það er bara ekki hægt að láta mynd halda áfram í klukkutíma eftir að hún er búin að climaxa. Og talandi um þennan climax. Ef þið haldið að það sé skemmtilegt að fylgjast með sprengjuárás í heilar 40 mínútur, þá er Pearl Harbor ekki myndin til að fullnægja þörfum ykkar. Í þessu aðalatriði myndarinnar sjáum við sömu sprengingarnar drepa mismunandi fólk frá mismunandi sjónarhornum í 40 mínútur! ÞETTA ER EKKI SKEMMTILEGT! Sérstaklega vegna þess að manni er nákvæmlega alveg sama um ALLAR persónurnar. Rétt fyrir árásina reyna Bay og Brukheimer að misnota tilfinningar okkar með því að sýna börn að leik út um allt en okkur er alveg sama. Það sem þeir eru að gera er svo augljóst að enginn fellur fyrir því. Svo koma sprengjur. Og fleiri sprengjur. Og aðrar sprengjur. Og þetta heldur áfram ENDALAUST! Ég veit ekki hvort ég á að kenna B&B um þetta atriði eða handritinu, en ég veit það að hægt er að kenna handritinu um margar ömurlegustu línur sem sagðar hafa verið á hvíta tjaldinu. Ég skora á ykkur að hlæja ekki þegar hjúkkurnar ræða um fjölda skipa og skipverja í höfninni (INFOMERCIAL!!!) eða þegar Alec Baldwin segir I'm an American á kínversku. Fjöldinn af hræðilegum línum er ótrúlegur. Ég gat ekki trúað því sjálfur. Og þær eru svo væmnar! Þetta er bara ótrúlegt. Leikararnir eru allir í algjöru meðallagi, enginn áberandi góður né lélegur. Eftir að hafa upplifað þessa yfirþyrmandi löngu þolraun í gær komst ég að þeirri niðurstöðu að ég hef aldrei á ævinni séð mynd sem kemst nálægt því að vera jafnleiðinleg og Pearl Harbor. Jú, kannski kemst Big Momma's House nálægt því, en það er líka ekkert aumkunarverðara en ófyndin og léleg grínmynd. Ég vona að sem fæstir finni sig knúna til að sjá Pearl Harbor (ég veit þó að það er óskhyggja; auglýsingaaherferðin er búin að koma því til skila að ALLIR Á JÖRÐINNI !!VERÐI!! AÐ SJÁ ÞESSA MYND!!!!) en hún ekkert nema heimskuleg, leiðinleg, óspennandi, léleg, illa leikin, illa skrifuð og tilgangslaus hasarmynd sem vekur engar tilfinningar nema ógeð. Og það út í kvikmyndagerðarmennina sjálfa.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Valentine
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Hahahaha! Ég get ekki annað en hlegið! Á meðan ég skoða umsagnir þeirra sem hafa skrifað hér á undan get ég ómögulega varist hlátri. Af hverju? Ef þið fylgist eitthvað með gagnrýnendum eða kvikmyndum þá vitið þið líklegast að Valentine er ein af þessum myndum sem enginn á eftir að verða spenntur yfir þegar kemur að tilnefningum til óskarsverðlauna eftir nokkra mánuði; vægast sagt hefur Valentine fengið hörmulega, ömurlega og vonda dóma. Hún er, samkvæmt meirihlutanum, léleg. Gagnrýnendur kvikmyndir.is virðast vera á sama máli, sex á móti tveimur í augnablikinu. Fyrirgefið, sex á móti þremur... Þessi staðreynd er reyndar ekki hin raunverulega ástæða sem liggur að baki hlátri mínum. Ég hlæ vegna þess að ég hef ákveðið að skrifa ekki bara góða gagnrýni um þessa mynd, heldur ætla ég einnig að mæla með því að aðrir fari að sjá hana. Nei, ég er ekki að kalla hana svo lélega að hún er góð, mér finnst þessi mynd vera þriggja stjörnu virði og ætla að reyna að útskýra hvers vegna. Valentine er önnur mynd leikstjórans Jamie Blanks sem gerði að mínu mati eina verstu unglingahrollvekju allra tíma, Urban Legend (þeir sem þekkja mig muna kannski eftir því að ég sagði annað þegar ég gekk út af þeirri mynd, en ég get lofað ykkur því að ég hata hana núna!) Ég var sem sagt ekkert sérstaklega spenntur fyrir Valentine þar til fyrir skömmu, eftir að ég sá trailerinn. Trailerinn fékk mig til að búast við virkilega lélegri mynd sem ég gæti hlegið að. Svo fór ég á myndina og tók eftir nokkrum hlutum strax í byrjun: 1. Þessi mynd á eftir að vera heimskuleg. 2. Margar fallegar konur eiga eftir að deyja. 3. Það er einhver skemmtilegur stíll yfir myndinni... hún er vel tekin upp. En útlitið á Valentine var ekki það eina sem vakti áhuga minn. Ég komst fljótt að því að leikkonurnar voru ekki eins slæmar og ég bjóst við, fyrir utan Denise Richards sem gæti alveg eins haldið á handritinu fyrir framan sig til þess eins að geta a. M. k. borið línurnar fram rétt. Leikkonurnar eru engar Jodiur eða Sigourneyur en þær eru betri en margar aðrar leikkonur sem við sjáum oft í myndum sem þessari. Og talandi um myndir sem þessar! Ó, hvað það var gott að handritið var ekki fullt af cool, póst-módernískum sjálfsvísandi bröndurum sem hafa ráðist á unglingamyndirnar í Ameríkunni. Svo er varla hægt að tala um þessa mynd sem unglingahrollvekju þar sem flestar persónurnar eru komnar yfir tvítugsaldurinn. Einnig vantar algjörlega alla pólitíska rétthegðun; allar persónur eru hvítar og morðinginn virðist einblína á kvenkyns fórnarlömb. Með því að sleppa þessum hlutum forðast kvikmyndagerðarmennirnir óþarfa tilgerðarsemi. Það er raunverulega engin tilgerð í þessari mynd. Hún virkar sem skemmtilegt skref í átt að eldri slasher-myndunum og minnir jafnvel á (ég þori varla að segja það, en...) sumar myndir ítalska meistarans Dario Argento (þ. E. útlitið og hegðun morðingjans &8211; ekki sagan sjálf eða handritið), og ég efast ekki um það að Argento hafi verið einn af stóru áhrifavöldum Blanks. Talandi um Argento - þið kvikmyndir. Is gaurar megið alveg fara að setja einhverjar af myndum hans inn á vefinn ykkar! Til þess að ljúka þessu þarf ég að koma einu á framfæri: Allt sem ég hef minnst á til þessa skiptir raunverulega engu máli í mynd af þessu tagi ef einu atriði er sleppt; spennu. Þessi mynd er, að mínu mati (og mér er sagt að það sé ekki gott mat), spennandi og er það aðalástæðan fyrir því að ég ætla að mæla með myndinni. Svo kemur endirinn einnig skemmtilega á óvart þar sem hann er allt öðruvísi en flestir aðrir endar í svipuðum myndum. Nú verð ég að hætta - ég hef skrifað meira en nóg um mynd sem á það eiginlega ekki skilið, en hún á þó meira skilið en það sem flestir segja um hana. Hún er að minnsta kosti betri en viðbjóðurinn Cherry Falls!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Final Analysis
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það er alltaf svo gaman þegar manni er komið á óvart! Final Analysis er mynd sem virðist í fyrstu vera heldur ómerkileg erótísk spennumynd í anda Basic Instinct og Fatal Attraction, a.m.k. gefur hulstrið á videospólunni ekki annað til kynna. Sannleikurinn er samt sá að Final Analysis er stórgóður sálfræðiþriller í anda Hitchcocks. Richard Gere leikur sálfræðing sem verður ástfanginn af hinni gullfallegu Heather Evans (Kim Basinger) sem er systir sjúklings hans, Diönu (Uma Thurman). Heather er gift ruddalegum glæpamanni (Eric Roberts) og við vitum öll að svona mixtúra getur ekki leitt neitt gott af sér. Morð eru framin, persónur eru ekki allar þar sem þær eru séðar og myndavél Phil Joanous missir stjórn á sér og útkoman er alveg hreint ofsalega góð og skemmtileg mynd. Gallinn við hana er einfaldlega sá að hún er allt of flókin. Síðasti klukkutíminn fer í það að leysa úr öllum flækjunum og trúið mér þegar ég segi að það birtist ný flækja í hverju atriði þessa klukkutíma. Sumir gætu talið þetta of mikið af hinu góða, en ég er svo hrifinn af svona handritum og myndum þar sem öll smáatriði skipta máli og það sem virtist ómerkilegt í byrjun reynist vera vendipunktur myndarinnar í lokin. Þetta er stórgóður þriller sem ég mæli svo sannarlega með.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Gift
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég hef sagt það oft áður en verð að segja það aftur: Sam Raimi er snillingur! Þetta nýja átrúnaðargoð mitt sýnir það og sannar með hverri mynd sinni að hann er algjör snillingur og þó The Gift sé fjarri því að vera hans besta mynd er hún samt sem áður gott dæmi um þessa hröðu þróun Raimis í átt að því að vera fullkominn leikstjóri. Í The Gift leikstýrir hann eftir handriti Billy Bob Thornton en saman unnu þeir við myndina A Simple Plan, sem var einnig alveg frábærlega yndislegt meistaraverk. Thornton byggir handrit sitt, eða aðalpersónu þess, á móður sinni sem var skyggn og leikur Cate Blanchett þessa konu, Annie. Annie er fengin til að hjálpa við rannsókn á dularfullu mannshvarfi og hefst þá skelfilega ógnvekjandi og dularfull atburðarrás... Raimi er þekktur fyrir ótrúlegar kvikmyndatökur og kraftmiklar myndir. Upp á síðkastið hefur hann þó haldið aðeins aftur af sér, kannski til þess að öðlast meiri virðingu í Hollywood, en í The Gift má þó sjá leifar af hinni þekktu "crazy-cam" sem hann skapaði og ýmisleg ummerki hans sem m.a. þeir Coen bræður hafa tileinkað sér. Raimi fer einnig þá óhefðbundnu leið (þ.e. nú til dags) að byggja upp einhverja spennu áður en hann kastar á okkur bregðuatriði, eitthvað sem ég held ég hafi ekki séð í svona spennumynd síðan What Lies Beneath. Myndin er þó allt öðruvísi en What Lies Beneath þar sem hún er mun dekkri og drungalegri og ekki að velta sér upp úr jafnmörgum subplottum. The Gift er frekar einföld mynd þannig séð en leggur þá mun meiri áherslu á persónurnar svo að okkur stendur ekki á sama um afdrif þeirra í lokin. Og talandi um lokin: þau voru það sem ég var mest óánægður með fyrstu mínúturnar eftir að myndinni lauk, en eftir því sem ég hugsa meira um endinn, því ánægðari verð ég með hann. Af leikurunum má segja að allir standi sig mjög vel. Cate Blanchett er á góðri leið með að verða ein besta leikkonan í Hollywood í dag og er frábær hérna eins og venjulega. Giovanni Ribisi, sá venjulega óþolandi hálfviti, er einnig mjög góður og það sama má segja um Keanu Reeves sem kemur manni mjög mikið á óvart. Hillary Swank og Katie Holmes (!) standa sig líka vel í minni hlutverkum. Sam Raimi hefur með The Gift tekist að gera eina bestu spennumynd ársins (til þessa) og mæli ég eindregið með henni.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Hannibal
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það er ekki oft sem mér hreinlega líður illa á kvikmynd en Hannibal fékk mig til að engjast um af yndislegum, hugrænum kvölum... OJ! Ef þið eruð viðkvæm þá mæli ég ekki með því að horfa á þessa mynd til enda. Að hlusta á bíósalinn í "atriðinu" (you know what I mean) var eiginlega óborganlegt fyrir einhvern sem hefur séð "atriðið" oft áður. Og þar sem ég tel að takmark aðstandenda Hannibal hafi verið að vera verulega ógeðslegir, þá er hægt að segja að þeim hafi tekist það ætlunarverk sitt. OJ!!! Annars er lítið annað hægt að segja um þetta ágæta framhald hinnar frábæru Silence of the Lambs. Farin eru hin frábærlega vel skrifuðu og leiknu samtöl milli Clarice og Hannibals. Farin er öll sálræna spennan sem var svo vandlega byggð upp af Jonathan Demme. Farin er Jodie Foster með alla sína yfirnáttúrulega góðu leikhæfileika. Ég get eytt öllum deginum í það að væla um muninn á Silence of the Lambs og Hannibal, en ég nenni því ekki. Sérstaklega ekki vegna þess að kvikmyndagerðarmennirnir voru mjög augljóslega ekki að reyna að endurgera fyrri myndina. Þeir voru að gera sjálsfstætt framhald. Mjög sjálfstætt framhald. Ég las bókina í sumar og hafði gaman af þangað til hún leystist upp í algjör kjaftæði og bull á síðustu 100 blaðsíðunum. Sem betur fer er búið að skrifa annan endi fyrir myndina (reyndar þrjá; Ridley Scott, Dino De Laurentiis og Thomas Harris fengu allir einn hver), en samt eru 90 blaðsíðurnar þar á undan ennþá til staðar í myndinni. Og ganga þær furðulega vel upp miðað við það hversu hallærislegar þær voru í bókinni. Ridley Scott er ekkert að reyna að herma eftir fyrri myndinni heldur nægir það honum að vera flottur (eins og alltaf) og sína okkur ógeðslega hluti. Eins og villigelti að borða fólk. Eða heila... En eitthvað vantar, t.d. væntumþykju á persónunum eða uppfyllingu í þetta tómarúm sem maður finnur fyrir eftir að myndin er búin. Julianne Moore og Anthony Hopkins eru góð en Gary Oldman og makeupið hans stela myndinni. Ray Liotta nær að vera minna pirrandi en venjulega. Einhverjir hér að ofan hafa minnst á tónlistina í myndinni. Ég hef of lýst yfir andúð minni á Hans Zimmer því yfirleitt fyrirlít ég leiðinlega og ljóta tónlist hans. En ekki í þetta skiptið. Hannibal markar tímamót í lífi mínu þar sem ég var í fyrsta skiptið á ævi minni fullkomlega sáttur við tónlist Zimmer og fannst mér hún, gasp!, flott! Mjög flott. Myndin er einnig flott, áferðarfalleg og stílísk eins og allar Ridley Scott myndir, en samt er hún lítið annað en Hollywood-hæpuð ruslmynd. En rusl af bestu gerð.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
O Brother, Where Art Thou?
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það er alltaf gaman þegar ný mynd eftir Coen-bræður kemur í bíó, enda hefur þeim ekki ennþá tekist að gera "lélega" mynd. O Brother, Where Art Thou? er kannski ekki ein af þeirra bestu myndum, en hún er svo sannarlega skemmtileg og þess virði að sjá - svo er það líka skylda að fara á Coen-mynd í bíó fyrir alvöru kvikmyndaáhugamenn. Í þessari mynd sjáum við alla venjulegu þætti Coen-myndanna; skrítnar persónur, flotta myndatöku, frábær, launfyndin samtöl og kolsvartan húmor. George Clooney sannar það enn og aftur að hann er mun betri leikari en flestir vilja meina og vanir Coen-leikarar á borð við John Turturro, John Goodman, Charles Durning og Holly Hunter eru allir í góðu formi. Einnig má minnast á Tim Blake Nelson sem er frábær í sínu hlutverki. Ég mæli eindregið með O Brother, Where Art Thou.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Traffic
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Steven Soderbergh er mjög umtalaður leikstjóri í augnablikinu. Í fyrra sendi hann frá sér hvorki meira né minna en þrjár myndir, Erin Brockovich, The Limey og Traffic, en allar fengur þær mjög góða dóma - þá sérstaklega Erin og Traffic. Báðar þessar myndir eru tilnefndar til ótal óskarsverðlauna auk annarra verðlauna og er því öruggt að segja að árið 2000 hafi verið ár Soderberghs. Traffic hefur vakið mikið umtal vestra fyrir að vera fyrsta kvikmyndin sem sýnir eiturlyfjavandamálið þar í raunsæju og hlutlausu ljósi. Það eru engir vondir eða góðir kallar hérna, bara fólk sem tekur misgóðar eða vondar ákvarðanir í lífi sínu. Myndin er í raun þrjár, fjórar sögur sem segja frá mismunandi fólki sem er allt tengt með eiturlyfjum og er sagt frá því hvernig þetta fólk bregst við þeim vandamálum sem eiturlyfjunum fylgja. Af leikurunum hef ég mest heyrt talað um hversu frábær Benicio del Toro sé, og hann er frábær, en sú frammistaða sem kom mér hvað mest á óvart var leikur Catherine Zeta-Jones. Hún hefur nú aldrei verið beint léleg í myndum sínum en hún hefur heldur aldrei fengið tækifæri til að láta ljós sitt skína. Í Traffic er hún alveg mögnuð og kemur að mínu mati best út úr allri myndinni ásamt Eriku Christiansen, sem er líka frábær. Michael Douglas er traustur að vanda eins og Don Cheadle. Luis Guzman og Dennis Quaid koma einnig við sögu og standa sig mjög vel líka. Handritið er sömuleiðis stórgott, allar sögurnar eru skemmtilegar og raunverulegar og vildi ég a.m.k. sjá hvernig þetta endaði allt saman. Leikstjórn Soderberghs er traust að venju og skemmtileg notkun hans á filterum og mismundandi hraða á shutterum skapar frábært andrúmsloft og kemur það mér á óvart að myndin skuli ekki hafa fengið óskarstilnefningu fyrir bestu myndatöku. En Akademían er líka samansett af fíflum eins og sést á tilnefningum þeirra í ár og því skulum við ekki tala meir um hana. Ef það er einhver galli í myndinni þá er það kannski að hún er langdregin á köflum og hefði mátt þétta myndina örlítið til þess að gera hana fullkomna. En eins og hún stendur er Traffic stórkostleg mynd og á skilið öll þau verðlaun sem hún mun örugglega hljóta í framtíðinni.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Cast Away
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég þarf ekki að taka það fram að miklar væntingar voru gerðar til Cast Away. Ýmisleg verðlaun voru orðuð við myndina og var það nokkuð víst að myndin myndi taka þátt í Óskarsverðlaunabaráttunni. Tom Hanks - sem þurfti að þræla og púla fyrir myndina - myndi sýna stórleik og Robert Zemeckis hefði hér með gert sýna fyrstu alvarlegu mynd sem allir yrðu ánægðir með. Ja, ekki alveg... Að vísu sýnir Tom Hanks stórleik, en ég efast um að þessi mynd fái margar tilnefningar þegar að Óskarnum kemur og besta alvarlega mynd Zemeckis er ennþá Contact, þrátt fyrir að ýmsir (heimskir) gagnrýnendur séu á öðru máli. Myndin segir í mjög stuttu máli frá Chuck Noland sem lendir í flugslysi og þarf að búa á eyðieyju í svo og svo langan tíma. Upprunalega hugmyndin var "Robinson Crusoe" í nútímanum og hvernig nútímafólk myndi bregðast við einsemdinni o.s.frv. Hljómar eins og góð hugmynd, og er það upp að vissu marki. Vandinn er einfaldlega sá að erfitt er að enda svona sögu og fáir endar gætu gert myndinni mjög gott, enda sést það. Tveir þriðjuhlutar myndarinnar eru frábærir, byrjunin og miðjan. Myndin kolfellur um sjálfa sig í alveg ótrúlega langdregnum og óáhugaverðum lokahluta, og er það ofsalega mikil synd þar sem ég veit að Zemeckis valdi þennan enda yfir upprunalega endann. Hvernig sem sá endir var þá var hann örugglega ekki mikið verri en þessi týpíski Hollywood endir sem að mínu mati eyðileggur það sem hægt er að eyðileggja í þessari annars stórkostlegu mynd. Zemeckis er algjör snillingur þegar kemur að myndatöku og tæknilegu sviði kvikmyndagerðar og ef einhverjum leiðist sjálf myndin þá er tilvalið að fara í leikin "spot-the-FX", en það er orðið ofsalega gaman að reyna að koma auga á allar "ósýnilegu" tæknibrellurnar hans Zemeckis. En hverjum er ekki sama um brellur? Hvað um sjálfa myndina, þ.e. Tom Hanks. Hvernig stendur hann sig? Hann á skilið öll þau verðlaun sem hann hefur fengið og á eflaust eftir að fá og er alveg frábær í hlutverki sínu. Helen Hunt er einnig mjög góð í þeim fimm mínútum sem hún er með í myndinni og ég ætla ekki einu sinni að tala um aðra leikara þar sem þeir skipta tæknilega engu máli. Hanks á þessa mynd og gerir hana að algjörri upplifun. Það er bara leiðinlegt að myndin skuli ekki hafa getað bjargað sjálfri sér frá svo óáhugaverðum endalokum.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Crouching Tiger Hidden Dragon
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það eru svona myndir sem gera það þess virði að fara í bíó. Eftir heldur dapurt ár fyrir kvikmyndir þá er ekki annað hægt að segja en að árið 2001 byrji mjög vel: Crouching Tiger, Hidden Dragon á örugglega eftir að komast á marga topp 10 lista eftir ár. Á sýningunni sem ég var viðstaddur fór það ofsalega í taugarnar á mér þegar fólk hló að ýmsum mikilvægum atriðum. Ég skildi það bara ekki af hverju fólk var að sýna þessari snilldarmynd svo mikla óvirðingu, en fékk þó útskýringu á því eftir myndina: "Ég bjóst bara ekki við þessu" var sagt, og er því hægt að snúa hlátrinum upp í hrós, en hrós er eitthvað sem Crouching Tiger á svo sannarlega skilið. Ang Lee hefur hér gert ótrúlega góða, fallega og skemmtilega ævintýramynd sem á eftir að verða klassísk eftir nokkur ár. Myndir segir frá kínversku "hermönnunum" Li Mu Bai og Shu Lien sem leita að 400 ára gömlu sverði og erkifjanda sínum, hinni alræmdu Jade Fox. Ekkert merkilegt við það, nema hvað að þetta fólk, frábærlega leikið af Chow Yun-Fat og Michelle Yeoh, ögrar náttúrulögmálunum með því að fljúga, ganga á lóðréttum veggjum og hreyfa sig mjög, mjög hratt. Þau gera í öðrum orðum það sem Wachowski-bræðurnir þorðu ekki að láta sína karaktera gera. Allt er þetta náttúrulega snilldarvel gert, en það eru landslagið, sérstakir tökustaðirnir og frábær myndatakan, sem er alltaf á hreyfingu, sem gera þetta svo einstakt. Bardagarnir virðast líka mun eðlilegri, ef svo má að orði komast, en þeir sem voru í The Matrix, og er Lee ekkert að velta sér upp úr "sjáðu-hvað-ég-get-gert-flott" stælum. Fyrsta frábæra mynd ársins - farðu og sjáðu hana!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Proof of Life
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Proof of Life er ein af þessum tilgangslausu Hollywood "star-vehicle" myndum þar sem góðir leikarar eru fengnir til að hylja lélegt handrit og spennu sem er ekki til staðar. Þetta er mynd sem á sér engan annan tilgang en að koma af stað sögusögnum um tvo aðalleikarana og er hægt að gefa kvikmyndagerðarmönnunum kredit fyrir að hafa tekist það ætlunarverk sitt, en þeim tekst lítið annað í þessari leiðinlegu, óspennandi mynd. Meg Ryan leikur Alice, frjálslega konu sem lendir í því óláni að manninum hennar (David Morse) er rænt af hryðjuverkamönnum. Russell Crowe leikur sérfræðing í gíslatökumálum og kemur henni til hjálpar. Á milli þeirra á víst eitthvað að gerast en við tökum aldrei eftir því og þess vegna kemur það okkur alveg ótrúlega mikið á óvart þegar ein persóna spyr Crowe: "Are you in love with this woman?" HA? Missti ég af einhverju? Það gerðist nákvæmlega EKKERT á milli Ryan og Crowe og skyndilega er hann orðinn ástfanginn af henni? Þetta kallar maður bad chemistry og dregur það myndina strax niður. Ekki það að hún hafi verið eitthvað sérstaklega góð fyrir: þessi svokallaða spennumynd er ekkert spennandi vegna þess að það gerist nákvæmlega ekki neitt í henni! Það er ekki fyrr en í endanum sem eitthvað fer að gerast en þá skiptir myndin skyndilega um gír og breytist í Rambo-mynd sem gerir allt það sem áður gerðist hallærislegra. Svo hjálpar ekki til frekar lélegur leikur. Meg Ryan er bara pirrandi og ósannfærandi á meðan Russell Crowe lítur út eins og hann vilji alls ekki vera þarna. David Morse fær enga meðaumkun hjá okkur áhorfendum vegna þess að meðferðin á honum er aldrei nógu vond. Það eru þó nokkrir góðir punktar; myndatakan er flott og tónlistin ágæt (þó Danny Elfman hafi gert MIKLU flottari og betri tónlist) en það er ekki hægt að afsaka óspennandi og leiðinlega spennumynd. Taylor Hackford má skammast sín!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Blood Simple.
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Coen bræðurnir Joel og Ethan hafa á 16 ára ferli sínum ekki gert lélega mynd. Myndir þeirra eru kannski misgóðar og sumar ekki fyrir alla, en engin er léleg eins og Batman & Robin eða Reindeer Games. Blood Simple, þeirra fyrsta mynd, er að mínu mati þeirra besta mynd. Þegar ég sá hana fyrst vissi ég nákvæmlega ekki neitt um hvað hún var, bara að Empire hafði gefið henni fimm stjörnur og að Coen bræðurnir hefðu gert hana. Sem betur fer vissi ég ekki meira. Blood Simple grípur áhorfandann á fyrstu mínútunum með alveg frábæru handriti. Atriðið með John Getz og Frances McDormand í bílnum er svo vel skrifað og vel leikið að ég veit ekki hvað. Myndin verður bara betri eftir það. Ég ætla ekki að fara út í söguþráðinn því að ég tel að þetta sé mynd sem maður á að vita sem minnst um áður en maður sér hana. En ég get þó sagt ykkur að ef atburðarrásin kemur ykkur ekki á óvart þá mun líklegast ekkert gera það. Blood Simple er besta nútíma film noir-mynd sem gerð hefur verið til þessa. Persónurnar eru engar Hollywood Action Ken- og Barbiedúkkur heldur venjulegt fólk sem tekur venjulegar (en, í þessari mynd, rangar) ákvarðanir. Coen bræðurnir byggja upp spennuna með gömlum brögðum þar sem t.d. við vitum eitthvað sem persónurnar vita ekki, eitthvað sem gæti gert út af við þau síðar meir. Ég vil ekki gefa upp meira því að eitt það skemmtilegasta við Blood Simple er að fylgjast með plottinu rekjast upp. Frábæru, útpældu handritinu til hjálpar koma m.a. dásamleg kvikmyndataka (eftir Barry Sonnenfeld), flott tónlist eftir Carter Burwell og frábær leikur þar sem M. Emmet Walsh fer á kostum. Þó að Coen bræðurnir hafi gert margar ódauðlegar og frábærar myndir síðan 1984 þá hafa þeir enn ekki náð að toppa Blood Simple og það eitt ætti að gera það skyldu að sjá hana.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Unbreakable
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Unbreakable, eða Unbearable eins og ég kýs að kalla hana, gerir snemma þau mistök að halda það að áhorfendurnir gleypi við öllu sem handritshöfundurinn, M. Night Shyamalan (sem einnig er leikstjóri og framleiðandi), skrifar. Rauði þráðurinn sjálfur er mjög skemmtilegur og spennandi: Bruce Willis leikur David Dunn, mann sem hefur aldrei orðið veikur og hefur sjaldan eða aldrei slasast. Þetta rennur upp fyrir honum þegar hann er sá eini sem lifir af alvarlegt lestarslys. Samuel L. Jackson leikur manninn sem reynir að hjálpa David að átta sig á tilgangi sínum í lífinu. Eins og ég sagði er þessi saga skemmtileg og hefði getað orðið mjög góð kvikmynd ef Shyamalan hefði ekki kryddað hana með ýmsum leiðinlegum, heimskulegum og pirrandi hugmyndum og er útkoman ótrúlega hallærisleg mynd sem tekur sig allt of alvarlega. Með örlitlum breytingum á handritinu hefði Unbreakable getað orðið gamanmynd, og mjög góð sem slík, en eins og hún stendur er hún aðeins leiðinleg, vandræðaleg og léleg. Ég fór hjá mér og skammaðist mín fyrir hönd Shyamalan í mörgum "lykilatriðum" myndarinnar, þ.á m. lokaafhjúpuninni (og viðurkennum það, við vissum öll að hún yrði til staðar) þar sem ég endurtók í huga mér orðin "Guð minn almáttugur" aftur og aftur alveg þangað til kreditlistinn kom. Og hvað var þetta með "what happened to them" textann í endanum? Var þetta sunnudagsmynd byggð á sönnum atburðum? Nei, en hún er heldur ekkert betri. Öll umgjörð myndarinnar, útlitið, myndatakan og uppbygging sögunnar, er skuggalega lík The Sixth Sense, hinni ofmetnu fyrri mynd Shyamalans, og fær það mig til að halda það að M. Night sé eingöngu "one-hit-wonder" og eigi alveg örugglega ekki eftir að fylgja vinsældum og gæðum þeirrar myndar eftir. Unbreakable er í sjálfu sér fagmannlega unnin á öllum sviðum nema því er snýst að sögunni; Myndatakan er flott o.s.frv. en við höfum séð þetta allt áður. Það kæmi mér ekki á óvart ef mér yrði sagt að margar sviðsmyndirnar væru einfaldlega úr The Sixth Sense. Bruce Willis er allt í lagi en ekkert meira en það, Samuel L. Jackson er óviljandi fyndinn í sínu hlutverki þar sem hann lítur út eins og karakter úr Matrix en talar eins og The Sphinx úr Mystery Men og fær alveg hreint ótrúlegar línur. Það sem maðurinn segir... í sjálfu sér er það leiksigur fyrir Jackson að hafa getað sagt þessar línur án þess að hlæja eða brotna niður af sjálfsfyrirlitningu. Robin Wright Penn sýnir góða takta sem "eiginkonan" og einhver strákur sem var líka í Gladiator á aldrei eftir að verða hinn næsti Haley Joel Osment eins og hann, og örugglega Shyamalan líka, er að sækjast eftir. Það eina sem stendur upp úr sem gott er tónlist James Newton Howard, þó hún sé yfirdrifin á köflum og illa staðsett á nokkrum stöðum (en það er líklegast Shyamalan að kenna). Unbreakable er lítið annað en léleg mynd sem dulbýr sig sem alvarlegt, dramatískt kvikmyndaverk. Hún er það ekki.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Hand That Rocks the Cradle
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

The Hand that Rocks the Cradle er skemmtileg, en gölluð, spennumynd sem heldur áfram með "yuppie-nightmare"-semi-genreinn sem myndir eins og Pacific Heights eða Mortal Thougths störtuðu snemma á tíunda áratugnum. Rebecca DeMornay leikur geðbilaða konu sem ræður sig sem barnfóstru hjá konunni sem hún telur eiga sök á sjálfsmorði eiginmanns síns. Helsti kostur myndarinnar felst í DeMornay sem er skemmtilega nasty og illgjörn kona og gerir oft á tíð mjög vonda hluti. Helsti gallinn er sá að myndin kemst aldrei á almennilegt flug og er aldrei nægilega spennandi til að virka sem sálfræðiþriller. Hún er samt sem áður vel leikin, skemmtileg og flott og gaman er að kíkja á hana þar sem Curtis Hanson gerði hana áður en hann varð heimsfrægur fyrir L.A. Confidential. Besta atriðið er þegar Julianne Moore fer inn í gróðurhúsið... Kewl!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Death Becomes Her
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Death Becomes Her er ein besta, svartasta og fyndnasta grínmynd síðari ára, mynd sem fjallar um afbrýði, græðgi, kynlíf, fegurð, líf og dauða og tekur ekkert alvarlega. Frá opnunaratriðinu - Meryl Streep sem hin hræðilega B-leikkona Madeline Ashton leikur í ömurlegri söngútfærslu á Sweet Bird of Youth, Songbird - og til lokaatriðsins heldur myndin góðum dampi, þökk sé leikurunum og hinum frábæra Robert Zemeckis sem leikstýrir af stakri snilld. Myndin segir frá tveimur vinkonum, Madeline og Helen (Goldie Hawn) sem hafa átt svona love-hate samband í gegnum tíðina, sérstaklega vegna þess að Madeline hefur það fyrir venju að stela kærustum Helen og Helen baktalar Madeline án afláts. Dularfull kona (Isabella Rosselini) flækist inn í líf þeirra og með henni dularfullur drykkur sem gerir manneskjur ungar... og ódauðlegar. Þegar þessi mynd kom út árið 1992 var hún algjör frumkvöðull í tæknibrellum og vann hún óskarinn fyrir þær. Í dag eru brellurnar alveg jafn stórkostlegar þó þær yfirtaki ekki söguna eins og svo margar nútímamyndir gera. Gaman væri að sjá öll atriðin sem Zemeckis klippti út en einhverjir tugir mínútna hurfu í klippiherberginu vegna lengdar og hraða. Myndin er samt sem áður frábær og algjört must fyrir aðdáendur svartra kómedía.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
How the Grinch Stole Christmas
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þessi mynd átti að verða jólamyndin í ár fyrir mér. Þessi mynd yrði, og þetta var ákveðið, góð, skemmtileg, frábær. Það var engin leið að þessi mynd gæti misheppnast. Hvernig gat hún það með þessu einvala liði fólks í kringum sig? Ron Howard, Jim Carrey, Anthony Hopkins, Christine Baranski, Molly Shannon, Rick Baker - jafnvel James Horner! Það litla sem ég sá í trailerunum var að sviðsmyndirnar yrðu flottar, myndatakan yrði flott og make-upið yrði flott. Annað var bara augljóst að yrði flott og gott líka. Þetta er það sem ég hélt og í tíu mínútur eftir að myndin byrjaði hélt ég þessari skoðun. En ég hafði rangt fyrir mér og þess vegna hryggir mig að segja það að The Grinch er vonbrigði ársins. Þessi mynd hefði átt að vera eins og The Nightmare Before Christmas. Hún hefði átt að vera eins og Gremlins. En, nei! Þessi mynd er eins og The Santa Clause með Tim Allen, Jingle All the Way... allar lélegu jólamyndirnar! Greinilegt er að Ron Howard átti sér draum um að skapa veröld; litríka, fallega, skemmtilega veröld. Og honum tókst það, upp að vissu marki. Myndin lítur út eins og Christmas Town í The Nightmare Before Christmas, hún er jafn litrík og Edward Scissorhands og þess vegna tel ég að Tim Burton hefði átt að gera þessa mynd þar sem greinilegt er að Howard veit ekki að allt er gott í hófi. Orðið "hóf" er ekki til í Whoville þar sem allt gengur út á litríkt overkill og er áhorfandinn orðinn meira en leiður á bænum og íbúum hans eftir tíu mínútur. Og þá taka við leiðindi þar sem við sjáum sama ofskreytta, leiðinlega, innantóma bæinn aftur og aftur. Hellirinn þar sem The Grinch býr er skömminni skárri sem hann lítur út eins og grínútgáfan af Batman hellinum. Aftur verð ég að minnast á Burton og segja það að hann hefði gert mun betri mynd úr viðfangsefninu. En þar með er ekki sagt að eini gallinn við myndina sé útlitið, nei! Það versta við myndina er hversu tómleg hún er. Hún lítur kannski vel út, en undir niðri er hún bara langdregin, leiðinleg, ljót og léleg. Jim Carrey gerir hvað hann gerir til að kreista hlátur úr áhorfendum og þeir óþjálfuðu munu kannski falla fyrir brögðum hans. Við hin finnum fyrir deja vu og munum eftir því að þetta er önnur mynd Carreys í röð þar sem hann þarf að endurtaka gamla, dauða brandara. Ég held að grín-og fífla Carrey sé búinn að vera og hinn mun skárri alvarlegi Carrey sé kominn til að vera. Hann þarf a.m.k. að finna sér betri handrit ef hann ætlar að láta fíflalætin virka áfram. Nokkrir brandarar hans virka, en fáir (ég man ekki einu sinni hverjir) en allt of oft gerist það að Carrey hoppar um öskrandi án þess að við vitum af hverju og á þeim stundum vorkenndi ég honum. Hinir leikarar myndarinnar koma mun minna til sögu. Þar má kannski helst nefna Taylor Momsen sem leikur Cindy Lou Who, litlu stelpuna sem trúir því að innst inni í "Trölla" leynist gott hjarta. Momsen stendur sig ágætlega og kemst vel frá sínu en af hverju - AF HVERJU!??! - þurfti hún að syngja alveg hreint ömurlegt lag í miðri mynd? Og að það hafi verið samið af Mariuh Carey er bara verra! Carrey tekur einnig lagið en syngur ekki af jafnmikilli einlægni og Taylor og er þess vegna ekki jafn hallærislegur. Einu leikararnir sem sjást of lítið en ættu að sjást meira eru þær Christine Baranski og Molly Shannon. Baranski er alltaf fyndin en Shannon, alveg hreint stórkostleg gamanleikkona, fær nákvæmlega ekkert að gera. Það kemur mér á óvart að hæfileikaríkur leikstjóri eins og Ron Howard hafi ekki fattað það að of mikið af öllu gerir ekki góða mynd. Vonandi lærir hann af mistökunum en við skulum hjálpa honum með því að hafa ekki of mikið af gestum að sjá þessa hörmulegu mynd.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Strange Days
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

"You know you want it". Slagorð myndarinnar segir allt sem segja þarf. Strange Days er hasarmynd ólík öðrum hasarmyndum. Hún er snilldarlega vel gerð, frábærlega vel leikin og er ekki bara heimsk sprengjumynd. Þú þarft að hugsa til þess að fatta, skilja og kunna að meta þessa yndislegu mynd. Ralph Fiennes leikur Lenny Nero, sleazy gaur sem vinnur fyrir sér með því að selja "notaðar minningar" (of flókið til að útskýra hér). Dag einn fær hann senda eina slíka minningu þar sem vinkona hans sést hrottalega myrt, sama vinkona og hafði áður sagst vera í vandræðum ásamt fyrrverandi kærustu Nero, Faith (Juliette Lewis). Faith er núverandi ástkona ruddalegs plötuútgefanda, Philo (Michael Wincott) sem m.a. gaf út plötur með rapparanum Jeriko One (Glenn Plummer) sem fannst nýverið myrtur. Nero reynir að upplýsa morðið á vinkonunni og verja Faith með hjálp Mace (Angela Bassett) og Max (Tom Sizemore) en er um leið flæktur í morðgátu sem... þið verðið bara að sjá myndina. Ólíkt mörgum sakamálamyndum með mörgum persónum og flóknum söguþráðum valda sögulok Strange Days engum vonbrigðum, þó margir gætu sagt útkomuna vera langsótta (a la Sleepy Hollow eða What Lies Beneath) en allt þetta gengur upp ef atburðarrásin er rakin aftur. James Cameron og Jay Cocks tókst vel upp með handritið þar sem persónurnar eru aldrei í öðru sæti og passar Kathryn Bigelow vel upp á það að stíllinn sé aldrei of mikið á kostnað efnisins. Allir leikararnir standa sig frábærlega, þá sérstaklega Juliette Lewis sem mér finnst alveg mögnuð. Hún fær einnig að syngja tvö lög og gerir það vel. Strange Days er vel gerður, vel heppnaður þriller og á, eins og Roger Ebert segir, örugglega eftir að verða cult-klassík eins og Blade Runner eftir nokkur ár. You know you want it.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Throw Momma from the Train
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það er margt gott við Throw Momma from the Train, en því miður er ýmislegt vont líka. Myndin er athyglisverðust fyrir þær sakir að hún er fyrsta "feature"-myndin hans Danny DeVito sem leikstjóra (hann hafði gert sjónvarpsmynd og nokkra þætti (t.d. The Ring í Amazing Stories)) og sýnir okkur fyrst og fremst að hann er ekki bara góður leikari heldur afbragðs leikstjóri. Þó að Throw Momma sé ekki eins flott og Hoffa eða eins fyndin og War of the Roses (sem var býsna flott líka) þá á hún sínar stundir, vandamálið er bara að langt er á milli þeirra. Myndin segir frá hinum barnslega Owen (DeVito) og rithöfundinum BILLY (Billy Crystal) sem "skiptast" á morðum - Owen drepur forríka fyrrverandi eiginkonu BILLY og BILLY drepur ógeðslega og leiðinlega móður Owen. Það þarf ekki að spyrja að því - þetta er svört kómedía, eða gæti hafa verið það með betra handriti. Það sem bjargar myndinni algjörlega frá því að vera hreint og beint léleg eru flottar myndatökur frá DeVito og alveg hreint ótrúleg frammistaða Anne Ramsey sem leikur móður Owen. Þessi kona er ógeðslega fyndin í orðsins fyllstu merkingu og í hvert skipti sem hún er á skjánum fer maður að hlæja. Samt sem áður er handritið mjög lélegt og vantar allt of marga brandara, sérstaklega vegna þess að hugmyndin lofar svo góðu. Einnig verður húmorinn aldrei hæfilega svartur (fyndið vegna þess að fólki fannst húmorinn í War of the Roses vera of svartur) og hittir allt of sjaldan í mark. En myndin er þess virði að sjá eingöngu vegna Ramsey og svo bendi ég líka á það fyrir aðdáendur Star Trek að Kate Mulgrew, eða Captain WHATEVER í Voyager, leikur fyrrum eiginkonu Crystals og gerir það bara vel.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Drowning Mona
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Drowning Mona er ofsalega ómerkileg gamanmynd sem forðar sér undan hræðilegleika með góðum leikurum og nokkrum mjög góðum bröndurum. Myndin segir frá leit að morðingja Monu Dearly, skemmtilega leikin af Bette Midler, en Mona var talin af flestum íbúum bæjarins Verplanck leiðinlegasta og versta manneskja á jörðinni. Hver drap Monu Dearly? Ég held að engum sé sama vegna þess að myndin hefur greinilega mjög takmarkaðan áhuga á "morðfléttunni". Það skemmtilegasta við myndina eru hin of fáu flashback atriði þar sem við sjáum Midler í góðum gír, en annars er lítið annað skemmtilegt. Neve Campell og Casey Affleck eru illa valin í sín hlutverk sem afar ómerkilegt par, en Jamie Lee Curtis og William Fichter eru alveg fullkomin sem ógeðslega low-life hvítt hyski, þó Curtis sé allt of lítið með í myndinni til þess að hún skipti einhverju máli. Danny De Vito ætti alls ekki að vera þarna en stendur sig samt ágætlega. Hvernig allir þessir leikarar samþykktu að leika í svona augljósri meðalmynd er fyrir mér óskiljanlegt, en þau ná samt sem áður ekki að lyfta henni mikið upp úr meðalmennskunni. Ég mæli með henni bara fyrir aðdáendur Bette Midler.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Snatch
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það er erfitt að hafa ekki gaman af mynd eins og Snatch; kraftmikilli, fyndinni og skemmtilegri breskri glæpamynd. En þar með er ekki sagt að hún sé gallalaus. Guy Ritchie fær "frjálslega" lánað úr myndum eins og Out of Sight, Lola Rennt og jafnvel fyrri mynd sinni Lock, Stock and Two Smoking Barrels (sem kemur reyndar ekkert á óvart þar sem Snatch er eiginlega sú mynd gerð til að hæfa betur amerískum markaði). Handritið og gerð myndarinnar minnti mig oft á tíð einum of mikið á Lock, Stock... og var það svolítið pirrandi. Leikararnir standa sig allir mjög vel, gaman að sjá Brad Pitt í öðruvísi rullu (þó það sé augljóst að hann hafi verið valinn svo að fólk (þ.e. amerískt fólk) myndi hlæja meira að óskiljanlegum línum hans), Stephen Graham, Alan Ford, Benicio Del Toro og Dennis Farina (sem er alltaf góður) voru líka frábærir. Vinnie Jones fór minna í taugarnar á mér en hann gerði í Gone in 60 Seconds, mér finnst bara hugmyndin að ráða þennan mann eingöngu vegna einhvers branda vera fáránleg, auk þess sem hann er alls ekkert góður leikari og er bara ömurlegur. Sú manneskja sem eyðilagði samt mest fyrir mér var Jason Statham, sem lék Turkish. Ókei, þessi maður var bara pirrandi og lélegur í sínu hlutverki. Hann lék ILLA! Persóna hans var líka leiðinleg og að fá leiðinlegan leikara til að leika leiðinlega persónu skapar ekkert nema vandræði. Því miður leikur hann stórt hlutverk. Snatch er samt sem áður fínasta skemmtun (engin fjögurra stjörnu snilld eins og svo margir hér fyrir ofan vilja meina) og vel þess virði að sjá.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Charlie's Angels
