Náðu í appið
Gagnrýni eftir:



Enough
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég var ekkert að koma mér allt of vel fyrir þegar ég settist í sætið mitt í bíósalnum, bjóst við því að hlaupa út þá og þegar sökum þess að Jennifer Lopez og allt sem frá henni kemur hafði þar til verið mér sem ískur á krítartöflu, blautir vettlingar... einfaldlega andstyggð. Ég hafði ekkert álit á henni sem leikkonu, hvað þá söngkonu.

Það kom mér mikið óvart hvað hún fór vel með þetta. Myndin náði sér afskaplega vel á strik þegar síga fór á seinni hlutann, fyrri hlutinn hafði verið dálítið svona... hm. Maður var látinn bíða full lengi eftir því að hún hætti að væla.

Það hefði þó mátt gera miklu meira úr bardagaatriðunum og öllum þeim hluta í heildina, látið hana nota flottari tækni, auk þess sem kaflinn þegar hún var að æfa tæknina virkaði ekki mjög vandaður og maður fékk dálítið á tilfinninguna að sumir hefðu verið að flýta sér.

Að lokum verð ég að minnast á það hvað litla stelpan hennar fór í pirrurnar á mér, hún talaði á háa c allan tímann!

Hárgreiðslan hennar Jennifer er ljót, lagið Alive er leiðinlegt en að öðru leyti er þetta fínasta spennumynd.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Orange County
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Úff. Þessi mynd, ó þessi mynd.

Ég skrapp á hana einhvern sunnudaginn og var alveg mátulega bjartsýn, enda grunaði mig að þarna væri um að ræða unglingaklisju í anda amerísku unglingamyndanna sem hafa tröllriðið vesalings heiminum undanfarin ár. Ég hafði því miður rétt fyrir mér. Þó kom það mér á óvart hve mikið var vikið frá formúlusöguþræði fyrrnefnds bíómyndaviðbjóðs (...og nördinn fékk sætu gelluna eða öfugt) þar sem myndin gekk út á það að aðalsöguhetjan var að reyna að komast inn í Stanford University.

Ein meginástæðan fyrir því að ég lét mig hafa það að fara á myndina var sú að ég bjóst við því að ef hún yrði alveg hörmuleg, þ.e. illa skrifuð, slitinn húmor osfrv. þá gæti snillingurinn Jack Black haldið henni uppi. En enn og aftur, vonbrigði með það.

Nammið sem ég át með myndinni er það eina jákvæða sem ég get tengt þessari lífsreynslu.


Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei