Sá nokkuð einhver hérna vídeóið þar sem einhver gæi klippti saman allt kynningarefnið fyrir The Amazing Spider-Man og bjó til litla 25 mínútna útgáfu af myndinni (nánast með heilsteyptri frásögn)? Stúdíóin geta stundum gengið fulllangt með að sýna fullmikið úr einni bíómynd, eða kannski er bara ekki ætlast til þess að maður kíki á öll þessi sýnishorn, nema nördar eins og við hér á Kvikmyndir.is.
Samt, það er alveg sama hvað Warner ætlar að sýna oft úr þessari déskotans kvikmynd, þá verður maður ekkert minna spenntur fyrir henni. Nolan hefur lofað alvöru epík. Og það er löngu farið að sjást hvað hann átti við.
Allavega… Ný vika, ný stikla. Reyndar er þetta gömul stikla sem var frumsýnd á MTV kvikmyndaverðlaununum. Hún birtist á netið skömmu eftirá en hvarf síðan sporlaust. Mjög stuttu síðar kom út önnur stikla, þökk sé Nokia.
Þetta myndbrot er ekki að fara að bíta þig. Þetta er klikkað sýnishorn! En ég myndi samt ekki dæma þig ef þú segir pass og íhugar svo á hvaða forsýningu þú ætlar.
Ert þú komin/n með miða á forsýninguna annars?