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Cameron Diaz, Drew Barrymore og Lucy Liu leika Charlie's Angels, þrjár ungar konur sem eru fallegar, snjallar og sparka í rassa. Charlie's Angels er líklegast besta hasarmynd ársins (það hafa nú ekki komið margar út) og gefur The Matrix ekkert eftir í bardagaatriðum (mörg hver eru jafnvel betri en í þeirri mynd). Ástæðan fyrir því að þessi mynd virkar svona vel er vegna þess að hún tekur sig jafn alvarlega og Jim Carrey og er eiginlega grínmynd. Ég get ekki sagt að ég hafi hlegið mig máttlausan en mér leiddist aldrei og ég vildi alltaf sjá hvað gerðist næst. Eins og venjan er með auglýsinga-og myndbandaleikstjóra þá kann McG (töff nafn) að nota myndavélina. Það er erfitt að segja til um það hvort hann kunni eitthvað á leikara eða handrit þar sem þessi mynd gerir litlar kröftur til beggja en hann kann svo sannarlega að halda góðum hraða og setja upp flott action-atriði. Gaman væri að sjá hvað hann gæti gert með alvarlegra handrit. Englarnir sjálfir eru í góðum höndum Diaz, Barrymore og Liu sem njóta þess greinilega að klæðast þröngum fötum, keyra á flottum bílum og berja frá sér. Ef þið búist við einhverri djúpri, útpældri Cameron-Wachowski hasarmynd, þá hafið þið örugglega ekki séð trailerana en fyrir þá sem geta sætt sig við tvo tíma af hreinni skemmtun þá mun Charlie's Angels ekki valda vonbrigðum.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Blair Witch 2 : Book of Shadows
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Í fyrsta lagi verð ég að segja að ég er mikill aðdáandi fyrstu myndarinnar, sem mér finnst algjört meistaraverk, og var ég lengi á þeirri skoðun að framhaldsmynd hefði aldrei átt að vera gerð. Ég vildi ekki sjá Book of Shadows: Blair Witch 2. Fyrir u.þ.b. tveimur mánuðum breyttist skoðun mín á þessari mynd úr almennu hatri yfir í smá áhuga; eftir að hafa séð trailerinn og nokkrar góðar umfjallanir var ég nokkuð spenntur að sjá hvað Joe Berlinger (þekktastur fyrir mjög alvarlegar heimildarmyndir) myndi gera úr efniviðnum. Myndin byrjar vel. Ekki mjög vel, en vel. Hún er fyndin, vísar hæfilega mikið í fyrri myndina og gerir smávegis grín að henni. Söguþráðurinn sjálfur er góður og hljómar spennandi: nokkur ungmenni fara ásamt leiðsögumanni í skóga Burkittswille, heimili Blair-nornarinnar. Þau er þar af ýmsum ástæðum og taka dvölina ekki mjög alvarlega. Fyrsta kvöldið í skóginum drekka þau mikið og vakna svo um morguninn, búin að gleyma fimm klukkutímum um nóttina. Myndavélarnar sem þau voru með og ýmis skjöl eru í rúst, en spólurnar úr myndavélunum (sem voru staðsettar allt í kring og tóku stöðugt upp atburði næturinnar) eru óskemmdar. Til þess að komast að því hvað gerðist um nóttina verða þau að horfa á spólurnar og við fáum kröftugan skammt af Blair-Witch-shaky-cam myndefni við áhorfið. Eins og ég sagði, góð hugmynd. En ekki er vel unnið úr henni. Í fyrsta lagi eru allar persónurnar frekar óáhugaverðar og sú litla persónusköpun sem á sér stað er oft á tíð ruglingsleg og algjörlega óviðeigandi. Við sjáum flashbökk o.s.frv. sem skipta raunverulega engu máli þegar myndin er búin. Einnig eru leikararnir sem fara með þessi óspennandi hlutverk alveg ofsalega lélegir og zikk-zakka á milli þess að ofleika hræðilega eða láta eins og mýs. Það versta við þetta allt saman er þó að kvikmyndagerðarmennirnir gera aldrei neitt spennandi úr þessum prýðisgóða söguþræði. Persónurnar sjá aldrei neitt dularfullt eða ógnvekjandi á spólunum en í staðin sjá þau lítil börn sem ganga hallærislega afturábak. Reyndar eru allar tilraunir til að vekja einhvern hroll frekar misheppnaðar og er Berlinger ekki efni í hrollvekjuleikstjóra, þ.e. ekki fyrir fiction myndir. Myndin má þó eiga það að vera ekki þessi týpíska bregðumynd, þó að bregðuatriði séu til staðar. Ólíkt hinni hörmulegu Urban Legends 2 reynir Berlinger a.m.k. að byggja upp einhverja spennu áður en hann lætur fólk hoppa inn í ramma. Þrátt fyrir alla þessa galla er hægt að hafa ágætt gaman af Blair Witch 2 í svona 40-50 mínútur, sérstaklega vegna þess að margar skemmtilegar hugmyndir eru á vappi og ýmislegt sem gerir það að verkum að maður þarf að sjá myndina oftar en einu sinni til að fatta allt saman. Gallinn er sá að myndin er ekki nógu áhugaverð né skemmtileg til þess að fólk eigi eftir að vilja sjá hana aftur, hversu djúpt sem Berlinger kafar niður. Seinni helmingur myndarinnar er hinsvegar bara hallærislegur. Þó endalokin hafi örugglega litið vel út á blaði, og ég er viss um það að Berlinger hafi verið ofsalega sannfærandi þegar hann útskýrði allt sem var í gangi fyrir ráðvilltum framleiðendunum, tekst honum alls ekki að færa "mysteríuna" yfir á skjáinn svo að vel takist heldur sér maður aðeins meininguna og það sem hann ætlaði sér en aldrei verður neitt úr því. Ég gef myndinni þó samt plús fyrir að fara ekki Hollywood-leiðina í endanum og má hún eiga það að vera frekar ófyrirsjáanleg, en þetta er ekkert meira en B-mynd og hún lítur jafnvel enn verr út þegar hugsað er út í vinsældir og gæði forverans. Þegar allt kemur til alls er Book of Shadows (sammála Ásgeiri: hvaða bók???) ekki mjög slæm mynd, en ég stend ennþá á því að hún hefði aldrei átt að vera gerð.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Fantasia 2000
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það er ekki hægt að gagnrýna Fantasiu 2000 á sama hátt og aðrar myndir þar sem hún er óhefðbundin kvikmynd. Hún er samsett af sjö tónverkum sem teiknararnir hjá Disney hafa búið til misflottar og skemmtilegar myndir eftir. Vandinn við mynd eins og þessa er sá að hver einstakur þáttur stendur eða fellur eftir því hvernig áhorfandanum finnst lögin eða teikningarnar, en Fantasia þarf ekki að hafa neinar áhyggjur þar sem engin þáttur er beint leiðinlegur. En margir eru gallaðir; t.d. sá fyrsti og svo þessi með fljúgandi hvölunum - ofsalega flott en allt of fríkað og skrítið. Rapsody in Blue eftir Gerswhin er flottasta verkið og inniheldur skemmtilegustu teikningarnar. Helsta vandamál Fantasiu er það að hún er allt of stutt, aðeins 75 mínútur, svo að þegar hún er búin þá finnst manni eitthvað vanta. En skemmtunin er til staðar og ég sá að minnsta kosti ekki eftir peningunum, ég bara vildi að ég hefði fengið aðeins meira fyrir þá...
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Lost Souls
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Mikið ofsalega er þessi tegund kvikmynda orðin þreytt. Ef þið viljið sjá góða djöflamynd þá ættuð þið að sjá The Exorcist eða Rosemary's Baby, en alls ekki þennan viðbjóð. Ég verð að viðurkenna að ég bjóst við góðu þar sem mér finnst samsetning Winonu Ryder, Janusz Kaminski og John Hurt hljóma frábærlega. Ryder stendur sig vel, Kaminski ætti að halda sig við myndatöku og Hurt gerir lítið sem ekkert í þeim þremur atriðum sem hann sést í, mjög líkt handritinu sem gerir ofsalega lítið merkilegt. Það er ekki einn einasti hápunktur í myndinni og ekki neitt sem bendir til þess að eitthvert atriði hafi átt að vera hápunktur. Þrátt fyrir þetta tekst Kaminski að filma nokkur flott atriði, en engin þeirra eru hrollvekjandi eða spennandi. Jú, reyndar tókst honum að gera mig spenntan í einu atriði en í lok þess var það orðið svo hlægilegt að það missti öll áhrif. Þessi mynd á sér langa og leiðinlega sögu; hún var gerð fyrir löngu og átti að koma út í fyrra en einhverra hluta vegna kemur hún út núna og ég skil það vel afhverju New Line vildi ekki senda þennan ruslviðbjóðsskít frá sér á sama tíma og Blair Witch Project og The Sixth Sense. Það hefði verið hlegið að henni, einmitt það sem hún á skilið. Hún lítur einnig út fyrir að hafa verið klippt í tætlur; allur síðasti hálftíminn er laus við allt samhengi og allt gerist of hratt svo að áhorfandinn fær ekkert tækifæri til að hugsa. Annars er alls ekkert í þessari mynd þess virði að hugsa mikið um, hún er bara léleg.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Urban Legends: Final Cut
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég veit ekki hvar ég á að byrja með að úthúða þessari hryllilegu mynd. Ég gæti náttúrulega byrjað á því að tala um forvera myndarinnar, Urban Legend, sem var svo léleg að það að gera þessa framhaldsmynd er eiginlega glæpur í sjálfu sér. Svo gæti ég líka talað um það hvernig John Ottman stelur, bæði sem leikstjóri og tónskáld, úr of mörgum myndum. Hér var hægt að sjá brot úr t.d. Silence of the Lambs, Se7en, Twin Peaks (!) og jafnvel Alien. Sem tónskáld þá stælaði Ottman Jerry Goldsmith svo mikið að mér leið illa: tónlist Goldsmith úr Alien, Poltergeist og Basic Instinct var í mörgum atriðum og svo mátti líka heyra Howard Shore takta, kannski til að reyna að gefa myndinni smá elegant-stíl. Það tókst ekki. Eins og í fyrri myndinni er leikhópurinn samsettur af óþekktum leikurum sem munu líklegast haldast óþekkir um óákveðna framtíð. Persónurnar sem þessir "leikarar" "leika" eru enn verri, heimskar, vitlausar og tilfinningalausar og ég efast um það að einhver geti munað eftir því hvað þær hétu. Ef við ætlum að tala um persónur þá verðum við að fara eitthvað í handritið. Handritið að þessari mynd hefur líklegast heitið á einhverju stigi "Spot the references!" þar sem það eina sem það reynir að gera gáfulegt er einhver gamall, leiðinlegur og lélegur (a.m.k. í þessari mynd) sjálfsvísunarhúmor. Myndin sjálf gengur út á það að kvikmyndanemar eru drepnir af óþekktum morðingja með skylmingargrímu sem klæðist leðurfrakka. Mjög scary. Flestir deyja, allir eru grunaðir en aðeins ein manneskja er morðinginn og þó það sé kannski persóna sem maður býst alls ekki við þá er afhjúpunin alveg hræðileg. En talandi um eitthvað hræðilegt, leikstjórn John Ottman. Þessi maður getur svo sannarlega samið tónlist (Usual Suspects o.fl.) en hann er gjörsamlega hæfileikalaus þegar kemur að leikstjórn. Spennan sem hann reynir að búa til byggir ekki lengur á óttanum við hvor e-r eigi eftir að deyja eða ekki vegna þess að við vitum hver á eftir að deyja og hvenær, það er svo augljóst í þessari mynd. Nei, við erum spennt yfir því hvenær Ottman hendir á okkur öðru bregðuatriði, og þó honum takist að bregða manni nokkrum sinnum á alls ekki að byggja upp spennu svona. Sérstaklega þar sem hann er greinilega að reyna að búa til einhvern Hitchcock-fílíng en gleymir því að Hitchcock var aldrei svo ófrumlegur að nota bregðuatriði í sífellu til að hræða bíógesti. Ég ætla ekki einu sinni að byrja að tala um lélegan leikinn, ömurlegt handritið - og þá tvíburabróðurinn - eða ófrumlega dauðdaga, ég held að flestir átti sig á því að þetta er mynd sem ekki á að sjá.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Exorcist
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

The Exorcist er fyrir löngu orðin klassísk og þarf ég varla að útskýra hvers vegna, enda ætla ég ekki að gera það. Við skulum láta það nægja sem gagnrýni að segja að The Exorcist sé ein besta hrollvekja sem gerð hefur verið. Director's Cut útgáfan (rangt titluð þar sem allar breytingarnar voru gerðar vegna fyrir Blatty en ekki Friedkin) er alls ekki síðri (nema kannski endirinn) og bætir ýmsu góðu við annars frábæra mynd. En eitt var það sem kom mér á óvart. Kannski hef ég ekki verið að fylgjast vel með en síðast þegar ég vissi var The Exorcist ekki grínmynd. Hún er það greinilega núna ef marka má viðbrögð áhorfenda á sýningunni sem ég var á. Ég var búinn að heyra frá því að áhorfendur í Bandaríkjunum sýndu myndinni sömu óvirðingu og verð ég bara að spyrja: Af hverju? Hvað var svona fyndið. Sama hvað ég reyndi gat ég ómögulega fundið einhvern vott af húmor í atriðum eins og t.d. "The power of Christ compels you!" ræðunni, eða nýja "Spiderwalk" atriðinu. Eða er þetta kannski ný tegund slapstick húmors? Tveir menn standa í dimmu herbergi og gusa vígðu vatni yfir andsetna stúlku, öskrandi sömu setninguna aftur og aftur og myndavélin er föst á sama stað... Þessi Friedkin er alveg frábær þegar kemur að svona húmorsríkum set-upum. Hvað er þetta með, ég dirfist segja, unga fólkið á Íslandi? Er það orðið svona cool að hlæja að klassískum hrollvekjum? Það yrði gaman ef The Shining yrði sýnd aftur. Eða The Haunting frá 1963. Hvað þá Psycho, grínmynd aldarinnar. Sannkölluð gamanveisla fyrir unga fólkið. Filmundur ætti kannski að sýna fordæmi og kalla Hryllingsvikuna sýna Grínviku, þetta eru hvort eð er allt grínmyndir upp til hópa, er það ekki? Texas Chain Saw Massacre (hahahaha!), The Night of the Living Dead (híhíhíhí!). GROW UP!!!! Ef þið eruð að leita að hryllingsmyndum sem eru líka grínmyndir þá mæli ég með Evil Dead myndunum, Scream, öllum Peter Jackson splatter-myndunum (+ The Frighteners), eða kannski bara Urban Legend (hún á það a.m.k. skilið að hlegið sé að sér). En The Exorcist?! Ég skil það bara ekki! Eftir að fólk byrjaði að hlæja á þessari stórkostlegu mynd leið mér illa fyrir hönd þjóðarinnar. Ég hélt að mér gæti ekki liðið verr þegar hléið skall á og verð ég bara að nota tækifærið og lýsa því yfir að hlé, þetta illgjarna tæki djöfulsins, er eitt það tilgangslausasta fyrirbæri sem hugsast getur. Hverjum datt í hug að setja hlé inn í myndir? Ekki voru það leikstjórarnir, nema þeir hafi skyndilega ákveðið að eyðileggja sköpunarverk sín. Hlé skemma. Hættið með hlé, bíó! HÆTTIÐ! Háskólabíó sýnir a.m.k. kvikmyndaáhugamönnum þá virðingu að hafa einn hlélausan sýningartíma, en hin kvikmyndahúsin fara með okkur eins og --insert a word much used by Harry Knowles here--! Þetta gengur ekki lengur. Ég fékk ógeð á Íslandi og íbúum þess eftir að hafa gengið í gegnum þolraunina sem var að horfa á The Exorcist með áhorfendum. Ég vona að þetta gerist ekki aftur, en það er óskhyggja og því hvet ég alla alvöru kvikmyndaáhugamenn að flytja einhvert til útlanda. Takk fyrir.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Dancer in the Dark
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það er erfitt að skrifa um Dancer in the Dark vegna þess að engin orð geta lýst því hvernig hún er. Ef þið sáuð Breaking the Waves (eða einhverja aðra Lars von Trier mynd) á hrár, frumlegur stíll Triers ekki eftir að koma ykkur á óvart en það skal tekið fram að undirritaður þurfti smá aðlögunartíma á meðan Dancer in the Dark var í gangi. Svona u.þ.b. 5 mínútur. Mér fannst þessi mynd vera snilldarleg frá fyrsta ramma til þess síðasta og aldrei hef ég komist svo nálægt því að gráta yfir kvikmynd og í kvöld. Fólk getur kallað þessa mynd "tilfinninga-bruðlara" o.s.frv. en það getur ekki sagt neitt sem fær mig til að skipta um skoðun. Dancer in the Dark er besta mynd sem ég hef séð síðan American Beauty. Mikið hefur verið talað um frammistöðu Bjarkar okkar Guðmundsdóttur og ætla ég hér að setja fram fullyrðingu: Björk er fullkomin í þessari mynd. Ég man hvað mér fannst það fyndið þegar ég las að Björk lék ekki heldur "fann" fyrir hlutverkinu, en það er eiginlega ekki hægt að lýsa því öðruvísi. Mesti leiksigur sem ég hef áður séð var leikur Lily Taylor í mynd Abel Ferrara "The Addiction" en Björk kemst mjög nálægt því að toppa hana. Það sem að mínu mati var skemmtilegast við alla myndina var hvernig hún náði að gera, og það fullkomlega eðlilega, dans-og söngvamynd úr þessari ofur-tragísku sögu. Það er ekki hægt að setja Dancer in the Dark í neinn myndategundaflokk vegna þess að hún er svo mikil blanda af öllu mögulegu. Þessi mynd er alveg einstök. Ég get ekki sagt meir því að svo margt er hægt að segja (of margt, eiginlega) en enda þetta með því að (warning: klisja) hvetja alla til að sjá þetta listaverk.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Nurse Betty
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Nurse Betty var alveg ofsalega la-la eitthvað, sem er skrítið vegna þess að ég hafði heyrt svo mikið gott um hana - jafnvel voru einhverjir að tala um óskarinn og svoleiðis, en jafnvel hálfvitarnir í þeirri akademíu ættu að geta séð að Nurse Betty er lítið annað en góð hugmynd í lélegri útfærslu. Mér finnst það alltaf leiðinlegt þegar góðum leikhóp er rústað: Morgan Freeman er alltaf góður og bregst manni ekki í þessari mynd, Renée Zellweger sýnir okkur að það að leika í Texas Chainsaw Massacre 4: The Next Generation voru bara byrjendamistök (þeir gátu ekki einu sinni notað réttan titil úr fyrstu myndinni...). Chris Rock, þrátt fyrir mótmæli vinar míns, er alls ekki slæmur í sínu hlutverki þó það sé tailor-made fyrir stereótýpuna hans, fyndna gaurinn með one-linerana. Greg Kinnear er fínn líka en gerir svo sem ekkert sérstakt. Allt eru þetta frábærir leikarar sem fá ekkert annað að gera en að ganga í gegnum mynd sem á í verulegum vandræðum við að ákveða sig hvað hún er: Grínmynd, drama, spenna? Allt? Overall-tónninn og auglýsingarnar segja okkur að hún sé grínmynd, en hún virkar ekki sem slík. Gallinn við Nurse Betty er hversu ótrúlega brokkgeng hún er. Stundum (of sjaldan) er hún frábærlega fyndin, á milli er hún ótrúlega leiðinleg. Sagan er ekki einu sinni ný (John Candy gerði svipaða mynd sem heitir Delirious og ef þið viljið sápuóperumyndir þá má mæla með Tootsie eða Soapdish, allar eru fyndnari en Nurse Betty (já, líka Delirious)). Aðdáendur myndarinnar munu líklegast verja hana með því að segja hversu frumlegt handritið hafi verið, hversu sagan sjálf hafi verið lík sápuóperu og verið þannig einhvert tilbrigði við film-within-a-film ídealógíuna, en þegar upp er staðið er alls ekki hægt að mæla með grínmynd sem er ekki fyndin. Þess vegna mæli ég ekki með Nurse Betty.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Chicken Run
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Eins og með hina dásamlegu Toy Story 2 þá er aðeins hægt að lýsa Chicken Run með orðinu "skemmtileg", því að er nákvæmlega það sem hún er. Hvernig getur mynd um breska kjúklinga sem reyna að flýja brjálaða, peningagráðuga konu verið leiðinleg? Sérstaklega þegar hún er gerð af sama fólkinu og gerði Wallace & Gromit? Og að hugsa sér hversu ótrúlega erfitt það hlýtur að hafa verið að gera þessa mynd - ég veit ekki hvað þessi mynd var lengi í framleiðslu en The Nightmare Before Christmas, fyrsta leirmyndin í fullri lengd, var meira en tvö ár í gerð. Það þarf mikla þolinmæði í að gera svona myndir. Mel Gibson stendur sig vel sem Rocky, Julia Sawalha er góð sem Ginger en það voru Jane Horrocks og Miranda Richardson sem komu skemmtilegast á óvart - þá sérstaklega Horrocks en hún fékk mann til að hlæja í hvert einasta skipti sem persóna hennar sást á tjaldinu. Það er ekki mikið meira að segja annað en að Chicken Run er hin besta skemmtun (fyrir alla fjölskylduna, hvorki meira né minna) og ættu sem flestir að sjá hana!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Frighteners
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ef það er einn kvikmyndagerðarmaður sem kann að skemmta áhorfendum þá er það Peter Jackson. Með óvenju flottum stíl sínum og brjálaðri myndatöku tekst Jackson að skapa... hvað skal segja... elegant hryllingsmyndir sem í öðrum höndum hefðu verið lítið meira en ódýr splatter. The Frighteners er kannski ekki eins blóðug og fyrri myndir Jacksons (Braindead, Bad Taste) en þegar hann vill óhugnað þá sýnir hann okkur óhugnað. Leikurinn er góður hjá öllum leikurum, sviðsmyndirnar í takt við myndatökuna og handritið óvenju gott og skemmtilegt miðað við genre-inn. The Frighteners er ein af þessum myndum sem maður bara verður að sjá. Og eignast.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Cell
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Tarsem hefði kannski átt að nota slagorð sitt úr Superga Challenge auglýsingunum fyrir frumraun sína, The Cell: "Love it or hate it". Það er nákvæmlega það sem gagnrýnendur og áhorfendur upp til hópa hafa verið að gera. Þessi mynd hefur verið mjög umdeild, þá sérstaklega á netinu þar sem tveir alræmdustu gagnrýndur Bandaríkjanna, Roger Ebert og Harry Knowles, voru algjörlega óssammála um myndina. Ebert gaf henni sína bestu einkunn og kallaði hana eina af bestu myndum ársins á meðan Knowles notaði eins mörg orð yfir "skít" og hann mögulega gat til að lýsa myndinni. Þeir voru þó báðir sammála um sjónrænt gildi myndarinnar: hún er óeðlilega flott. Ég verð að vera sammála Ebert í þessu máli vegna þess að mér fannst hver einasti rammi í The Cell vera meistaraverk. The Cell er ein af þessum fáu myndum sem koma stundum út í Hollywood; listrænar og alls ekki "mainstream" en samt gerðar af stóru fyrirtæki fyrir umtalsverðan pening. Þegar svona myndir eru gerðar á að fagna þeim, ekki að úthúða þeim, við sjáum þær ekki mjög oft. Hvert atriði myndarinnar var spennandi og áhugavert og myndin hélt mér í heljargreipum þar til á síðustu stundu. Auk þess að vera listaverk og spennutryllir er The Cell einnig verulega óhugnaleg og ógeðsleg (hún er MJÖG blóðug á köflum) en verst eru þó atriðin þar sem við sjáum lítið en heyrum mikið - manni líður verulega illa. Það er lítið hægt að setja út á handritið en það besta við myndina er tilkoma snillingsins Tarsem Singh - þessi maður er ótrúlegur. Atriðin sem gerast í hugarheimi morðingjans eru svo ótrúlega vel gerð og falleg í ljótleika sínum að erfitt er að hrífast ekki með. En þessi mynd fellur alls ekki undan þunga fegurðar sínar eins og svo margar aðrar gera; hún er kannski style-over-substance, en til staðar er alveg nógu mikið substance til að halda hvaða mynd sem er á floti. The Cell er algjört listaverk, mynd sem fólk á eftir að rífast um lengi en á endanum á hún eftir að verða cult-klassík og á hún það skilið. Jennifer Lopez er frábær sem Catherine Deane, konan sem fer inn í huga morðingjans, Vince Vaughn er einnig góður sem Peter Novak, lögreglan sem leitar að síðasta fórnarlambi morðingjans, en Vincent D'Onofrio er alveg magnaður sem geðsjúki morðinginn og stendur hann sig vel í öllum gervum persónunnar. Tæknibrellur, sviðsmyndir og búningar gefa myndinni sérstakan blæ, alveg eins og einstök kvikmyndatakan - takið eftir einu atriði þar sem myndavélin virðist flæða áfram í átt að Catherine og Peter - algjör snilld. Ég vil segja svo miklu meira en ég vil heldur ekki eyðileggja fyrir þeim sem ekki hafa séð svo ég klára þetta með því að segja að The Cell er ein af langbestu myndum ársins.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Hollow Man
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég hef lengi verið aðdáandi Paul Verhoeven og er alltaf að verja hann þegar fólk talar illa um hann. Það verður þó að segjast miðað við síðustu tvær myndir hans (fyrir H.M.), þær Showgirls og Starship Troopers, að hann eigi það skilið. Verhoeven byrjaði feril sinn í Bandaríkjunum með súper-ofbeldisfullu háðsádeilunni RoboCop og fylgdi henni eftir með með súper-ofbeldisfullu háðsádeilunni Total Recall. Svo gerði hann hina eilíflega-umdeildu Basic Instinct sem hafði fullt af ofbeldi en í stað háðsádeilunnar var komið kynlíf og tonnatali. Ég er elska allar þessar myndir en get ekki sagt það sama um næstu tvær. Showgirls var hræðileg mynd og mun ég ekki tala meira um hana, en Starship Troopers var ofsalega misjöfn. Mér fannst (og finnst) hún skemmtileg en hún átti að vera, eins og fyrstu tvær Bandarísku Verhoevens, háðsádeila. Það virtist bara eins og ekki allir hafi vitað það (þ.m.t. Verhoeven sjálfur) og varð útkoman rosalega flott og skemmtileg vísindaskáldsaga sem þjáðist af því vandamáli að taka sig annaðhvort of alvarlega eða ekki nógu alvarlega. Í Hollow Man er það greinilegt að Verhoeven hefur ákveðið sig hvað hann ætlar að gera: spennutrylli - sem tekur sig alvarlega. Handrit myndarinnar er það einfalt að sú ákvörðun að taka sig alvarlega hefði getað orðið hræðileg í öðrum höndum, en Verhoeven er slíkur snillingur með myndavélina og tæknina að hann býr aldrei til neitt svigrúm fyrir okkur til að byrja að gagnrýna á fullu - ekki fyrr en í lokin, en þá hefur maður skemmt sér svo vel að maður einfaldlega nennir ekki að hugsa út í vondu partana. Ef maður myndi á annað borð gera það kæmi það líklegast í ljós að Hollow Man er einungis miðlungsmynd sem er tæknilega fullkomin (og trúið mér - hún er FULLKOMIN þegar kemur að brellunum) en lítið annað en það. Shue og Bacon eru fín í hlutverkum sínum á meðan aðrir fá litlar og sviplausar rullur. Það er greinilegt að margt hefur verið klippt, þ.á m. hið svokallaða "nauðgunaratriði" sem er rétt svo vísað í, og verður gaman að sjá óklipptu útgáfuna sem ég ætla rétt að vona að komi út. Hægt er að koma með lélega brandara eins og að "Hollow Man er hol" o.fl. en ég skemmti mér konunglega og er nokkuð viss um að flestir bíógestir eigi ekki eftir að sjá eftir 700 kallinum.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
What Lies Beneath
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það er mjög langt síðan ég hef séð svona frábæra hrollvekju! Ég sá forsýningu á What Lies Beneath, salurinn var troðfullur. Eins og alltaf þá voru einhverjir "fyndnir" hálfvitar að fíflast svolítið og fólk talaði saman ásamt því að slökkva ekki á gsm-símunum sínum. Eftir u.þ.b. hálftíma var algjör þögn í salnum og hélst sú þögn út alla myndina - þ.e. þegar fólk var ekki að öskra hástöfum. Athugið einnig að fólk á öllum aldri var viðstatt sýninguna. Þessi mynd náði tökum á öllum. Robert Zemeckis hefur hér gert ótrúlega flottan og vel gerðan þriller í anda Hitchcock (með tilheyrandi Herrmannískri tónlist eftir Alan Silvestri) sem er sannkölluð rússíbanareið af spennu, dulúð og ótrúlegum uppákomum. Svona á bíó að vera! Nú þegar sumarið er senn á enda verður það bara að segjast að það voru fáar - ef einhverjar - verulega góðar myndir sýndar á þessum þremur mánuðum sem yfirleitt færa okkur a.m.k. 2-3 skemmtilega smelli. Það er kannski of seint fyrir What Lies Beneath að kalla sig sumarmynd hér á landi, en hún var það í Bandaríkjunum og er hún án efa besta sumarmyndin til þessa. (Munið að við eigum samt eftir að sjá Chicken Run og The Cell, sem báðar verða alveg örugglega brilliant!). Myndin segir frá hjónakornunum Claire og Norman Spencer sem virðast eiga fullkomið líf. Eftir að dóttir þeirra fer að heiman byrjar Claire að heyra og sjá ýmislegt óhugnalegt í nýja húsinu sínu og þegar hún reynir að komast að því hvað er að gerast kemst hún að leyndarmálum sem eru svo flókin að það tæki of langan tíma að telja þau upp hér. Michelle Pfeiffer er frábær og Harrison Ford góður í mun minna, en alveg jafn mikilvægu hlutverki. En það er Zemeckis sem er stjarna verksins þar sem hann leikur sér með myndavélina, handritið og óteljandi villandi vísbendingar og hefur greinilega ofsalega gaman af því að leika sitt hlutverk, þ.e. Alfred Hitchcock, þar sem hann treður inn í myndina fullt af tilvísunum í myndir meistarans. Það er ekki hægt að kalla What Lies Beneath neitt snilldarverk (t.d eru 20 mínúturnar fyrir lokaatriðið ofsalega langdregnar) en hún skemmtir svo frábærlega vel á meðan hún er í gangi að það er erfitt að hrífast ekki með. Hún inniheldur líka eitt atriði þar sem mér brá svo mikið að ég hélt ég fengi hjartaáfall; reyndar er hægt að segja að allur lokahluti myndarinnar sé stanslaus spenna út í eitt! Zemeckis er bara svo mikill snillingur þegar kemur að tæknilegu hliðinni að allir gallar handritsins verða ósýnilegir og aðalleikararnir tveir hafa nógu mikla persónutöfra til að halda hverri manneskju við skjáinn í tvo klukkutíma. Ég viðurkenni það fúslega að What Lies Beneath á alls ekki skilið fjórar stjörnur; þrjár eða þrjár og hálf eiga betur við, en ég hef bara ekki upplifað aðra eins adrenalínkeyrlsu síðan ég sá The Matrix! Þið bara verðið að sjá What Lies Beneath!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
X-Men
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég hef beðið spenntur eftir X-Men í svolítinn tíma og þykir mér því leitt að segja að hún sé alls ekkert sérstök. Mér finnst jafnvel enn leiðinlegra að segja það vegna þess að það er svo margt gott við hana, en það hefði flest allt getað verið betra. Myndin sjálf er týpísk myndasögumynd; hópur af stökkbreyttum hetjum berst við annan hóp af stökkbreyttum illmennum sem hafa skapað dómsdagsvél sem mun drepa svo-og-svo marga. Forsprakki góðu kallanna er viturt gamalmenni sem ælir út úr sér visku og gáfulegum setningum og aðal góði kallinn er óheflaður ungur maður sem er illa við að láta stjórna sér. Svona alvöru tough-guy. Forsprakki vondu kallanna er gamall vinur hins forsprakkans og ætlar að hefna sína á heiminum vegna einhvers ómerkilegs. Honum fylgja dyggir fylgismenn sem hika ekki við að drepa. Við vitum það flest að klipptar voru um 40 mínútur af myndinni til þess að halda tempói en það kemur illa út fyrir persónur myndarinnar. Og þegar persónur koma illa út í mynd sem gerir út á persónurnar og hæfileika þeirra er ekki annað hægt að segja en að kvikmyndagerðamönnunum hafi brugðist bogalistin; X-Men er misheppnuð. En ekki taka þessi orð of alvarlega. Þegar ég segi misheppnuð þá meina ég aðeins að það sem hefði mögulega getað verið frábær mynd varð aðeins sæmileg mynd. Myndin er samt sem áður ekki mjög misheppnuð, það eru góð atriði, flottar brellur og ýmislegt annað gott við hana, en mér fannst eitthvað vanta og mér leið eins og ég hefði bara séð 34 af heilli mynd. Það bara vantaði eitthvað. Bryan Singer stendur sig með ágætum sem leikstjóri en það verður bara að setja út á það hversu grófur hann var í klippiherberginu. Persónurnar í þessari mynd eru mjög áhugaverðar og gaman að fylgjast með þeim leika sínar listir en mér finnst eins og Singer hafi verið nokk sama um, hvað skal segja, tilgang persónanna; þrátt fyrir að við vitum alltaf hvaða karakterar eru vondir og góðir fannst mér að Singer væri eiginlega alveg sama og vildi bara sýna okkur hvað þeir gætu gert. T.d. í einu atriði er Wolverine að berjast við Mystique og ég vonaði það innilega að Mystique myndi vinna bardagann - bara vegna þess að Mystique er flott persóna með flottan líkama. Mér var alveg drullusama um Wolverine, sem á samt sem áður að vera aðalpersónan og hetja myndarinnar. Mér var í raun og veru sama um allar persónurnar nema Rogue. Rogue er eina stökkbrigðið sem við finnum til með vegna þess að kraftar hennar vinna á móti henni. Hún á aldrei eftir að geta snert annað fólk og við vorkennum henni þess vegna. Ekki sakar það að Anna Paquin leikur Rogue og gerir það mjög vel. Mér finnst það líka stór galli að vonda fólkið er alls ekkert vont. Magneto, aðalvondikallinn, gerir aldrei neitt sem sýnir hreina illsku. Hann veit ekki einu sinni að dómsdagsvélin hans muni drepa fólk. Magneto sér heldur ekki um drápin, það er starf þeirra Sabretooth, Toad og Mystique. Þið vitið hvað mér finnst um Mystique en ég get ekki sagt hið sama um Toad og Sabretooth. Þessir kallar voru svo ómerkilegir að ég trúði því aldrei að þeir gætu ollið neinum verulegum skaða, enda gera þeir það ekki. Þeir drepa einn og einn öryggisvörð en þeir ógnuðu aldrei X-mönnunum það mikið að maður var hræddur um framtíð þeirra. Stærsti gallinn við X-Men er kannski sá að myndin er full af áhugaverðum persónum sem við fáum aldrei að vita neitt um og þegar við vitum lítið um bæði hetjurnar og óvinina þá er okkur meira og minna sama um afdrif þeirra. Það eru fleiri gallar við X-Men; tiltölulega leiðinleg sagan, ömurlega léleg tónlist eftir Michael Kamen sem hefði átt að kynna sér John Williams (Superman) eða Danny Elfman (Batman), og svo allur tómleikinn sem fylgir þessu öllu saman. Ef ég ætti að bera þessa mynd saman við aðrar ofurhetju myndir lendir hún neðarlega á listanum. Batman er betri, svo og Batman Returns og Blade. Ég mynd setja X-Men aðeins ofar en Batman Forever, en alls ekki lengra. Þegar allt kemur til alls er X-Men skemmtileg mynd en tóm, full af loforðum sem hún efnir ekki.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Scary Movie
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ein athugasemd til þeirra sem gagnrýnt hafa hér að ofan: Scary Movie er EKKI svona góð! Scary Movie ætlar sér að gera grín að unglingahryllingsmyndum en aðeins tvær þeirra verða fyrir einhverju áreiti; Scream og I Know What You Did Last Summer. Þetta er svolítið skondið vegna þess að Scream var sjálf að gera grín að unglingahryllingsmyndum og var ekki bara miklu fyndnari heldur líka miklu betri en Scary Movie. Eitt fannst mér líka pirrandi og var það hvernig Scary Movie reyndi ekki einu sinni að koma með einhvern frumlegan söguþráð heldur stal ALJGÖRLEGA sögunni úr Scream, alveg niður í nákvæmar eftirlíkingar af samtölunum. Kannski átti þetta að vera brandari til að sýna fram á það hversu líkar allar þessar myndir eru, en Keenen Ivory Wayans gerir aldrei neina tilraun til að sýna fram á það. Ég held frekar að engum hafi dottið neitt betra í hug og valið það frekar að stela bara undir fölsku yfirskini. Ekki eru það einungis unglingahrollvekjur sem fá að "kenna á því" í Scary Movie, heldur einnig gæðamyndirnar The Matrix og The Usual Suspects. Ekki veit ég hverjum datt í hug að gera grín að þeim en það bætir ofsalega lítið heildarmyndina og eru brandararnir umhverfis þær augljósir og lélegir; alveg örugglega hugmyndir fengnar á síðustu stundu. Blair Witch Project og The Sixth Sense fá einnig báðar lélega brandara. Samt sem áður er ýmislegt gott við Scary Movie, þá sérstaklega 3-4 frábærir brandarar. En á eftir hverjum góðum brandara er áhorfendinn móðgaður með alveg fáránlega lélegum bröndurum sem, eins og í Me, Myself & Irene, virðast eiga sér engan annan tilgang en að vera eins ógeðfelldir og hægt er. Eftir There's Something About Mary og American Pie er fólk orðið vant þessum "gross-out" bröndurum og hlær lítið að þeim, sérstaklega þegar þeir eiga alls ekki við. Mér fannst Scary Movie alls ekki leiðinleg, en hún fór oft á tíð ótrúlega mikið í taugarnar á mér og þar sem mér fannst hún oft vera að móðga frekar en gera grín að þá get ég ekki gefið henni meira en eina og hálfa stjörnu. Það er einfaldlega ekki hægt að vera vægari við grínmynd sem inniheldur fáa góða brandara (sem, by the way, eru ALLIR í trailernum) en ógrynni af lélegum. Ef þið viljið sjá gert gott grín að unglingahrollvekjum sjáið þá frekar hina frábæru Scream. Ef þið eru verulega desperate þá getið þið líka alltaf horft á Urban Legend en það er alltaf hægt að hlæja að henni.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Patriot
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég bjóst ekki við miklu þegar ég fór að sjá The Patriot. Henni er leikstýrt af Roland Emmerich sem hefur áður fært okkur svefnpillurnar Godzilla og ID4 (þ.e. nokkrir partar af ID4) og mér hefur alltaf fundist þessar amerísku fánamyndir vera frekar leiðinlegar. En það kom mér skemmtilega á óvart að sjá það að Emmerich hefur bætt sig svo um munar og, þrátt fyrir að vera fánamynd út í eitt, var The Patriot alls ekki leiðinleg. Mel Gibson heldur augum okkar á tjaldinu frá byrjun og út í enda með alveg frábærum leik (hvenær hefur þessi maður ekki leikið vel?) en það er skömm af því að sjá hversu lélegir allir aðrir eru. Heath Ledger nær aldrei að sannfæra mann og sú annars frábæra leikkona Joely Richardson ætti að halda sig við breska hreiminn sinn vegna þess að sá bandaríski er með eindæmum ósannfærandi. Jason Isaacs stendur sig hins vegar með prýði sem illmennið (eitt illgjarnasta illmenni fyrr og síðar) en því miður er persónan hans svo lafþunn og klisjukennd að maður getur aldrei notið leiks hans til fullnustu. Það er eiginlega handritið sem á skilið öll fúkyrðin en það verður óeðlilega heimskulegt á pörtum. Mér fannst einnig leikstjórn Emmerichs vera einum of tilgerðarlega á pörtum (breska veislan, til dæmis) og er það augljóst að sviðsmyndirnar og kvikmyndatakan eiga margt, kannski of margt, sameiginlegt með listaverki Tim Burtons, Sleepy Hollow. The Patriot er löng mynd og maður finnur fyrir lengdinni en hún er aldrei beint langdregin. Bardagasenurnar eru mjög vel gerðar og flottar og fær Emmerich prik fyrir að hafa skapað verulega spennu í nokkrum atriðum. En það er því miður lítið annað hér til að sjá.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Perfect Storm
