Náðu í appið
Gagnrýni eftir:



Lilja 4-ever
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Höfnun, hræðsla, svik, örvænting, andlegt og líkamlegt ofbeldi, niðurlægingar, nauðgun.. Áföllin sem aðalpersónan, Lilya, verður fyrir eru einhver þau verstu sem óharðnaður unglingur getur orðið fyrir og kemur myndin vel til skila tilfinningalegri dýpt þeirra viðbragða sem eru hér óumflýjanleg hjá unglingsstúlku sem hvorki hefur þroska né fær stuðning til að vinna úr áföllunum sem hún verður fyrir á mjög stuttum tíma, þegar líf hennar skyndilega kúvendist úr að því er virðist harmonískt líf í algjört öryggisleysi. Lilya er ósköp venjulegur unglingur sem býr með móður sinni og er í skóla. Móðir hennar yfirgefur hana og hafnar henni fyrir mann sem hún tekur saman við og flytur með til U.S.A. Lilya er hreinlega skilin eftir, fjölskyldulaus og hún missir algerlega fótfestuna þar sem hún er óharðnaður unglingur og hefur engar forsendur til að ná fótfestu þar sem félagsþjónustan bregst algerlega og frænka hennar sem átti að annast hana er fárveikur veruleikafirrtur alkóhólisti sem svíkur hana einnig. Það sem gerir þessa mynd snilldarverk er einfaldleikinn, þetta er týpísk “low-budget” kvikmynd sem einmitt gerir það að verkum að hún skilar boðskapnum til áhorfandans á einfaldan hátt sem hittir beint í mark. Án flókinnar “Hollywood-glamúrs-drama-væmni”, heldur eins og að vera áhorfandi að raunveruleikanum sem þessi mynd einmitt fjallar um. Leikstjórinn, Lukas Moodysson (Fucking Åmål) sýnir hér og sannar hæfileika sem við höfum áður séð hjá t.d. Lars Von Trier og Bille August. Það að koma efninu til skila á þennan einfalda hátt, með þvílíkri dýpt, er hreinlega algjör snilld. Snertir viðkvæmar tilfinningar okkar sem þekkjum sorg og sársauka. Eftir að hafa séð Lilya4-ever, fyllist maður auðmýkt og þakklæti fyrir eigið hlutskipti, um leið og hugtakið mannsal verður raunverulegra.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei