Ég efa einhvern veginn ekki að Seth MacFarlane sé ákaflega hress, fínn og kammó náungi með húmorinn í lagi og nostalgíublæti að mínu skapi. Ég var einu sinni miklu stærri aðdáandi hans en ég er í dag, sem getur annaðhvort þýtt að ég hafi þroskast úr dreng í mann eða MacFarlane missti hreinlega bara dampinn með því besta sem hann hafði, eða allavega því sem ég fílaði alltaf mest.
Ted er skemmtileg og metnaðarfull en í senn metnaðarlaus tilraun hjá MacFarlane til að prufukeyra eitthvað nýtt. Hvað feril og fjölbreytni varðar tekur maðurinn stórt stökk inn í heiminn út fyrir teiknimyndirnar en glöggir aðdáendur sjá það strax að þessi nýi karakter, Ted, sé eins og pakkaður Family Guy-farangur sem skaparinn hefur dregið með sér á ekta bíósett (með alvöru fólki). Prýðilega heppnuð persóna reyndar, en alltaf þegar ég horfi á graða, freðna leikfangabangsann með sorakjaftinn á ég erfitt með að sjá fyrir mér annað en að MacFarlane hafi sameinað Brian og Stewie Griffin (ásamt bangsanum hans, Rupert) í einn karakter með röddinni hans Peter. Það kæmi mér heldur ekki á óvart að MacFarlane hefði verið nýbúinn að horfa skakkur á Spielberg-myndina A.I. áður en þessi varð almennilega til.
Það má vera að MacFarlane setji á sig leikstjórahúfuna í fyrsta sinn fyrir framan efni sem er ekki teiknað, en það er skammarlega augljóst að alls ekki hefur verið gramsað lengi eftir ferskum hugmyndum. Hvorki í tengslum við efnistökin eða bara húmorinn almennt. Það er reyndar ekki eins og Family Guy eða hinir þættirnir séu angandi af fjölbreyttum tegundum af kómík (formúlan er yfirleitt eins en bröndurunum skipt út) og ef rætt er um söguþræði er venjulega ekki annað hægt að segja en: „Þetta sleppur svosem.“ Ef við miðum samt t.d. við Family Guy, þá eru söguþræðir og aðstæður yfirleitt bara afsökun til að stilla upp næsta skets, hvort sem samhengið helst eða ekki. Þetta væri gild afsökun í Ted ef hún væri tussufyndin í öllum atriðum, en hún er ekki alveg þannig. Það kemur einnig vægast sagt á óvart hve alvarlega hún tekur sig á köflum. Hún er fyndin en ekkert geðveikislega fyndin nema á nokkrum útvöldum stöðum.
Það er ein hlið af mér sem spáir ekkert í því hvernig svona steikt gamanmynd byggir upp handrit sitt og vill helst bara njóta hressleikans. En svo er önnur hlið sem vill bara helst kalla þetta miðjumoð og rýna sterkt í það hvað sagan og stefnurnar í henni eru brandaralega klisjukenndar. Það liggur við að það sé hægt að tímasetja það fyrirfram hvenær söguþráðurinn klessir á enn einn formúluvegginn og að mínu mati er það risastórt vandamál hversu fyrirsjáanleg myndin er. Eins og ég segi, þá hefði aðeins topp-topphúmor getað reddað þessu fyrir fullt og allt.
“Hreinræktaður Seth” væri besta lýsingin mín fyrir þessum húmor, vegna þess að hægt er að túlka það á fleiri en einn veg. Ef þú elskar jafnvel hina slökustu Family Guy-þætti er ég viss um að myndin sendi þig burt glottandi eins og grashaus á opnu hlaðborði. Ef þú þolir ekki megnið af því sem hann hefur gert, haltu þig þá frá þessum bangsa. Ef þú fílar hins vegar sumt alveg í klessu, annað ekki og segir að lopinn sé margoft teygður á röngum stöðum, þá ætti þér að finnast þessi bara nokkuð fín. Giskið svo endilega hvar ég stend, eins og það sé ekki álíka augljóst og megnið af plotttengdu stefnunum í þessu handriti.
Það eru þó hlutir sem gera Ted að brattri og ljómandi góðri afþreyingu. Gallar eru ýmsir og (mis)alvarlegir en yfir heildina séð er það fátt sem kætir mann meira en að sjá Mark Wahlberg eiga dýnamískt samspil við stóran, tölvugerðan leikfangabangsa (sem lítur afskaplega vel út! Takið sérstaklega eftir því hve mikið er lagt í sum smáatriðin). Hann getur tekið sig vel út sem smávaxinn harðhaus, náð ágætis dramaleik en hefur frábær tök á gríninu vegna þess að maður sér strax hve mikið hann leggur sig fram. Ég hló endalaust að honum í The Happening og The Other Guys og á meðan ég horfði á Ted öðlaðist ég allt aðra virðingu fyrir honum. MacFarlane gerir það sem hann gerir best með röddinni sinni en Wahlberg er gæinn sem selur vináttuna, einlægnina og yfirleitt húmorinn líka. Í þokkabót hef ég sjaldan séð hann svona viðkunnanlegan, alveg sama hversu gallaður karakterinn hans á að vera.
Á svona setti held ég að rétti félagsskapurinn skipti öllu og hér sýnist mér allir vera umkringdir góðum kunningjum. Mila Kunis (mótilekkona Wahlbergs úr Max Payne) og Giovanni Ribisi (mótileikari Wahlbergs úr Contraband) fá einnig að vera virkir þáttakendur í flippinu en flestir hverfa í skugga tvíeykisins í forgrunninum. Kunis er alltaf jafnheit og hress, sem er gott. Ribisi hefur takmarkaðar stillingar þegar hann reynir að vera fyndinn (oftast vafasami sveitalubbinn eða algjör lúði) en að sjá svona áhugasaman leikara gera sig að algjöru fífli þykir mér alltaf býsna gaman. Því miður fannst mér samt fyrirsjáanlega „plot device-ið“ frekar draga myndina niður í stað þess að styrkja hana. Lokaspretturinn er pottþétt slakasti parturinn. Sést þar best að MacFarlane er enn svolítill amatör í að skjóta eltingarleiki.
Ég kæmist að vísu ekki í gegnum daginn án þess að brosa til Community-leikarans/Soup-stjörnunnar Joel McHale. Hann gerir hér fullkomlega það sem hann gerir best og er hann alltaf hárrétti maðurinn í myndarlega skíthælinn. Hápunkturinn hans er þegar hann kynnir Wahlberg fyrir safngripum sínum. Eins og gengur og gerist í svona myndum er einnig boðið upp á nokkur stórfín cameo-móment. Fæst þeirra koma á óvart en eru góð engu að síður. Síðan er ónefndur ofurhetjuleikari dreginn alveg upp úr þurru og er ekki lengi að breytast í einn eftirminnilegasta brandara myndarinnar.
Það er svakalegt Family Guy-bragð af þessu öllu, allt frá hegðunum persóna til senuuppbygginga og sambærilegu melódíunnar í músíkinni. MacFarlane hellir líka risastórum skammti af sínum eigin persónuleika í þetta, eins og hann gerir með flestallt. Þungur skammtur af ’80s nostalgíu fylgir oft með þessum húmorista og í þessu einstaka tilfelli er ég afar feginn að einhver annar deilir sömu umhyggju fyrir Flash Gordon (þeim elskulega sora) og ég. Lækkaðu þessa einkunn niður um einn heilann ef þú tengir þig ekki við nostalgíuna. Hún er ansi stór partur hér.
Ted er annars sjálfumglöð mynd og stundum ódýr, en hún heldur þokkalegum dampi og reynir að fá mann til að standa ekki á sama um alla. Sem betur fer er hún yfirleitt jafnfljót að pikka upp jákvæð stig um leið og hún missir nokkur. Ætli MacFarlane sé kannski að nýta sér klisjukennda efniviðinn viljandi til að halda sér í takt við níunda áratuginn?
(7/10)
Nú er ég forvitinn að vita hvað frægu manneskjurnar sem nefndar eru í lokin hafa að segja um þessa mynd.
Einnig þætti mér vænt um það ef einhver myndi segja mér hvernig í feitum fjáranum Ted stundar kynlíf þegar hann hefur ekkert til þess að sveifla á milli fótanna…