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Að mínu mati er The Perfect Storm ein heild byggð á tveimur helmingum; klukkutímalangri byrjun sem er án efa ein sú leiðinlegasta og væmnasta sem sést hefur lengi og svo restin sem er með því flottasta sem sést hefur í sumar. Glöggir vita það kannski að ég gaf X-Men aðeins tvær stjörnur, eingöngu vegna vonbrigðanna sem ég varð fyrir. Þó að The Perfect Storm fái hálfri stjörnu meira finnst mér X-Men samt sem áður vera fremri henni. Í X-Men var aldrei ein mínúta sem tapaðist vegna ófyrirgefanlega væmnum atriðum, hasarinn var stöðugur, skemmtanagildið sífellt. Vonbrigðin samt sem áður mikil vegna yfirgnæfandi tómleika. The Perfect Storm er æðri að því leyti að þegar henni tekst vel upp þá tekst henni frábærlega vel upp og er alls ekki tómleg. Í rúmlega klukkutíma var ég á nálum; frábærar brellur og góð stjórn á hraða, þökk sé Wolfgang Petersen, héldu mér í heljargreipum en myndin var því miður áður búin að drekkja sér (no pun intended) í yfirgengilegri væmni. Þó myndin nái að toga sig upp á yfirborðið í seinni helmingnum bjargar hún sér aldrei algjörlega og er ég fullviss um það að hefði hún verið klippt um svona hálftíma væri hér á ferðinni einstök mynd. Mér fannst samt tilfinningasemin (ekki væmnin) í lok myndarinnar eiga vel við en í byrjuninni, þegar við vitum of lítið til að vera sama um nokkuð, var það tilgangslaust og leiðinlegt. George Clooney stendur sig ágætlega sem skipstjóri bátsins en ég verð bara að lýsa hér með yfir algjöri andúð minni á hinum einstaklega hæfileikalausa Mark Whalberg. Guð minn almáttugur! Í hvert skipti sem hann sást varð mér flökurt og þegar hann byrjar að tala... ja, þið eigið eftir að verða veik af einhverju öðru en sjónum. Ég skil það ekki hvernig Tim Burton fékk það af sér að ráða þennan ömurlega "leikara" í Planet of the Apes endurgerðina sína. Whalberg getur ekki leikið og er hin frábæra Boogie Nights undantekningin sem sannar regluna. Mary Elizabeth Mastrantonio var einnig góð, eins og alltaf. Góð skemmtun, en of gölluð til að hægt sé að fyrirgefa henni algjörlega.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Me, Myself and Irene
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Me, Myself & Irene er mjög gölluð og misheppnuð grínmynd. Eins og í There's Something About Mary er gert grín sem fólki á að finnast óviðeigandi til þess að fá sjokk-hlátur út úr þeim. Þetta virkaði vel í, hvað, FYRSTU ÞREMUR MYNDUNUM ÞEIRRA en maður verður fljótt þreittur á því hversu lítil vinna er lögð í að koma með nýjar og skemmtilegar hugmyndir, sérstaklega vegna þess að brandararnir í MM&I eru allir annars flokks og hálfvitalegir. Ég er ekki að segja að þú eigir ekki eftir að hlæja, ég er bara að segja að þú átt eftir að hlæja lítið og eftir í hverjum hlátri á þér eftir að líða eins og þú hafir upplifað deja-vu. Annar stór galli við MM&I er sá hversu langt er á milli brandaranna og hversu leiðinlegir hlutarnir á milli eru. Eins og í öllum Farrelly myndunum er einhverju asnalegu sub-plotti komið fyrir til þess að hafa einhvern söguþráð en sub-plottið hérna er bæði heimskulegt og fáránlegt og, satt að segja, man ég ekki lengur út á hvað það gekk! Ég er EKKI að grínast! Ég man ekki út á hvað það gekk! Brandararnir virðast þröngvaðir og finnst manni að höfundarnir hafi eytt mestum tímanum í að upphugsa brandara, nema hvað þeir eru frekar hálfkláraðir og misheppnaðir. Me, Myself & Irene á örugglega eftir að skemmta einhverjum, en ekki verða hissa á því að ganga út úr bíóinu og finna fyrir skringilegum tómleika.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Straight Story
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

David Lynch er þekktur fyrir allt annað en hefðbundar myndir og er The Straight Story alls engin undantekning. Reyndar má jafnvel segja að hún sé skrítnasta mynd Lynch þar sem hún er svo ótrúlega frábrugðin öllu öðru sem hann hefur gert. Ekkert ofbeldi. Engin nekt. Engir litlir strákar dansandi um með grímur og engir risar eða dvergar sem tala afturábak í rauðum herbergjum. Og einmitt vegna þess að allt þetta vantar þá er það óhjákvæmilegt að einhverjum Lynch aðdáendum eigi eftir að bregða. Mér brá ekki þar sem ég vissi fyrirfram að þetta væri ekki venjuleg Lynch mynd, en þar sem þetta er Lynch mynd varð ég að sjá hana. Myndin segir frá Alvin Straight sem ákveður að keyra á sláttuvélinni sinni frá Iowa til Winsconsin til að hitta bróður sinni sem nýverið fékk slag. Bræðurnir hafa ekki talað saman í 10 ár og finnst Alvin að þetta gæti verið síðasta tækifærið til að ná sáttum. Myndin er mjög hægvirk og allar myndavélatökur ganga hægt fyrir sig og er það augljóst að Lynch er að reyna að búa til samlíkingu með hægvirkum ferðamátanum. Það er einmitt þess vegna sem ég get ekki gefið myndinni meira en þrjár stjörnur því að þrátt fyrir ýmis snilldarleg atriði fannst mér myndin stundum aðeins of hægvirk og langdregin. En það er ýmislegt fyrir Lynch aðdáendur hér ef einhverjir eru að efast um skrítnleika myndarinnar; Sissy Spacek leikur ofsalega Lynchíska persónu og á leið sinni til Winsconsin hittir Alvin ýmsa furðulega karaktera. Samt sem áður verð ég að viðurkenna það að ég kýs frekar gamla, furðulega Lynch; þegar maður er vanur afskornum eyrum, myrtum skólastúlkum, álfkonum í vegamyndum og sandormum er eiginlega ekki hægt að sætta sig fullkomnlega við þennan nýja, rólega Lynch. Þrátt fyrir allt þetta er The Straight Story alveg 700 kallsins virði, full af skemmtilegum húmor og hugmyndum.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Addiction
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

The Addiction er ein af þessum hyper-lista myndum sem maður á alls ekki að sjá nema maður sé mikill aðdáandi leikstjórans eða í listamynda skapi. Ég er ekki mikill aðdáandi Abel Ferrara (þó hann hafi gert ýmsar góðar myndir, t.d. King of New York) og ég var ekki í skapi fyrir djúpa listaveislu þegar ég sá The Addiction. Myndin segir frá ungri konu (Lily Taylor) í New York. Kvöld eitt er hún bitin í hálsinn af vampýru (Annabella Sciorra) og eftir það fer hún að breytast smám saman í vampýru sjálf. Tilgangurinn og boðskapurinn er mjög greinilegur í þessari mynd; Vampýrismanum er líkt við eiturlyfjafíkn - þ.e. þú ert háður báðum "sjúkdómunum" með fíkninni og að lokum þornar þú upp ef þú færð ekki þinn skammt. Til að útvega skammtinn þarft þú að "þurrka" aðra upp. Myndin er tekin upp í svart-hvítu og eykur það mjög á drungalegheitin, en gallinn er bara sá að myndatakan er ljót og viðvangingsleg og leikararnir fá ekki að njóta sín til fullnustu vegna þessa. Með nokkrum skemmtilegum stílbrögðum og kvikmyndabrellum (ekki "tækni"brellum - ég er ekki svo Hollywood-sinnaður) hefði þessi mynd orðið frábær. Leikararnir eru allir fullkomnir: Lily Taylor sýnir hér svo frábærann leik að ég á eftir að efast um frammistöðu annarra í framtíðinni. Cristopher Walken stelur senunni í sínum fáu atriðum og Annabella "Tell me to go" Sciorra er flott sem aðalvampýran þó, eins og ég sagði, hún hefði notið sín betur í flottari myndatöku. The Addiction er vel þess virði að sjá bara fyrir leik Taylor og skemmtilegum samlíkingunum, en það er fátt annað sem mun vekja áhuga.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Supernova
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það eitt að "Thomas Lee" hafi leikstýrt þessari mynd vakti áhuga minn. Thomas Lee er nefnilega nýja dulnefnið fyrir leikstjóra sem skammast sín fyrir verk sín og tekur það við af hinu þekkta nafni Alan Smithee. Ekki veit ég hvort að Thomas Lee nafnið var sett á þessa mynd vegna gæðanna eða vegna þess hversu margir leikstjórar gerðu hana en ég giska á það síðara því að bæði Walter Hill og Francis Ford Coppola hafa gert mun verri myndir (t.d. Last Man Standing og Jack...) Supernova er einstaklega hallærisleg B-vísindaskáldsaga en er þó aldrei beint leiðinleg. Hún er ekki vel leikin, söguþráðurinn er stolinn úr nær öllum frægum sci-fi myndum síðustu ára og tæknibrellurnar eru mjög veikar, en hún er samt ekki leiðinleg. Það sem fór mest í taugarnar á mér var hræðileg sviðsmyndin sem leit út fyrir að hafa verið hönnuð af Joel Schumacher, svo var myndatakan líka eitthvað furðuleg, þá sérstaklega í byrjuninni. Leikararnir gefa það til kynna að hér sé eitthvað sérstakt á ferðinni en svo er ekki og er Supernova algjör meðal-B-mynd sem eflaust einhverjir hafa gaman af en aðrir eiga eftir að hata.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Road Trip
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Road Trip er mynd sem kom mér mjög skemmtilega á óvart. Ég bjóst við mjög litlu þar sem hugmyndin hljómaði eins og "American Pie í bíl" og þar sem ég hafði ekki gaman af American Pie var ég eiginlega viss um að þessi yrði léleg. En raunin var önnur. Road Trip er mun betri mynd en American Pie í alla staði: betri saga, betri húmor og betri leikarar. Það var aðeins ein áberandi léleg leikkona í Road Trip og Seann-What's-His-Name-Scott-Whatever fór ekki jafn mikið í taugarnar á mér og hann gerði í bökumyndinni og Final Destination - en ég er enn á þeirri skoðun að hann eigi ekki að fá að leika framar. Road Trip sameinar svolítinn Porky's fíling og ótrúlega sérvitrum og fríkuðum húmor en gengur aldrei jafn langt og American Pie í líkamsvessahúmor, en þó má finna eitt og eitt atriði sem mætti kalla smekklaus. En þegar maður fer á svona mynd þá býst maður ekki við neinu öðru en smekkleysu og er Road Trip hæfileg sem slík. Breckin Meyer og Paulo Costanzo eru báðir óþekktir leikarar en standa sig með miklum ágætum hér og munu örugglega sjást aftur en Tom Green vakti mikla kátínu og var langfyndnasta persónan. Ég er yfirleitt ekki hrifinn af svona myndum en ætla að mæla með Road Trip sem er mjög, mjög skemmtileg og fyndin gamanmynd!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Hanging Up
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Áður en maður sér myndir eins og Hanging Up þá ákveður maður fyrirfram að hún verði hvorki góð né léleg, bara svona ágætis afþreying. Yfirleitt eru þessar myndir svona tveggja-stjörnu myndir sem maður gleymir strax eftir að hafa séð þær, stundum eru þær betri, stundum verri. Hanging Up er verri. Hún er leiðinleg, tilgerðarleg, illa leikin, yfirgengilega væmin, fyrirsjáanleg, ófyndin og pirrandi! Að svona mynd skuli hafa verið gerð er óskiljanlegt! LES ENGINN HANDRIT NÚ TIL DAGS??? Ég fatta þetta ekki alveg. Mynd eins og Hanging Up hefði aldrei átt að verða til, ekki nema með miklum handritsbreytingum - eins og t.d. að skrifa það allt upp á nýtt með áhugaverðum, frumlegum persónum og sleppa öllum 50s-Hollywood-stjörnu bröndurunum sem einkenna myndir Noru Ephron. Myndin segir frá þremur systrum sem öllum gengur vel í lífinu en þær hafa lítinn áhuga á dauðvona föður sínum og verður systirin sem Meg Ryan leikur að sjá um hann gegn vilja sínum. Þetta er svona rauði þráður myndarinnar og hann hefði getað virkað hefði myndin verið sjálfri sér samkvæm og ekki flakkað út um allt á alla hugsanlega staði með hverju tilgangslausu atriði á eftir öðru tilgangslausu atriði sem skiptir nákvæmlega engu máli í heldarfrásögninni. Flest þessi atriði eru um einhver vandamál nú og þá (já, það er mikið af "flashback" atriðum) en þessi vandamál virðast skipta svo litlu máli síðar meir að ég get ekki ímyndað mér af hverju þau eru í myndinni. Kannski vegna þess að þau voru í bókinni sem myndin er byggð á? Örugglega. Dramað í þessari mynd er einnig hundónýtt; systurnar gráta mikið, muna eftir erfiðum dögum, eiga saman tilfinningaríka stund þar sem þær tala um gamlar leikkonur og enda allt saman vel með alveg ótrúlega tilgerðarlegu atriði þar sem allir verða vinir í lokin. Meg Ryan er léleg í hlutverki sínu og lítur út eins og hún kíki í "The Hollywood Book of Acting" á milli taka. Lisa Kudrow er ekki nógu mikið í myndinni til að hægt sé að hafa skoðun á henni og svo er það Diane Keaton. Guð minn almáttugur, Diane Keaton! Ekki nóg með það að hún hafi leikstýrt þessari hörmung heldur leikur hún einnig í henni - og það ILLA! Keaton er svo léleg, svo hallærisleg, svo TILGERÐARLEG OG ÖMURLEG að mér var illt í hvert skipti sem ég sá hana. Ekki misskilja mig, ég hef ekkert á móti Diane Keaton (kannski núna) en hún var svo óeðlilega glötuð í þessari mynd að ég veit ekki hvað. Mikill hluti myndarinnar fer í það að systurnar tala í síma, skella á og hlæja að ófyndnum bröndurum (Keaton hlær mest og gerir það illa). Annað gera þær ekki. Þær rífast einu sinni og gera það illa líka, sérstaklega af því að atriðið er svo illa skrifað. Walter Matthau leikur líka í þessari mynd, og spurningin "af hverju?" brennur á vörum mér. Og að þetta skuli hafa verið síðasta myndin hans... talandi um óheppni! Ég get ekki mælt með þessari mynd fyrir "mömmurnar", þ.e. target-áhorfendurna sem þessi mynd var gerð fyrir, vegna þess að mömmu minni þótti þessi mynd frekar léleg og sofnaði yfir henni. Hanging Up er léleg mynd og hæfilegra nafn á hana væri: Walking Out.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Gone in 60 Seconds
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Gone in 60 Seconds er enn eitt dæmið um hningnun kvikmyndarinnar sem listgrein. Þessi mynd er rusl. Á þessu ári hef ég séð þær margar ruslmyndirnar og er þessi hvorki betri né verri en flestar þeirra: Hún er bara mjög léleg. Ég held að Jerry Bruckheimer sé að reyna að eyðileggja líf þeirra sem koma að horfa á myndirnar sem hann framleiðir, annars myndi hann ekki gera þær svona hræðilegar. Honum hefur tekist ágætlega upp (Crimson Tide, Enemy of the State, Bad Boys) en á heildina litið er myndalistinn hans fullur af grútlélegum formúlumyndum. GI60S lætur sér það ekki nægja að vera bara formúlumynd, heldur er hún ein stór gegnumgangandi klisja sem nær í besta lagi að halda augum þínum opnum. En það gerist ekki oft. Eitt af því sem fór í taugarnar á mér, þar sem ég vildi helst sofna, var það hversu mikið var af tilgangslausum hljóðbrellum! Dominic Sena finnst það greinilega voða flott að setja hljóðeffecta inn í hvert einasta atriði, en hann er hálfviti og verður myndin meira pirrandi fyrir vikið. Hún var nógu pirrandi til að byrja með vegna slæms leiks og hörmulegs handrits. Það er engin spenna til staðar í þessari mynd. Í þeim atriðum sem Cage og Co. þurfa að stela bílum er engum vandamálum komið fyrir til þess að skapa spennu. Í staðinn fáum við að sjá marga bíla keyra hratt og mikið af háværum hljóðeffectum. Og svo var það líka alveg æðislega viðeigandi að hafa alltaf stóra flutningabíla til að stöðva löggurnar í hverju einasta atriði sem þær komu fram í. Myndin snýst um það að Cage þarf að stela 50 bílum á litlum tíma til þess að bjarga lífi litla bróðurs. Ef bróðirinn væri skemmtileg, góð og áhugaverð persóna hefði verið hægt að skilja ákafa Cage í að vinna þetta verk, en þar sem bróðirinn er algjör lúser, leiðinlegur og pirrandi (og leikinn af fíflinu Giovanni Ribisi) getur manni ekki verið meira sama. Angelina Jolie er hér í tilgangslausu hlutverki sem sexý-pían. Og trúið mér: Hlutverk hennar í myndinni er ALGJÖRLEGA tilgangslaust. Hún gerir EKKERT í þessari mynd sem ekki væri hægt að sleppa úr. Og talandi um að sleppa hlutum; af hverju var vondi kallinn til staðar í aðeins tveimur hlutum myndarinnar - í byrjun og í lokin? Vondi kallinn verður að gera eitthvað illt - eitthvað VONT - til þess að réttlæta skyldu-drápið á honum í lok myndarinnar. Christopher Eccelston reynir að túlka þessa persónu en gerir það án tilþrifa og verður útkoman veikasta og aumasta illmenni kvikmyndasögunnar. Og hvað varð svo um hinn vonda kallinn, svarta gaurinn með gulltennurnar? Hann hvarf bara allt í einu og sneri aldrei aftur, sem gerði hans hlutverk bara tilgangslausara. Og hvað með latino-gaurana sem birtust í "hundaskítsatriðinu" (þarna sjáið þið á hversu háu stigi húmorinn í þessari mynd er)? Ég nenni ekki að skrifa meira, því þessi mynd á það ekki skilið. Ekki sjá hana. PUNKTUR! Og til Nicolas Cage: HÆTTU AÐ LEIKA, FÍFLIÐ ÞITT! Þú kannt það ekki lengur og þú ert EKKI cool!!!!!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Big Momma's House
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Í kvöld, 4. ágúst 2000, varð ég vitni að hlut sem var svo hræðilegur að orð munu aldrei geta lýst því. Þessi hlutur mun reyna að blekkja ykkur. Hann mun ljúga og segjast vera kvikmynd. Hann mun jafnvel þykjast vera gamanmynd. Mynd sem maður á að hlæja að. Og þessi hlutur er mjög úrræðagóður; hann hefur fengið fólk til þess að ljúga fyrir sig. Fólk sem býr til auglýsingar sem segja að þessi "mynd" sé fyndin og skemmtileg. En þegar fólk fer að sjá þennan hlut mun það sjá að eitthvað ólýsanlega ljótt. Að vísu hefur hluturinn ásamt auglýsingafólkinu tekist að heilaþvo einhverja einstaklinga og munu þeir einstaklingar hlæja og láta eins og þeir skemmti sér vel. Ekki taka mark á þessum einstaklingum, þeir vita ekki hvað þeir segja. Ég neyddist til þess að ganga út af þessum hlut. Heimska hans var að síast inn í mig. Ég gat ekki setið aðgerðarlaus lengur. Þegar hléið loksins kom (eina skiptið sem ég hef VILJAÐ hlé) tók ég tækifærið og fór. Ég sé ekki eftir því. Hluturinn bauð ekki upp á neitt sem var þess virði að fylgja út á enda. Það var enginn húmor, engin spenna, engin skemmtun. Ekkert. Þessi hlutur er ekkert nema stórt EKKERT! Og hluturinn stelur, ó já! Hann stelur taumlaust. Til þess að dulbúa tómleika sinn og ekkert-leika stelur hann frá kvikmyndum eins og Mrs. Doubtfire, Nutty Professor og Dumb & Dumber til þess að fólk geti ekki séð, ja, ekki neitt. Aðeins fávíst fólk mun falla fyrir þessu glingri. Ég afneita þessum hlut og mun reyna að eilífu að þurrka minninguna um hann úr höfði mér. Ég vona að þessi gagnrýni geti fengið einhvern - bara EINA manneskju - til þess að hætta við að sjá þennan hlut. Þið getið eytt 700 krónunum ykkar í eitthvað nytsamlegt, t.d. eldivið. Það er örugglega miklu skemmtilegra að sjá peninga brenna heldur en að sjá Martin Lawrence að leika feita gamla konu. Eða er mannkynið búið að leggjast lægra en ég hélt?
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
101 Reykjavík
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

101 Reykjavík er eina íslenska myndin sem ég hef séð sem hefur virkilega fengið mig til að hlæja vel og mikið. Mér fannst Englar Alheimsins og Fíaskó vera báðar lélegar (þá sérstaklega E.A.) en 101 Reykjavík er frábær mynd. Húmorinn, leikurinn, myndatakan og handritið gera þessa mynd að þeirri snilld sem hún er og ég mæli eindregið með henni fyrir alla Íslendinga.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Mission: Impossible II
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Að fá John Woo til að taka við af Brian De Palma var góð hugmynd þó að betra hefði verið að fá snillinginn De Palma á ný. Að fá Hans Zimmer til að taka við af Danny Elfman voru verstu mistök sem gerð hafa verið síðan Tim Burton var neyddur til að hætta sem leikstjóri Batman myndanna. Zimmer er ófær um að semja góða tónlist fyrir spennumyndir og er "tónlist" hans aðeins einn af göllum M:I 2. Þó að marg sé gott við hana er því miður einnig margt vont. Það versta var hversu mikill anti-climax endirinn var; það vantaði alveg stóru lokasprenginguna o.s.frv. og var allt leyst með ótrúlega löngum, og frekar leiðinlegum, bardaga milli Tom Cruise og Dougray Scott. Annar galli var sá að, ólíkt forveranum, var handritið fullt af ódýrum lausnum og laust við alla njósnatakta og spennuna sem þeim fylgja. Í fyrri myndinni var það gaman að hlusta á hversu ómöguleg verkefnin, sem IMF hópurinn tók að sér, voru. Í þessari mynd erum við aldrei í vafa um að Ethan Hunt (Cruise) takist ætlunarverk sitt vegna þess að við vitum aldrei almennilega hvað hann þarf að gera og hverjar hætturnar eru. Einnig fannst mér það lélegt hjá Robert Towne að misnota dulbúningshæfileika Hunts og co. en þegar búið er að nota latex grímurnar fimm eða sex sinnum fer það að vera þreytt. Fyrri myndin notaði grímurnar hæfilega mikið og með hæfilega miklum tíma á milli. Svo verð ég bara að minnast á það að mér fannst Cruise ekki standa sig mjög vel og leika hlutverk sitt frekar leiðinlega. En, sem betur fer, var einnig margt gott í myndinni: Scott og Thandie Newton eru mjög góð, Anthony Hopkins birtist í fimm mínútur og fær mann til að hlæja (óviljandi, þó) en Ving Rhames verður að sætta sig við hið óþakkláta hlutverk félagans sem segir brandara - persóna sem var ekki til staðar í fyrri myndinni. Hasaratriðin eru mörg hver ótrúlega flott og vel gerð og myndatakan er alveg yndisleg (ég dýrka þessi skemmtilegu fast-closeup-zoom sem Woo notar hér óspart). Þegar allt kemur til alls má kenna handriti Robert Towne um flesta galla myndarinnar, en það er frekar ófrumlegt og oft á tíð óspennandi (er ekki búið að nota "lífshættulegu veiruna" nógu oft?). Vissulega á M:I 2 hálfa stjörnu í viðbót skilið en ég ætla ekki að gefa henni hana. En á þessum tímum þar sem fólk er komið með leið á heimskum hasarmyndum og vill fá fleiri myndir með góðu handriti, eins og The Matrix, stenst Mission: Impossible 2 ekki undir væntingum en er þó hin ánægjulegasta skemmtun og mæli ég með henni fyrir þá sem ekki búast við neinu öðru en sprengingum, slow motion og hnyttnum tilsvörum.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Ninth Gate
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

The Ninth Gate er líklegast besta mynd um djöfulinn sem þið munuð sjá á þessu ári. Ekki það að þær verði margar, en þar sem ég hef ekki séð nógu margar myndir um djöfulinn og þess háttar verur get ég ekki kallað hana þá bestu; en hún er sú langbesta sem ég hef séð. Að kalla The Ninth Gate hrollvekju er bull. Hún er meiri gamanmynd en hrollvekja, en hún er alls ekki gamanmynd. Hún er meira svona mystería með hrollvekjandi ívafi og krydduð með svörtum húmor. Húmorinn kemur mest megnis frá hinum frábæra leikstjóra Roman Polanski, en hann notfærir sér söguminni, klisjur og dulúð mjög skemmtilega - t.d. er persóna Lenu Olin raunverulega stór brandari, en með góðum leik og betri leikstjórn er persónan ekki hlægileg. Johnny Depp er að sanna það með hverjum deginum að hann er einn sá albesti leikari sem Hollywood hefur á sínu snæri. Sleepy Hollow sýndi það en The Ninth Gate sannar það. Ég verð svo líka að hrósa Darius Khondji fyrir alveg magnaða myndatöku, sem er greinilega í smá film-noir stíl. Ég er farinn að sjá nafn hans æ oftar á kreditlistum og er það alltaf vísir á flotta myndatöku. Mér datt það líka í hug að hann ætti einhvern hlut að máli eftir fyrsta skot myndarinnar. Alveg frábært! Söguþráðurinn er djúpari, flóknari og skemmtilegri en flestar aðrar myndir af þessu tagi (þessu er beint að End of Days) og verð ég að hrósa Polanski fyrir það að taka ákvarðanir í þessari mynd sem fæstir - ef einhverjir - leikstjórar í Hollywood þora að taka. En þar sem Polanski vinnur ekki í Hollywood kemst hann upp með það. Það er augljóst að áhorfendur myndarinnar eiga annað hvort eftir að hata þessa mynd eða elska hana. Sem kvikmyndaáhugamaður verð ég að elska hana. Hún er óvenjuleg, frumleg, dulúðug, vel leikin, dásamlega tekin og frábærlega skemmtileg. Eini gallinn er kannski sá að hún er mjög löng, en ég fann ekki fyrir þessari lengd svo að ég get ekki kallað hana galla. Hvað sem fólki finnst svo um The Ninth Gate er aðeins spurning um smekk, en þó er ekki hægt að neita því að hún er, kvikmyndafræðilega séð, frábær. Ég mæli eindregið með henni.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Robin Hood: Prince of Thieves
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég var staddur úti á videoleigu og varð að finna mér eina gamla til að taka frítt með annarri nýrri. Ég sá allt í einu Robin Hood: Prince of Thieves. Það var mjög langt síðan ég sá hana síðast og mér datt í hug að taka hana með. Sem betur fer! Robin Hood er algjör ævintýramynd með öllum ævintýramyndaklisjum og persónum. En hún er ofsalega vel gerð ævintýramynd með flottri myndatöku, góðum leikurum og skemmtilegri sögu. Ég ætla ekki að fara að mikið út í söguþráðinn en verð bara að taka það fram að Kevin Costner er alveg fullkominn í hlutverkið. Mér finnst það hálfleiðinlegt að Costner sé búinn að rústa ferli sínum svona illa með Postman og For Love of the Game, en maður á samt alltaf gömlu myndirnar. Eina persónan sem fór í taugarnar á mér var Azeem, sem Morgan Freeman lék þó mjög vel. Azeem er þessi týpíska "wise-man" stereótýpa sem veit allt og getur allt. Mary Elizabeth Mastrantonio er leikkona sem fleiri ættu að kannast við (þið getið byrjað á því að sjá fullkomnunina The Abyss) og er hún frábær sem Maid Marion. En sá sem stelur myndinni algjörlega er Alan Rickman sem The Sheriff of Nottingham. Hann er alveg frábært illmenni og eitt það fyndnasta, án þess að vera þó klaufi eða með lélega fimmaurabrandara. Rickman er fyndinn. Það kom mér mjög á óvart að sjá Maggie Smith, þessa líka fínu bresku leikkonu, undir svona miklum farða sem nornin Mortianna. Það tók mig smá tíma að fatta að þetta væri hún. Sá eini sem stóð sig verulega illa var Christian Slater sem er hér í 100% óþörfu hlutverki sem á greinilega að höfða til yngri kynslóðarinnar en það tekst bara ekki. Slater er hörmung í öllu og nær að eyðileggja nær öll atriði sem hann sést í. Einnig fannst mér tónlist Michael Kamen fara of oft út í vellulega Bryan Adams lags-stefið, ughhh. Kevin Reynolds hefur hér tekist að búa til góða, gamaldags ævintýramynd sem mun vonandi lifa áfram góðu lífi á myndbandaleigunum og hvet ég alla þá sem ekki hafa séð þessa mynd að sjá hana strax. Þeir sem hafa séð hana ættu kannski að endurnýja kynnin!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Dinosaur
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það er ekki oft sem mér finnst Disney myndir vera einfaldlega lélegar en því miður á það við um Dinosaur. Dinosaur fjallar um risaeðluna Aladar sem elst upp hjá límúrum (eða eitthvað svoleiðis) sem líta út eins og litlir apar. Aladar og apafjölskyldan flýja naumlega loftsteinaregn og flóðbylgju og komast á land þar sem öllum gróðri hefur verið í eytt í öllu regninu. Þau ganga í lið með nokkrum öðrum risaeðlum sem eru á leið í einhverja paradís (var einhver að horfa á The Land Before Time þegar þessi mynd var skrifuð?), þ.á m. eru ýmsar kunnuglegar persónur eins og t.d. sæta kveneðlan, ruddalegi bróðir hennar og veikburða gamalmennin. Það fór ýmislegt í taugarnar á mér í þessari mynd og hér á eftir mun ég telja upp minnisverðustu atriðin: Hver maður veit að einn mikilvægasti þátturinn í þróunarkenningu Darwins er sá að þeir hæfustu lifa af. Þessi mynd er greinilega á móti þeirri staðhæfingu þar sem þeir sem vilja skilja þá veiku eftir eru umsvifalaust gerðir að samúðarlausum illmennum og ekki sakar það að veiku persónurnar eru gerðar óeðlilega góðar og viðkunnanlegar. Þetta kallast, síðast þegar ég vissi, "audience manipulation" sem þýðir einfaldlega að kvikmyndagerðarmennirnir segja okkur hvernig okkur á að líða þó það stríði gegn rökréttri hugsun. Einnig fannst mér það leiðinlegt að sjá kjötætur enn og aftur túlkaðar sem vondu karakterana sérstaklega undir þessum kringumstæðum. Þegar loftsteinn hefur gjörbreytt öllu vistkerfinu verða allir að reyna að komast af, jafnvel þeir sem borða kjöt. Kjötæturnar deyja út ef þær borða ekki grasæturnar en samt sem áður eru þær gerðar illar og vondar, m.a. er ein þeirra sýnd kremja risaeðluegg: Aftur audience manipulation. Og svo, ef ég á að fara út í enn meiri smámuni, þá skildi ég ekki af hverju grasæturnar voru einu eðlurnar sem gátu talað en grimmu, vondu kjötæturnar öskruðu bara. Ókei, þetta er Disneymynd og þær eru allar meira og minna svona, er það ekki? Ég held bara að það hefði verið skemmtilegra að sjá risaeðlumynd sem gerðist ekki á þeim tíma sem allar tegundir voru við það að deyja út og hver eftirlifandi eðla þurfti hvern einasta matarbita til að lifa af. Þá hefði það ekki skipt máli hver væri vondi kallinn. En þetta er Disneymynd og ekki má setja út á þær. Satt að segja eru Disney myndir oftast alls engin listaverk þar sem þær búa flestar allar yfir lélegri persónusköpun, grunnu, einföldu handriti með auðskildum og auðveldum skilaboðum og ótrúlega litlu úrvali af stereótýpum en hafa einhvern Disney-sjarma. Þess vegna ákvað ég að láta allt ofangreint ekki hafa nein áhrif á stjörnugjöfina og ég stend við það. Ástæðan fyrir því að ég gef Dinosaur ekki meira er sú að hún er hundleiðinleg. Handritið er of einfalt og of tilþrifalítið. Ég vorkenni virkilega börnum nútímans sem mega ekki einu sinni verða spennt lengur í bíó því að það hæfir þeim ekki aldursins vegna. Ég man þegar Batman myndirnar (fyrstu tvær) komu út, ég dýrkaði þær (og geri enn, Burton er bestur) en þær yrðu brennimerktar hryllingsmyndir nú til dags ef einhverjum dytti í hug að sýna þær aftur í bíó. Í staðinn fáum við myndir eins og Dinosaur, algjörlega lausar við spennu og húmor en fullar af tilgerðarsemi og yfirgengilegri væmni (ójá, þessi mynd er væmin jafnvel á Disney mælikvarða). Mér dauðleiddist á þessari mynd og þar sem ég var gjörsamlega ósammála öllum þeim skilaboðum sem hún reyndi að koma frá sér (og talandi um augljós skilaboð!) var aðeins eitt sem ég gat dáðst að: tölvubrellurnar. Og þeim gef ég þessa einu og hálfu stjörnu. Brellurnar í þessari mynd eru stórkostlegar þó þær séu alls ekki betri eða raunverulegri en í Jurassic Park eins og auglýsingarnar vilja telja okkur trú um. Brellurnar í þessari mynd hæfa þessari tegund mynda mjög vel og er öll vinna á risaeðlunum frábær og þess vegna er synd að myndin skuli vera svona óspennandi og leiðinleg. Ég ætla ekki einu sinni að mæla með henni fyrir börnin vegna þess að ég tel það næsta víst að hvert einasta barn lofsyngur hverja einustu mynd sem það sér í bíó eingöngu vegna þess að það fer svo sjaldan í bíó. Börn eiga örugglega eftir að segja að þessi mynd sé frábær eða geðveik eða eitthvað þaðan af verra en hún er það ekki og á alls ekki skilið 700 krónurnar. Já, og plús það að hún er líka óraunveruleg, þ.e. atburðirnir, ekki talandi risaeðlurnar. En þetta er Disneymynd og svoleiðis smámunir skipta engu máli í þeim... er það ekki?
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Battlefield Earth: A Saga of the Year 3000
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Að horfa á Battlefield Earth er algjört tilfinningarush. Ég fann fyrir reiði, hatri, gleði, hlátri, ógeði og ógleði á meðan ég horfði á hana, oft á sama tíma. Ég var reiður fyrir að hafa borgað pening til að sjá þessa mynd (þó að ég geti sjálfum mér um kennt þar sem ég vissi mjög vel hversu léleg þessi mynd yrði áður en ég sá hana). Ég hataði John Travolta í hvert einasta skipti sem hann birtist á skjánum, ofleikandi svo hræðilega að mér varð óglatt (sjá meira um það síðar). Ég var glaður þegar kreditlistarnir byrjuðu að rúlla - að horfa á þessa mynd er algjör þrekraun, án gríns. Það var virkilega ERFITT að horfa á þessa mynd. Ég hló oft og mikið að lélegum samtölum, lélegum leik og lélegu handritinu. The Learning Machine? Ertu ekki að grínast! Ég fylltist ógeði þegar maðurinn fyrir framan okkur hrækti - tvisvar sinnum - á mig og félega mína. Kannski vegna þess að honum fannst eilífur hlátur okkar pirrandi, en líklegast vegna þess að hann náði ekki að hrækja á bíótjaldið. Mér varð óglatt á öllum "dutch"-önglunum sem Roger Christian notaði aftur og aftur og aftur. Maður fékk hálsríg á því að reyna að fylgjast með þessari mynd. Ég veit ekki hvað ég get sagt meira... jú, þessi mynd er svo hræðilega illa gerð að maður skildi ekki hvað var að gerast helminginn af henni, en ég efast um að hún hefði verið betri hefði ég skilið eitthvað. Þetta er bara óvenjulega léleg mynd sem á ekki skilið áhorf, svo að ekki sjá hana.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Gladiator
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég veit varla hvað ég á að segja! Gladiator er algjört meistaraverk. Hún er án efa flottasta bardagamynd sem gerð hefur verið og hún er líka ein af fáum hetjumyndum sem virka. Ridley Scott, einn af mínum uppáhaldsleikstjórum, sýnir það enn og aftur að hann er algjör meistari þegar kemur að stórbrotnum kvikmyndum. Þó að þetta sé engin Blade Runner (hvað þá Alien eða Thelma & Louise) jafnast Gladiator á við nær allar myndir hans - en er þrátt fyrir það ekki gallalaus. Stærstu gallar myndarinnar felast í því að oft á tíð er Scott svolítið lengi að koma sér að efninu og sérstaklega í lokakaflanum fær maður fljótt leið á sumum atriðum. En þetta er bara mín persónulega skoðun og veit ég að margir eru ósammála mér. Annar galli við myndina fór mikið í taugarnar á mér: Tónlist Hans Zimmer. Getur þessi maður ekki látið Rock-stefið sitt í friði? Tónlistin í myndinni zikk-zakkar á milli þess að vera frábær og svo hræðileg. Nokkur hetjustefin hans Zimmers minntu mig bara of mikið á hrollvekjuna hann Jerry Bruckheimer. En þessir gallar eru smávægilegir og skemma nær ekkert fyrir myndinni. Leikararnir eru einnig frábærir. Russel Crowe er meiriháttar sem Maximus og litlu síðri er Joaquin Phoenix sem erkióvinur hans Commodus. Aðrir frábærir eru t.d. Oliver Reed, Richard Harris og Derek Jacobi (finnst ykkur hann ekki líkur Judi Dench???). Það sem kom mér mest á óvart var leikur Connie Nielsen. Eftir að hafa séð hana í hinni hræðilegu Mission to Mars óskaði ég þess að þurfa aldrei að sjá hana aftur, en hún er frábær hérna og vil ég nú sjá sem mest af henni í framtíðinni. Það þarf varla að taka það fram að tæknilega er myndin fullkomin; Róm hefur aldrei litið svona vel út og frumlegur stíll Scotts gerir myndina að algjöru augnkonfekti. Það virkaði sérstaklega vel að nota Private Ryan-effectinn í bardagaatriðunum (sem voru óaðfinnanlega raunveruleg) og notar Scott alla þá tækni sem nútímakvikmyndagerðarmaður getur leyft sér að nota til að gera myndina sem flottasta og besta. Þið sjáið að ég gef myndinni aðeins þrjár og hálfa stjörnu en það er eingöngu vegna þess að mér finnst hún ekki jafn góð og bestu myndir Scotts. En myndin á svo sannarlega skilið meira og vona ég að þið farið öll að sjá Gladiator.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Galaxy Quest
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Loksins! Eftir meira en átta mánuði er Galaxy Quest loksins komin til Íslands. Ég vona bara að The Straight Story fari að koma bráðum og að við förum að fá myndir mun fyrr. ÉG VIL FÁ THE CELL NÚNA! En nóg um það. Galaxy Quest er ein af þessum myndum sem öllum finnst skemmtileg (þ.e. allir með réttu viti). Hún er grínmynd en samt svo miklu meira en það; hún er skemmtun í sínu hreinasta formi. Ég man ekki eftir slíkri mynd síðan ég sá Toy Story 2. Handritið er með ólíkindum skemmtilegt og sniðugt og eru flestir brandararnir á kostnað Star Trek þáttanna. Þeir sem ekki ná öllum bröndurunum eða finnast þeir ekki fyndnir geta samt sem áður skemmt sér yfir ævintýralegri sögu og áhugaverðri atburðarrás svo að enginn ætti að verða fyrir vonbrigðum - nema kannski hörðustu Star Trek aðdáendur sem gætu tekið þessari mynd sem móðgun... Ef finna á galla er hann líklegast sá að fyrsti hálftíminn var frekar veikur - ekki leiðinlegur en alls ekki eins frábær og það sem síðar kemur. Góðar brellur, góður húmor, góður leikur, gott handrit, góð mynd!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Thelma and Louise
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ef þér yrði sagt um hvað Thelma & Louise er um þá myndir þú líklegast álíta að hér væri á ferðinni enn ein Hollywood-feelgood myndin. Svo er ekki. Að vísu er þetta feelgood mynd og hún er svo sannarlega frá Hollywood en frábært handrit Callie Khouri, óviðjafnanlegur leikur Susan Sarandon og Geenu Davis og stórkostleg leikstjórn stílistans Ridley Scott gera þessa mynd að meistaraverki sem hverfur seint úr huga. Vinkonurnar Thelma og Louise ákveða að skreppa úr bænum yfir helgina og slappa af. Báðar eiga þær í erfiðleikum heima fyrir og á þessi ferð að vera eins konar flótti undan raunveruleikanum. En heppnin er ekki með stöllunum og fyrr en varir eru þær á flótta undan lögreglunni, ákærðar fyrir morð og rán. Thelma & Louise er svo sannarlega svar kvenna við road-myndunum sem einkenndu sjöunda og áttunda áratuginn, en hún er bara betri. Þetta er ein af þeim myndum sem verður örugglega talin klassísk eftir nokkur ár og á hún það vel skilið. Margur myndi halda að í höndum karlmanns yrði þessi súper-feminíska hugmynd að algjörri karlrembumynd sem myndi lítillækka konurnar, en Scott sannar það enn og aftur að myndir eins og G.I. Jane eru lítilsháttar mistök í annars fullkominni myndaskrá frábærs leikstjóra. Ég mæli með Thelma & Louise fyrir alla þá sem kunna að meta góðar kvikmyndir.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Any Given Sunday
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Any Given Sunday kom mér mjög mikið á óvart. Yfirleitt þoli ég ekki íþróttamyndir en þar sem ég er mikill aðdáandi Oliver Stone ákvað ég að gefa þessari mynd sjens. Ég sé ekki eftir því. AGS er kraftmikil (hvað annað - þetta er Oliver Stone mynd!) og góð mynd sem fjallar um ameríska ruðningsboltaliðið Miami Sharks og allt batteríið í kringum það. Við fáum þreyttan þjálfara (Al Pacino), nýjan eiganda liðsins (Cameron Diaz), nýliða sem lítur stórt á sig (Jamie Foxx), gamla stjörnu (Dennis Quaid) og fullt af öðrum persónum sem allar fá góðar línur og eru leiknar af góðum leikurum. Stone bregst manni ekki frekar en fyrri daginn. Fyrstu mínúturnar á þessari mynd gefa manni forsmekkinn á því sem koma skal - óreiða, kraftur og dúndrandi tónlist; Any Given Sunday er hávær og rosaleg mynd sem sumt fólk mun örugglega ekki þola - en þetta er Stone, það er ekki hægt að búast við öðru. Ekki er hægt að setja þessa mynd í hóp Stone-mynda eins og JFK eða Natural Born Killers, en hún er í svipuðum gæðaflokki og U-Turn. Pacino er frábær eins og venjulega, Diaz er glæsileg og peningagráður og kemur verulega á óvart, Foxx er fínn sem og Dennis Quaid, James Woods, Lauren Holly (kom mér einnig á óvart) o.fl. Jafnvel LL Cool J fór ekki mikið í taugarnar á mér! Ég get ekki mælt með Any Given Sunday fyrir alla en hún er áhugaverður kostur.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Amistad
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Síðan Spielberg sendi frá sér meistaraverkin Schindler's List og Jurassic Park árið 1993 hefur honum ekki tekist að fylgja eftir orðspori sínu. The Lost World var bara léleg og Saving Private Ryan var góð, en gölluð. Amistad er þarna á milli. Þetta er mikil synd vegna þess að söguþráðurinn og leikararnir eru fyrsta flokks, vandinn liggur hjá Spielberg en andi tilgerðarleika og egóisma svífur yfir allri framleiðslunni. Mörg atriði eru mjög kraftmikil og vel útfærð, en á milli þeirra eru atriði sem eru bara vandræðaleg og léleg. Ég gat næstum því heyrt í Spielberg útskýra fyrir Anthony Hopkins hvernig hann ætti að leika: "Og núna kemstu að því að þú skilur þetta allt saman... sniff..." og tárin sem renna niður kinnar Spielbergs vegna þess hversu yndislega sorgleg og tragísk myndin er sjást á skjánum á meðan óþolandi barnaleg og einfaldningsleg tónlist John Williams spilar undir til að ýta undir dramatíkina. Ég held að Williams hafi aldrei staðið sig jafnilla, en hann - eins og Spielberg - hefur ekki staðið undir orðspori sínu í langan tíma. Eins og ég sagði áðan standa allir leikarar sig mjög vel og handritið sjálft er mjög gott þetta er ekki rétta myndin fyrir Spielberg og co. og ætti það lið að gera fleiri ævintýramyndir heldur en alvarlegar "afleiðinga"myndir.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Frequency
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Eftir að hafa gengið í gegnum þá þrekraun að sjá of margar myndir í ár sem ollu mér miklum vonbrigðum þá var það ofsalega skemmtileg tilbreyting að sjá mynd sem kom mér verulega á óvart. Frequency er mynd sem ég forðaðist eins og eldinn þegar hún kom út í bíó. Af hverju? Ástæðan er mjög einföld: Trailerinn var ÖMURLEGUR! Myndin leit út fyrir að vera væmin, leiðinleg og ófrumleg klisja - einmitt andstæðan við hvernig hún er í raun og veru. Frequency er ekki væmin, hún er spennandi og áhugaverð og mjög frumleg. Hún hljómar kannski eins og alvarlega útgáfan af Back to the Future en Back to the Future er síðasta myndin sem maður hugsar um á meðan þessi snilldarmynd er í gangi. Hún kemur stöðugt á óvart með alveg hreint ótrúlega skemmtilegum hugmyndum og atriðum og þó maður þurfi stundum að bíta á jaxlinn vegna ótrúverðugleika þá lætur maður það flakka vegna þess að myndin er þegar búin að sanna ágæti sitt. Annar hlutur sem ég gat ómögulega séð á viðbjóðslega trailernum er það að þessi mynd er spennumynd - og mjög spennandi! Gregory Hoblit er mjög áhugaverður leikstjóri. Hann byrjaði feril sinn á hinni skemmtilegu, en gölluðu, Primal Fear, gerði svo hina ömurlegu Fallen, en sannar það með þessari snilldarmynd að hann er ekki bara góður sögumaður heldur mjög visjúalískur stílisti og hlakka ég til að sjá næstu myndir hans. Að mínu mati er Frequency ein besta litla mynd ársins og mæli ég eindregið með henni.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Heavenly Creatures
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Peter Jackson er einlægur aðdáandi kvikmynda og þess vegna tekst honum svona vel upp að gera þær. Eftir að hafa séð Heavenly Creatures aftur verð ég bara að segja að ég treysti honum fullkomnlega fyrir Lord of the Rings seríunni. Kate Winslet og Melanie Lynskey eru alveg stórkostlegar í aðalhlutverkunum sem tvær unglingsstúlkur sem mynduðu með sér svo sterkt samband að það eina sem gat tvístrað þeim var morð. Myndataka Jacksons er yndisleg, handritið er frábært, leikurinn með eindæmum og frábær stíll Jacksons er ógleymanlegur. Jackson nær hér að gera mjög áhrifaríka og góða mynd sem mun vera föst í mér í langan tíma. Frábær mynd, ef ekki fullkomin.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
American Psycho
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Að skrifa stuttlega um American Psycho er ómögulegt svo að ég mun fara ítarlega í efnið og hvet ég þá sem ekki hafa séð myndina né lesið bókina til að hætta að lesa núna.Ég ásamt þremur vinum mínum sá þessa mynd, sem er kolsvört satríra en ekki hrollvekja, í gær. Það voru vægast sagt skiptar skoðanir á milli okkar; mér fannst hún frábær, einum fannst hún ágæt, öðrum frekar slæm og þeim síðasta leiðinleg og tilgangslaus. Ég er fullviss um það að fólk á eftir að elska þessa mynd eða hata hana og gagnrýnirnar sem við munum sjá um hana verða mjög mismunandi. Helsta deilumálið er uppbygging sögunnar, en enga hefðbundna uppbyggingu er að finna. Þessi mynd er karakter-stúdía sem inniheldur engan söguþráð; engan svokallaðan rauðan þráð sem hægt er að fylgja eftir. Þessi mynd er algjörlega laus við byrjun, miðju og enda. Hún er bara lína. Það sem félögum mínum fannst verst við myndina var einmitt þetta - það vantaði alla hefðbundna frásagnaraðferð sem hefur verið til staðar í nær öllum kvikmyndum sem gerðar hafa verið. Ég er ósammála því að þetta sé galli, þó að ég skilji vel að þeim finnist það. Mér finnst þetta frekar vera kostur, vegna þess að eins og söguþráðurinn er aðalpersónan, Patrick Bateman, stefnulaus og óútreiknanlegur. Ég hef lesið bókina sem myndin er byggð á og er einkunnin hér að ofan til komin vegna þess að mér finnst að Mary Harron og Guinevere Turner hafi komið "boðskap" sögunnar fullkomlega til skila á hvíta tjaldið. Myndin er eiginlega alveg eins og bókin og þess vegna hefur umbreyting bókarformsins yfir á kvikmyndaformið tekist algjörlega. En þar felst gallinn fyrir þá sem eru ekki viðbúnir öðruvísi frásagnarformi. Vinir mínir sögðu mér einnig það að ástæðan fyrir því að mér fannst myndin svo góð var sú að ég hafði lesið bókina áður. Aftur er ég ósammála, en ekki algjörlega. Ég viðurkenni það að með því að hafa lesið bókina var ég undirbúinn fyrir þessa skrítnu uppbyggingu sem myndin hafði, en í sjálfu sér var ekkert sem ég skildi betur í myndinni vegna þess að ég las bókina. Ég tel það fullvíst að ef þeir hefðu lesið bókina áður þá hefðu þeir gagnrýnt hana á sama hátt og þeir gagnrýndu myndina. Söguþráðurinn er í stuttu máli svona: Patrick Bateman er ungur, myndarlegur og ríkur uppi sem vinnur á Wall Street. Hann lifir innantómu og leiðinlegu lífi þar sem föt og andlitssápur skipta meira máli en manneskjur. Hann vinnur þar sem hann vinnur til þess að falla inn í hópinn, er á föstu með konu sem hann þolir ekki bara vegna þess að hún er falleg og rík og á vini sem metast um viðskiptaspjöld og borð á veitingahúsum. Það er ljóst frá byrjun að Patrick er dauðleiður á öllu þessu og honum er alveg sama um fólkið sem hann umgengst. Hann gerir það þó vegna þess að hann er hræddur við að verða skilinn útundan. Inni í honum hefur verið að byggjast upp spenna og reiði sem hann fær svo útrás fyrir á kvöldin þegar hann drepur róna og vændiskonur. Við byrjum á stað í myndinni þar sem hann er nú þegar byrjaður að drepa og við fylgjumst með þeim dögum þar sem hann verður sífellt geðveikari þangað til í lokin þar sem skemmtilegri og undarlegri spurningu er varpað upp: Er Patrick Bateman geðsjúkur morðingi eða er hann bara ömurlegur lúser sem ímyndar sér að hann sé geðsjúkur morðingi vegna lélegs sjálfstrausts? Hver veit? Við fáum vísbendingar á báða bóga en aldrei neina stóra, mikilvæga vísbendingu sem gerir það auðveldara fyrir okkur að taka afstöðu. Nei, við verðum að ákveða okkur sjálf og ákvörðunin sem við tökum segir líklegast meira um okkur sjálf en við höldum; Ef við ákveðum að þetta hafi allt verið ímyndun þá er það fínt, en við verðum líklegast fyrir einhverjum vonbrigðum – "Ha? Var þetta allt bara kjaftæði?" En viljum við þá frekar að Bateman hafi raunverulega verið morðingi? Viljum við þá að hann hafi framið þau voðaverk sem hann framdi? Viljum við þá að hann hafi virkilega drepið varnarlaust fólk? Þessar spurningar koma flatt upp á áhorfendur og minnir svolítið á lokaatriði og boðskap Natural Born Killers gerði. Við horfum á myndina og hugsum hvað þetta sé ógeðsleg og viðbjóðslegt en þegar okkur er sagt að þetta hafi bara verið ímyndun þá verðum við fyrir vonbrigðum og viljum virkilega að ógeðslegheitin hafi verið raunveruleg. Þið getið kallað þetta oftúlkanir eða hvað sem er en þetta sá ég út úr myndinni og finnst mér hún búa yfir meiri dýpt en flestir vilja, eða nenna, að leita eftir. Myndin er einnig frábærlega vel leikin. Christian Bale er ótrúlegur sem Patrick Bateman og þó enginn annar leikari fái jafn mikinn tíma og hann standa flestir sig vel. Þá man ég helst eftir Chloe Sevigny sem leikur eiginlega tilfinningakjarna myndarinnar (Bateman er, að eigin sögn, laus við allar tilfinningar) og svo Samantha Morton sem, í þeim fáu atriðum sem hún kemur fram í, túlkar það frábærlega hversu ömurlegt lífið fyrir þetta fólk var. Reese Witherspoon og Willem Dafoe eru einnig góð og Jared Leto á besta atriði myndarinnar. Eins og ég sagði áður þá verða skiptar skoðanir um þessa mynd en eitt er víst: Þessi mynd er frábærlega fyndin. Hún er raunverulega svört kómedía og var það oftar en einu sinni sem allir áhorfendurnir hlógu dátt að grimmum húmornum. Kvikmyndatakan og stíllinn er frábær og verð ég að lokum að hrósa Mary Harron fyrir að hafa haft það hugrekki að skrifa handrit eftir þessari erfiðu bók og svo fært það svona listilega vel á tjaldið þrátt fyrir mótmæli margra. This is not an exit...
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Dick Tracy
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Nú á tímum mynda eins og X-Men og hinna væntanlegu Spiderman og Batman: Year One mynda finnst mér það við hæfi að skoðaðar séu aðeins "eldri" teiknimyndasögumyndir til þess eins að sjá hvað t.d. Bryan Singer gerði rangt. Að mínu mati eru fyrstu tvær Batman myndirnar bestu myndasögumyndirnar þó þær séu mjög ólíkar upprunalegu teiknimyndasögunum sem þær voru byggðar á og fór það mjög mikið í taugarnar á sumu fólki. Dick Tracy er hins vegar eins lík myndasögunni og hægt er; allt er yfirdrifið og ýkt, allar persónur heita nöfnum sem eru sambærileg útliti þeirra o.s.frv. og myndin er tekin upp í flottum myndasögulegum stíl þar sem aðeins örfáir, skærir og ýktir litir sjást hverju sinni. Warren Beatty leikstýrði myndinni ásamt því að framleiða hana og leika aðalhlutverkið, alræmdu lögguna Dick Tracy. Í myndinni þarf Tracy að kljást við Big Boy Caprice (óþekkjanlegur Al Pacino), glæpaforingja sem ætlar sér að yfirtaka glæpaheiminn, og svo þarf hann að velja á milli tveggja stúlkna: kærustunnar Tess Trueheart (Glenne Headly) og hinnar kynþokka - og dularfullu Breatless Mahoney (Madonna). Stærsta afrek myndarinnar er útlitið, líkt og hjá Tim Burton með Batman, en gallinn við Dick Tracy er að sárlega vantar loka-climax því myndin leyfir sér ekki að hafa einhvern fullnægjandi endi. Einnig gengur Beatty aðeins of langt í subplottum og frekar tilgangslausum aukapersónum, en allt er þetta gert til þess að reyna að auka á stærð og fjölbreytileika myndarinnar. Beatty stendur sig samt mjög vel á bak við myndavélina sem og fyrir framan hana; hann er alveg fullkominn Dick Tracy. Madonna er sjóðheit og sexy sem söngkonan og vandræðastúlkan Breathless og fær stúlkan einnig að syngja nokkur lög. Glenne Headly veitir myndinni einhvern raunveruleika sem vegur á móti öllu hinu og er kannski hægt að segja að hún standi sig hvað best með frábærum leik. Al Pacino stelur þó myndinni með ótrúlega ýktri og skemmtilegri frammistöðu sem jafnast næstum því á við Jack Nicholson í Batman. Mér fannst Dick Tracy alveg stórkostleg mynd alveg fram að síðustu mínútunum en að mínu mati vantaði alveg fullnægjandi endalok. Annars er þetta stórskemmtileg og flott hasarmynd og ættu komandi myndasögumynda leikstjórar að taka hana sér til fyrirmyndar. Svo er tónlistin líka eftir Danny Elfman og því getur myndin ekki verið alslæm...
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Dead Again
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ef Hitchcock hefði gert mynd á tíunda áratugnum hefði hann líklegast gert þessa. Dead Again er yndislega frábær mynd sem blandar saman film noir, rómantík, spennu og óhugnaði svo útkoman verður ein af áhugaverðustu sálfræðitryllum síðari ára. Branagh leikur Mike Church, einkaspæjara sem einsetur sér að hjálpa minnislausri konu, Grace (Emma Thompson). Dularfullur dáleiðari býður hjálp sína og í dáleiðslu segir Grace frá því þegar hún var gift evrópsku tónskáldi. Eini gallinn við frásögnina er að hún var gift honum fyrir rúmum 40 árum – þ.e. áður en hún fæddist. Scott Frank, handritshöfundur myndarinnar, skapar hér eftirminnilega og frumlega fléttu og nær Branagh að færa söguna fullkomlega á tjaldið og úr verður ein áhugaverðasta spennumynd sem ég man eftir. Frábær, drungaleg tónlist, myrkar sviðsmyndir, stílísk kvikmyndataka, gott handrit, frábær leikur og leikstjórn gera þessa mynd að módern-klassík sem enginn ætti að missa af.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Beetlejuice
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Beetlejuice er ein af mínum uppáhalds myndum. Hún er bara svo skemmtileg og klikkuð að maður verður að dást að henni. Sagan segir frá hjónum sem deyja og neyðast til þess að búa með ömurlega leiðinlegri hátísku-fjölskyldu sem flytur í húsið þeirra. Til þess að losna við þau fá hjónakornin Beetlejuice, sem er "lífsæringarmaður", til að hjálpa sér. Beetlejuice er hinsvegar frekar fríkaður persónuleiki og allt endar í ósköpum. Þessi mynd er fyrsta alvöru Burton myndin og ætti því hver og einn aðdáandi Burtons að sjá hana. Hún er líka frábærlega fyndin og persónurnar eru flestar ódauðlegar. Catherine O'Hara, Glenn Shadix sem listakona og "veraldarvanur" félagi hennar og svo Winona Ryder eru alveg yndisleg í hlutverkum sínum og Michael Keaton er alveg frábær sem ógeðfelldi draugurinn Beetlejuice. Sviðsmyndir Bo Welch, tónlist Danny Elfman og skemmtilegur húmor Burtons gera þessa mynd að semi-klassík í mínum augum og mun hún alltaf vera ein af þessum myndum sem maður getur horft á ef ekkert annað er til reiðu.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Man on the Moon
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Jim Carrey sannar það með degi hverjum hversu ótrúlegur leikari hann er. Hverjum hefði dottið í hug að sama manneskjan og lék Ace Ventura og Lloyd Christmas myndi leika persónur eins og Truman Burbank og Andy Kaufman? Hvað þá leikið þær vel? Túlkun Carreys á Andy Kaufman er án efa leiksigur fyrir hann og leyfi ég mér að vísa í Harry Knowles með því að segja að Carrey hafi einfaldlega aldrei verið á skjánum. Þetta var Kaufman. Scott Alexander og Larry Karaszewksi ljúka hér með "Offbeat-Americans" þríleik sínum (hinar tvær voru Ed Wood og The People vs. Larry Flynt) með glæsibrag í mynd sem var eins og Kaufman sjálfur; ekki beint grínmynd heldur skemmtileg mynd. Man on the Moon er frábær skemmtun og innheldur mörg atriði sem eiga eftir að fara á Bestu Atriði með Jim Carrey listann og munu lifa að eilífu. Ég mæli eindregið með Man on the Moon ef þið viljið komast að því hver Andy Kaufman, þessi líka skemmtilegi maður, var og einnig ef þið viljið skemmta ykkur konunglega eitt kvöldið. Frábær.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Final Destination
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég var algjörlega búinn að gefast upp á unglingahrollvekjunni þegar Final Destination var sýnd í kvikmyndahúsum hér á landi. Þar sem ég efaðist stórlega um að þessi mynd yrði betri en Urban Legend eða I Still Know... ákvað ég að sleppa því að sjá hana - algjörlega. En eftir að hún kom út á video fór skoðun mín á myndinni að breytast. Ég las það að Roger Ebert hafði gefið henni fína dóma og viðbrögð áhorfenda voru góð. Ég varð bara að dæma sjálfur. Final Destination er án efa sniðugasta nýtísku-unglingahrollvekjan af þeim sem komið hafa út á síðustu árum. Það eru fá atriði í þessari mynd sem virka ekki, en vegna þeirra (og ég endurtek - þau eru FÁ) fær myndin ekki hálfa stjörnu í viðbót. Final Destination er spennandi og snjöll. Hún er vel gerð, ágætlega leikin og tónlist Shirley Walker skapar skemmtilegt andrúmsloft. En því miður er myndin ekki laus við nokkrar leiðinlegar klisjur sem virðast fylgja þessari tegund mynda; "fyndni" gaurinn í myndinni eyðileggur mikið, sérstaklega þar sem persóna hans er svo tilgangslaus og svo út úr kú miðað við umfjöllunarefnið og það sem er í gangi. Hefði þessari persónu verið sleppt þá væri Final Destination einstaklega, ja, einstök unglingahrollvekja. Hins vegar tekst James Wong að útiloka alla unglingavæmnina og allan hallærisleikann og í lokin skipti það eiginlega engu máli hvort að persónurnar væru 17 ára eða 37 ára. Ég vil líka taka það fram að þeir sem eru á leið í flugvél bráðum ættu ekki að sjá þessa mynd áður. Hún inniheldur eitt óhugnalegasta flugslys sem ég hef séð í kvikmynd. Ég veit að það eru margir sem þola ekki svona myndir og það verður erfitt að telja þeim trú um að hún sé þess virði að sjá, en hún kom mér mjög skemmtilega á óvart og DVD diskurinn á líklegast eftir að eiga sér stað á hillunni heima hjá mér í náinni framtíð.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Erin Brockovich
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það eru þrír hlutir sem gera þessa mynd frábrugðna öðrum myndum um svipað málefni: Julia Roberts, Erin Brockovich og Steven Soderbergh. Julia Roberts, sem hefur aldrei verið í sérstöku uppáhaldi hjá mér, er alveg stórkostleg í aðalhlutverkinu. Erin Brockovich er stórskemmtileg persóna sem gerir myndina þess virði að horfa á til enda. Steven Soderbergh er hreinræktaður snillingur sem gerir frábærar myndir. Þegar litið er á söguna af Erin Brockovich þá er raunverulega lítið sem gerir hana frábrugðna öðrum hverjum þætti í einhverju lögfræðidrama en hin kjaftfora, hugrakka og ofsalega skemmtilega Erin Brockovich snýr sögunni upp í eitthvað sérstakt. Við erum ekki svo mikið að vonast til þess að allt veika fólkið fái bætur, við viljum að Erin vinni málið! Þó ég hafi viljað að Björk okkar Guðmundsdóttir hefði fengið meirihlutan af verðlaununum sem hún Julia fékk þá get ég ekki neitað því að hún er alveg mögnuð í þessari mynd og hreinlega "verður" persónan. Ef þið hafið ekki gaman af henni Juliu þá er ýmislegt annað til að horfa á: Albert Finney er stórkostlegur, Marg Helgenberger, sú upptekna B-myndaleikkona, er alltaf skemmtileg og kvikmyndataka Soderberghs er algjör draumur. Myndin er ekki alveg fullkomin, en hún er skemmtileg og manni líður vel eftir að hafa horft á hana.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Basic Instinct
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Basic Instinct er ein af mínum uppáhalds myndum. Hún er frábærlega vel leikin (þá sérstaklega af Sharon Stone) og plottið í henni er yndislega skemmtilegt og óvænt. Þetta er ein af þessum myndum sem ég get horft á aftur og aftur án þess að fá leið á henni. Paul Verhoeven hefur gert misjafna hluti um árin en er þessi mynd án efa sú langbesta. Kvikmyndataka Jan De Bont er frábær og tónlist Jerry Goldsmith fullkomin! Kaupið geisladiskinn, hann er alveg þess virði. Basic Instinct er einnig eina góða handritið sem hálfvitinn Joe Ezsterhas hefur skrifað! Brilliant mynd í alla staði!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Fíaskó
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Eftir að hafa næstum því dáið úr leiðindum á Englum alheimsins ákvað ég að sjá aldrei aftur íslenska mynd í kvikmyndahúsum borgarinnar. Það var nú samt tilviljun sem réð því að ég þurfti að sjá Fíaskó. Fíaskó er mynd sem margir vilja líkja við Pulp Fiction vegna þess að í henni eru þrjár sögur sem fléttast saman á "skemmtilegan" hátt. Fíaskó er ekki lík Pulp Fiction á neinn hátt. Pulp Fiction er góð mynd, Fíaskó er la-la afþreying. Sögurnar eru frekar óáhugaverðar, en skemmtilegur húmor hjálpar manni að komast í gegnum hana. Fléttan í myndinni er frekar leiðinleg og fyrirsjáanleg og eru sögurnar lengi að komast í gang. Leikararnir eru mjög aumir, eins og venjan er í íslenskum myndum og standa Eggert Þorleifsson og Margrét Ákadóttir úr sem einu leikararnir sem skemmta manni í gegnum myndina. Allar persónur eru innantómar, þunnar og mjög ótrúverðugar. Myndin sjálf er alls ekki leiðinleg, en hún er aldrei skemmtileg. Hún er svo sem ágæt tímaeyðsla, en fátt annað. Íslendingar þurfa verulega að vanda handritin næst...
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The War of the Roses
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Mig hefur alltaf langað að sjá þessa mynd aftur. Ég var staddur á videoleigu þegar ég sá kassann og ég varð bara að leigja hana! Myndin byrjar með alveg hreint frábærri tónlist David Newmans - byrjunarstefið á eftir að sitja í mér í áratug - og svo kynnumst við Barböru og Oliver Stone. Þau voru hjón sem áttu hið fullkomna líf: frábært hús, yndislegir krakkar, miklir peningar o.s.frv. En allt í einu byrjar Barbara að hata Oliver og ákveður að skilja við hann. En hvorugt þeirra vill flytja út úr húsinu. Við þetta verður stríðsástand í húsinu og endar allt í ósköpum. Sagan er sögð af vini hjónanna, leiknum af Danny DeVito, en hann leikstýrir líka. Danny DeVito hefur þennan einstaka stíl sem svo fáir leikstjórar hafa nú til dags. Hann er með flott angle sem minna stundum á Hitchcock og svarti húmorinn er í stíl við Burton. En DeVito er alls ekki að stela, hann gerir þessa mynd að sinni eigin og tekst frábærlega vel upp. Handritið er frábært og tekst þeim Michael Douglas og Kathleen Turner mjög vel upp sem Barbara og Oliver. Það er líka soldið gaman að sjá "þrenninguna" í þessari myrku kómedíu eftir alla Indiana Jones stemninguna úr Romancing the Stone og The Jewel of Nile. Ef þið hafið ekki séð þessa þá skuluð þið sjá hana strax. Ef þið hafið séð hana þá skuluð þið endilega sjá hana aftur, hún er alveg þess virði!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Bats
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það hefur liðið vika síðan ég sá Bats og notaði ég þessa viku í að hugsa um hvað ég ætti að segja um þessa heimskulegu, lélegu mynd. Það eru fá orð sem geta lýst því hversu ómerkileg hún virkilega er, en ég mun reyna. Til þess að útskýra það verð ég að segja örlítið frá söguþræðinum. Myndin fjallar um tvær fullkomnar stökkbreyttar leðurblökur sem skapaðar voru af brjáluðum vísindamanni. Leðurblökurnar myrða beljur og önnur dýr en þegar ungt par er myrt (í einu fyndnasta atriði myndarinnar) líst mönnum ekki á blikuna og til að rannsaka allt þetta er fengin beibið og dýrafræðingurinn-með-áherslu-á-leðurblökur Dina Meyer til að rannsaka málið. Hún er náttúrulega fullviss um það að leðurblökur hafi ekki komið nálægt þessu og eyðir mestum fyrri hluta myndarinnar í að vera skeptísk og á móti öllum skoðunum þangað til að nokkur þúsund leðurblökur (þessar fyrstu tvær smita aðrar) ráðast á hana og svölu, vindlareykjandi lögguna Lou Diamond Philips. Það gerist meira og minna ekki neitt í allri myndinni og er hún óeðlilega leiðinleg af hryllingsmynd að vera. Fólk gæti haldið að þessi mynd væri eitthvað lík myndum eins og Lake Placid og Deep Rising vegna svipaðs söguþráðs en munurinn gæti ekki verið meiri. Placid og Rising höfðu húmor fyrir sjálfum sér og grínuðust mikið meira en hræddu og tóku sig ekki alvarlega. Bats lítur á sig sem grafalvarlega hrollvekju, gáfulega og spennandi. Það má deila um það hvort að Bats sé fyndnari en ofangreindar myndir vegna þess að hún er oft á tíð óborganleg - leðurblökurnar eru svo HRÆÐILEGA illa gerðar að hálfa væri nóg. Og samtölin milli persónanna... GUÐ MINN ALMÁTTUGUR! (Handritshöfundarnir reyna að virðast gáfulegir með því að fletta upp latneska heitinu á leðurblökum en Dina Meyer virðist bara heimskuleg þegar hún notar það.) Hver einasta persóna er stereótýpa (sæta, gáfaða vísindakonan, svala löggan, svarti, fyndni aðstoðarmaðurinn, skuggalegi prófessorinn o.s.frv.) og handritið er með því ömurlegasta sem hefur verið kvikmyndað. Þegar maður sér svona myndir verður maður að spyrja sig: AF HVERJU? Hverjum datt það í hug að þetta yrði góð mynd? Sæmileg mynd? La-la mynd?! Þessi mynd er svo óendanlega léleg að það yrði hrós að kalla hana ömurlega lélega. Lois Morneau á ekki að fá að gera kvikmyndir framar og legg ég til þess að honum verði refsað með því að þurfa að horfa á sköpunarverk sitt. Tvisvar í röð (oftar væri bara ómannúðlegt). Ég verð að kalla þessa mynd þá verstu sem ég hef séð vegna þess að allar aðrar lélegar myndir hafa a.m.k. einhvern einn hlut sem hægt væri að gefa meira en 2 af 10. Bats gerir ekki nokkurn skapaðan hlut sem ég gæti hugsað mér að gefa meira en 1 af 10 í einkunn og ef ég fengi að ráða þá fengi hún mínus-einkunn. Svona -100, eða eitthvað þar um bil. Ekki sjá Bats. Ekki.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Mission to Mars
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Brian De Palma sem er þekktur fyrir allt annað en lélegar formúlumyndir hefur með þessari mynd gert aðra Bonfire of the Vanities - nema bara verri. Það var sársaukafullt að fylgjast með hverri klisjunni á fætur annarri og lélegum leikhóp fara með ömurlegustu línur fyrr og síðar. Einnig stelur þessi mynd taumlaust frá 2001: A Space Odyssey, Contact, The Abyss og jafnvel Event Horizon. De Palma er greinilega kominn yfir Hitchcock-obsessionið sitt og hefur snúið sér til Kubrick. En hvernig hann getur lagst svo lágt að stela svona miklu - og að hafa það svona líkt! - er mér hulin ráðgáta. Tónlistin eftir Ennio Morricone er hræðileg. Morricone hefur um árin fest sig í sessi sem einn fremsti tónsmiður kvikmyndanna, en hallærisleg orgel - og mambótónlist á engan veginn við í vísindaskáldsögu. Mission to Mars má samt eiga það að vera ofsalega fyndin, en heimska hennar og rökleysa er oft á tíðum óborganleg. En myndin er fyrst og fremst léleg, og góðar brellur (sem eru ekkert svo góðar hérna) gera lítið til að fela þá staðreynd.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Dracula
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Bram Stoker's Dracula eftir Francis Ford Coppola er algjört meistaraverk sem átti mikið betra skilið en gagnrýnina sem hún fékk þegar hún kom út. Að vísu er hún rosalega over-the-top, en þegar allir leikararnir reyna að stela senunni af hvort öðru verður útkoman alltaf ýkt. Gary Oldman sýnir hér ótrúlegan leik sem greifinn með beittu tennurnar og ekki eru síðri þau Winona Ryder, Anthony Hopkins og Sadie Frost. Eini lösturinn við myndina er Keanu Reeves sem, með litlum tilþrifum, staulast stirðbusalega gegnum myndina með versta enska hreim sem heyrst hefur í langan tíma. Allar sviðsmyndir eru til fyrirmyndar, búningar í hágæðaflokki og falleg tónlist Wojciech Kilar skilar svo sannarlega sínu. Ótrúlega frábær mynd!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Anna and the King
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það er athyglisvert að horfa á þessa mynd þegar maður veit að hún (ásamt The Beach, Fight Club og Titan A.E.) var þess valdandi að Bill Mechanic, einn af stórlöxum 20th Century Fox, neyddist til að segja af sér. Ekki það að þessar myndir hafi verið neitt lélegar (þ.e. Fight Club og Anna) heldur fengu þær litla aðsókn í Bandaríkjunum. Maður skilur það svo sem vel þegar horft er á Anna and the King; hún er einfaldlega OF löng. En það er eiginlega eini stóri gallinn. Jodie Foster, sú fullkomna leikkona, leikur Önnu Leonowns - breska kennslukonu sem ferðast til Síam til að kenna börnum Mongkuts konungs hefðir hins vestræna heims. Anna byrjar strax á því að hneyksla konung og menn hans með því að fylgja ekki hefðum Síams og öðlast hún þar með virðingu konungsins og með þeim skapast samband sem maður veit að mun enda í ástarsambandi. Anna and the King er stórfengleg ástarsaga með ævintýralegu ívafi eða stórfenglegt ævintýri með rómantísku ívafi. Hvernig sem litið er á myndina virkar hún. Frábær leikur allra leikara, yndisleg sviðsmyndin og frábærir búningar einkenna myndina en eitt verð ég þó að setja út á, jafnvel tvennt: kvikmyndatakan (í höndum Caleb Deschanel) var ekki nógu tilþrifamikil sem og tónlistin og gera þessi tvö atriði það að verkum að myndin verður ekki jafn stórfengleg og hún hefði getað verið. Adrian Biddle og John Williams hefðu getað bætt þessa mynd svo um munar. En nóg um það. Anna and the King er frábær mynd sem átti skilið mun meira lof þegar hún var sýnd í kvikmyndahúsum. Við getum bætt það með því að leigja hana og hvet ég ykkur til að gera það!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Being John Malkovich
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það er ekki annað hægt en að gefa þessari mynd fullt hús! Aldrei hef ég séð slíkt rugl og kjaftæði í kvikmynd, en vegna þess að þetta er algjört rugl og kjaftæði er þetta frábært. Ekki spurja af hverju, það bara er svona. Myndin er flott og fyndin, súrrealísk og hefur boðskap(!). Leikarar standa sig allir vel, þá sérstaklega Cameron Diaz, John Cusack, Catherine Keener og Malckovich sjálfur. Spike Jonze er upprennandi stjarna og Charlie Kaufman er hæfileikaríkur, en svolítið ruglaður, handritshöfundur. Þú munt líklegast aldrei sjá svona mynd aftur og þess vegna skaltu gera það núna! STRAX!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Sleepy Hollow
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þessi mynd er í einu orði sagt: YNDISLEG! Hún er svo frábær að það er erfitt að útskýra það með orðum. Þið verðið bara að sjá hana. Tim Burton er snillingur sem getur ómögulega gert verulega lélega mynd, og er ég ekki að ýkja þegar ég segi að þetta sé ein af hans bestu myndum. Stíllinn, myndatakan, leikararnir, búningarnir, handritið og allt annað er algjörlega fullkomið. Það skemmtilegasta við myndina er samt hvernig plottið leyfir áhorfandanum að fatta sig á meðan persónur myndarinnar gera það, við þurfum þess vegna ekki að hugsa lengi vel um það eftir myndina og við föttum það heldur ekki áður en við eigum að gera það. Fullkomið plott. Sjáið hana tvisvar - þrisvar - og kaupið hana. Tim Burton: þú er hér með kominn í algjöra guðatölu!!!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Dogma
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Nýjasta mynd Kevin Smith, Dogma, er í einu orði sagt frábær! Myndin, sem er ádeila á trú og kirkju, segir frá englunum Loki og Bartleby sem búa nú á jörðinni eftir að Guð sparkaði þeim af Himnum. Þeir komast að því að þeir eiga möguleika á því að komast aftur til Himna með því að skera af sér vængina, fara inn í kirkju í New Jersey og deyja. En ef þeir gera það verður Guð að hleypa inn englunum sem hann var búinn að banna, og það þýðir að Guð hafi gert mistök. Og ef Guð hefur gert mistök þá verður heimurinn ekki til lengur. Til þess að stöðva þetta er Linda Fiorentino send, ásamt Jay og Silent Bob, lærisveininum Rufus og skáldagyðjunni Serendipity, til New Jersey þar sem hún á að koma í veg fyrir að englunum takist að fara inn í kirkjuna. En ill öfl reyna að koma í veg fyrir að henni takist þetta og að lokum er aðeins ein vera sem getur bjargað heiminum: Guð! Þessi mynd er frábær. Hún skemmtileg, vel leikin og hún er fyndin. Ég er ekki mikill trúmaður, en ég skemmti mér konunglega þegar var verið að gera grín að því litla sem ég kann í kristnum fræðum. Þessi mynd er ekki fyrir alla, sérstaklega ekki þá sem eru mjög trúaðir, en fyrir hina er hún hin besta skemmtun, og þið sjáið ekki eftir 650 kallinum!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Superstar
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það er ekki oft sem mynd kemur mér algjörlega á óvart, en Superstar gerði það svo sannarlega. Ég fór á hana haldandi að hún yrði lítið annað en B-útgáfa af myndum eins og American Pie; mynd sem myndi fá mig til að hlæja nokkrum sinnum en lítið meira. Raunin var önnur. Superstar er ein af skemmtilegustu gamanmyndum síðari ára og þakka má hinni óviðjafnanlegu Molly Shannon fyrir það. Hlutirnir sem þessi kona gerir... Maður getur ekki annað en hlegið. Eins og í flestum gamanmyndum hitta ekki allir brandararnir í mark (persónan "Guð" var t.d. mjög misheppnuð) en húmorinn í þessari mynd er svo miklu betri, ferskari og svartari en í hinum þreyttu unglingamyndum að manni er alveg sama. Þessi mynd gerir, líkt og Scream, (ó)beint grín að öðrum myndum sömu tegundar á meðan hún fylgir öllum klisjunum og verður útkoman frumlegri og skemmtilegri fyrir vikið. Ef þið viljið skemmta ykkur konunglega þá mæli ég eindregið með Superstar, en hún mun koma ykkur skemmtilega á óvart!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Summer of Sam
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þegar Spike Lee gerir kvikmynd þá má búast við, eins og frá Oliver Stone, mynd sem er fersk, öðruvísi og mögnuð. Summer of Sam er þetta allt og meira til. Þegar u.þ.b. hálftími var búinn af þessari mynd var ég mjög reiður fyrir að hafa ekki drullast með mig á þessa snilld í bíó þar sem allir kvikmyndaáhugamenn áttu að sjá hana, en á video stendur hún alveg fyrir sínu. Myndin gerist sumarið 1977 þegar fjöldamorðinginn Dave "Son of Sam" Berkowitz gekk berserksgang og myrti ungt fólk í hverfum New York. Sagan um Berkowitz gegnir aðeins því hlutverki að skapa ofsóknaræði hjá aðalpersónum myndarinnar sem eru feikilega vel leiknar af John Leguizamo, Miru Sorvino, Adrien Brody og Jennifer Esposito. Það var nú Esposito sem kom mest á óvart en þegar maður þekkir hana aðeins úr myndum eins og I Still Know What You Did... og þáttunum Spin City býst maður ekki við miklum leiksigrum í öðrum myndum. Esposito blæs á allt þetta með afbragðsgóðum leik og er á góðri leið með að verða upprennandi stjarna. Tónlistin, andrúmsoftið, krafturinn og skemmtilega upphugsað handrit gera Summer of Sam að algjörri skylduáhorfsmynd.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Scream 3
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Jæja þá... Ég fór á miðnæturforsýninguna á Scream 3 á föstudagskvöldið. Ég er mikill aðdáandi fyrri myndanna tvegga og var þess vegna mjög spenntur fyrir þessari. Myndin byrjar mjög skyndilega - án fyrirvara, jafnvel - og fellur þessi mynd ekki í sömu gryfju og Scream 2 með því að hafa mjög langan og óspennandi kafla frá fyrsta morði til þess næsta. Nei, Scream 3 skellir öllu framan í þig á tiltölulega stuttum tíma og nær miklu adrenalín-rushi úr bíógestum fyrir vikið. Eitt af því skemmtilegasta við þessa mynd er hversu fyndin hún er, en oft á tíð leið mér eins og ég væri að horfa á grínmynd. Hinar myndirnar voru fyndnar, en þessi er farsi. Fullt af in-joke-um fyrir aðdáendur þess háttar. En það voru margir gallar: Persónurnar voru mjög þunnar og síðustu 20 mínúturnar - eða alveg frá því að morðinginn(arnir) er(u) upplýstur(ir) - eru hræðilegar. Allt lokaatriðið í húsi framleiðandans er mjög skemmtilegt og vel gert og má hið sama segja um alla myndina. Hún á kannski ekki skilið þrjár stjörnur, en ég skemmti mér það vel að ég ætla að vera gjafmildur í dag. En þessi mynd er eingöngu fyrir þá sem höfðu gaman af fyrri myndunum. Báðum! Aðrir ættu að sjá eitthvað annað.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Pitch Black
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Pitch Black er mjög einföld mynd sem fjallar um nokkrar manneskjur á yfirgefinni eyðimerkurplánetu sem þurfa að berjast við morðóðar geimverur sem lifa í myrkri. Það þarf því ekki að taka það fram að þessi mynd er ekki listaverk og ætti enginn að fara á hana með því hugarfari. Enda efast ég um að einhver muni gera það. Ef þið höfðuð gaman af Deep Rising eða The Relic og fleiri slíkum myndum mun ykkur ekki leiðast á Pitch Black, sem samt sem áður er ekki jafn góð og ofangreindar myndir. Leikstjórinn David Twohy gerir sitt besta með því litla fjármagni sem hann hefur og tekst að gera sæmilega vísindaskáldsögugeimhrollvekju sem á sínar góðu stundir sem og vondu. Sem betur fer eru góðu stundirnar fleiri og vondu stundirnar mun skárri en t.d. þær í myndum eins og Soldier eða Virus. Leikararnir standa sig skítsæmilega og klisjukennt, á tíð heimskulegt, handritið heldur okkur við efnið án þess að þykjast vera ofsalega gáfað. Ef það er eitthvað sem reis upp úr meðalmennskunni var það myndatakan sem er á tíð mjög flott. En þegar upp er staðið er Pitch Black lítið annað en ágætis vísindaskáldsögu B-mynd sem aðeins þeir sem fíla þannig myndir (þið vitið hverjir þið eruð) ættu að sjá. Aðrir eiga eftir að verða fyrir vonbrigðum.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Reindeer Games
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Fyrst Mission to Mars og svo þessi? Nei, ég er ekki að tala um Gary Sinise, heldur um þær myndir sem ég hef valið að sjá undanfarnar helgar. Mission to Mars var algjört rusl; leiðinleg, heimskuleg og fáránlega fyndin. Reindeer Games er allt þetta nema hvað að hún er svo aumkunarverð að það er varla hægt að hlæja að henni, þrátt fyrir ömurlegasta loka-twist sem ég hef séð. Ben Affleck er ekki góður leikari. Það má kannski hafa gaman af honum í aukahlutverkum en þegar hann er á skjánum næstum því alla myndina verður manni óglatt. Charlize Theron er mjög falleg leikkona sem ég hef oft sagt að eigi eftir að "meika-það", en ef hún heldur áfram á þessari braut má Tori Spelling fara að vara sig! Gary Sinise er farinn að taka mjög vitlausar ákvarðanir þegar kemur að kvikmyndum og sportar hann hér hallærislegustu hárkollu kvikmyndasögunnur, auk þess sem persónan hans er algjör klisja frá upphafi til enda. Það versta samt við myndina er að Ehren Kruger, sem gerði hina frábæru Arlington Road, er orðinn svo upptekinn af plot-twistum að hann hefur þá of marga og þegar þeir eru orðnir of margir verða þeir leiðinlegir. Wild Things þjáðist af sama vandamáli, en John McNaughton bjó samt til skemmtilega mynd - John Frankenheimer gerir það ekki. Eftir hina afspyrnuslöppu Ronin gerir hann aðra klisju nema án góðra leikara og án bílaeltingaleikja. Ég varð móðgaður af Reindeer Games vegna þess hversu heimsk hún var og ég ætla að fara að velja betri myndir til að fara á í bíó, en ég vara ykkur lesendur við: EKKI SJÁ REINDEER GAMES!!!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Green Mile
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

The Green Mile var mynd sem ég hafði beðið lengi eftir. En hún stóðst engan veginn væntingar. Í fyrsta lagi verð ég að segja að þessi mynd var OF löng! Kallið mig brjálaðan, ég veit að ýmsum finnst það, en mér fannst þessi mynd mun lengri en hún hefði átt að vera. Einnig var henni oft á tíð ofleikstýrt og leikararnir voru ekki alltaf nógu sannfærandi. Í stóra "lokaatriðinu" sem ég mun ekki ræða mikið nánar hér var t.d. mjög fyndið að sjá Barry Pepper grátandi. Sú sjón var bara of fáránleg til þess að atriðið gæti orðið fullnægjandi sorglegt. Einnig var ég alltaf að bíða eftir fullnægjandi endi á myndina, eins og var í Shawshank. En The Green Mile var ekkert að flýta sér að klárast - nei, nei hún heldur áfram endalaust og á endanum finnst manni allt þetta vera heldur bjánalegt. Allar fangelsisklisjurnar sem gerðu Shawshank "frumlega" eru frekar leiðinlegar hérna og þrátt fyrir að leikararnir geri sitt besta, þá eru margar persónur bara og svarthvítar. En ég er kannski að dæma hana of hart. Að vísu leiddist mér mjög mikið undir lok myndarinnar, en flest það sem gerist þangað til er mjög gott - jafnvel frábært. En eins og ég hef oft sagt, þá verður myndin að enda jafn frábærlega og það sem á undan kom - eða betur - annars yfirgefur maður myndina, finnandi fyrir vonbrigðum.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Magnolia
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég hef ekki hugmynd um hvað ég á að segja um Magnolia. Ég get ekki sagt að hún sé frábært meistaraverk vegna þess að hún var það ekki. Ég get ekki heldur sett mikið út á hana vegna þess að hún var svo ótrúlega vel gerð í nær alla staði. Það sem mér fannst vanta var einhver tilfinninga-áherslumunur, aðeins betra handrit (myndin spilar eins og The Six Degrees of Seperation hittir Guiding Light) og betri klippari sem hefði getað útskýrt fyrir Paul Thomas Anderson að lengd þýðir ekki meiri gæði. Þrátt fyrir alla þessa lengd tókst Anderson alls ekki að gera sumar persónurnar nógu áhugaverðar eða skemmtilegar til að ég hefði einhvern áhuga á því að halda áfram að horfa á myndina. Raunverulega voru aðeins tvær sögur sem ég hafði gaman af og voru það sögurnar með Tom Cruise, Jason Robards, Julianne Moore og Philip Seymour Hoffman. Hinar persónurnar snertu mig aldrei eins og þær gerðu t.d. í American Beauty eða Dancer in the Dark. En málið alls ekki svona einfalt: þrátt fyrir að mér sé sama um persónurnar er ekki annað hægt en að dást að öllum leikhópnum því að ekki einn einasti leikari gerir neitt rangt. Þessi mynd er 100% óaðfinnanlega leikin af öllum sem koma fram. Góðu partarnir eru einnig snilldarlega vel skrifaðir þó að hún minni allt of oft á sápuóperu, sem er tæknilega það sem Magnolia er: sápuópera sem er vel gerð af fagmönnum. Short Cuts var mjög sipuð en samt aðeins myrkari og ekki alveg jafnmikil sápa. Myndin samanstendur af nokkrum sögum sem allar tengjast á einhvern hátt (ekki samt búast við endi þar sem öll púslin falla niður og skapa eina glæsilega heildarmynd - það gerist ekki) og eins og formálinn segir okkur snýst myndin um það að ekkert sem gerist er tilviljun. Myndataka og tónlist eru til fyrirmyndar en yfirgengileg lengdin eyðileggur of mikið. Hvenær munu leikstjórar í Hollywood læra að mynd þarf ekki að vera 3+ tímar að lengd? Ég get fyrirgefið hvaða lengd sem er á meðan ég er ekki alltaf að líta á úrið mitt en það gerði ég oft á meðan horfði á Magnolia. Það hefði verið auðvelt að klippa ýmislegt út - ýmislegt sem raunverulega skipti engu máli. Sagan um gáfaða strákinn og pabba hans og svo sagan með William H. Macy hefðu alveg mátt missa sín, þrátt fyrir að vera ofslaega vel leiknar o.s.frv. Þessar tvær sögur (ásamt mörgum öðrum atriðum) hefðu alveg getað farið án þess að breyta miklu en þegar leikstjóri fær að gera allt sem hann vill (eins og Anderson fékk) þá er erfiðara fyrir hann að sjá hvað virkar og hvað ekki. Munið einnig að M. Night Shyamalan fær að ráða öllu við gerð Unbreakable og get ég næstum því ábyrgst það að hún muni innihalda ógrynni af atriðum sem má klippa út. Ég ætla að setja Magnolia í hóp mynda eins og The Green Mile og The Talented Mr. Ripley (þó hún sé óendanlega betri en báðar þeirra); allt of löng en hefur þó einhverja góða kosti. Reyndar hefur þessi mynd mjög marga góða kosti en ég get ekki afskrifað lengdina þeirra vegna. Og eitt að lokum: atriðið þar sem Julianne Moore brotnar niður í apótekinu er ótrúlega frábært og ætti fólk að leigja myndina bara til að sjá það.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Drop Dead Gorgeous
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Drop Dead Gorgeous er mynd sem ég hef beðið eftir í mjög langan tíma, eða alveg frá því að hún var sögð ein fyndnasta mynd síðasta árs. Hún er kannski ekki svo góð, en góð er hún og vel þess virði að sjá. Ef þið hafið lesið eitthvað um þessa mynd þá vitið þið að hún fjallar um fegurðarsamkeppni sem endar í miklum ósköpum. Leikararnir standa sig mjög vel, Kirstie Alley og Denise Richards eru fullkomnar sem rík móðir og ofdekruð dóttir, Kirsten Dunst er á góðri leið með að verða áhugaverðasta leikkona í Hollywood og Ellen Barkin er fyndin, en frekar lítið notuð í myndinni. Húmorinn er á tímum alveg frábær (t.d. mæmið sem fyrrverandi fegurðardrottningin flytur í hjólastól) en það kemur kannski engum á óvart að hann ætlaður Ameríkönum sem eiga örugglega auðveldara með að fatta marga brandara. Loka mínúturnar voru kannski svolítið langdregnar, en í heildina er Drop Dead Gorgeous mjög ánægjuleg lítil mynd!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Talented Mr. Ripley
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Jæja, þá eru það vonbrigði ársins! The Talented Mr. Ripley inniheldur ýmislegt gott, t.d. frábæra leikara, myndatöku og tökustaði en hún er því miður alveg grútleiðinleg. Það tekur hana heila eilífð að komast að leiðarenda en þegar þangað er komið hefur hún raunverulega ekki farið neitt og maður fær engan enda sem er nógu fullnægjandi.Þetta er svona týpísk mynd sem virðist hafa eitthvað að segja og maður fylgist með henni þess vegna en þegar allt kemur til alls sér maður að hún fór bara langar, leiðinlegar krókaleiðir til að leyna því hversu innantóm og hol hún raunverulega er. Og ef Minghella hefur ætlað sér að segja eitthvað þá hefur hann bara því miður gleymt sér í yndislegu landslaginu, sem er það eina sem heldur manni við skjáinn. Leikararnir standa sig allir frábærlega með tölu en túlka flest allir leiðinlegar, óspennandi og spilltar persónur sem ekki er hægt að vorkenna og einu áhugaverðu persónurnar (leiknar af Philip Seymour Hoffman og Cate Blanchett) koma og fara án þess að bjarga miklu. Ef Minghella hefði bara vandað handritið jafnmikið og hann vandaði myndatökuna og heildarútlitið þá væri hér á ferðinni einstök kvikmynd, en útkoman er ekkert annað en leiðinleg ofur-dramatísk þvæla með "spennuívafi". Það kom mér einnig mjög mikið á óvart hversu djúpt var kafað ofan í nær allar persónurnar nema Tom Ripley sem maður hefur enga hugmynd um hver er (heitir hann Ripley, eða hvað?). Tom Ripley er greinilega andhetja en þrátt fyrir það hefur maður enga samúð með honum og þess vegna er ekki hægt að ætlast til þess að hann geti verið stoð og stytta myndarinnar. Það er ekki hægt að segja að ætlunarverkið hafi tekist vel þegar fólk vill sjá aðalpersónuna í fangelsi. Ég vil svo minnast aftur á Cate Blanchett, sem er alveg stórkostleg leikkona. Hún lítur glæsilega út hérna og leikur alveg jafnvel og get ég ekki beðið eftir nýjustu mynd hennar, The Gift. Go go Blanchett. Það má kannski segja að Ripley hafi verið hæfileikaríkur, en svo virðist sem að Minghella sé það ekki. A.m.k. ekki í sama magni og áður.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei