Náðu í appið
Bönnuð innan 12 áraÍ myndinni er sýnd nekt og/eða þar er að finna kynferðislega hegðun eða tilvísanirÍ myndinni er ljótt orðbragð

Beastly 2011

Fannst ekki á veitum á Íslandi

Frumsýnd: 22. júní 2011

Love is never ugly

86 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 21% Critics
The Movies database einkunn 40
/100

Kyle Kingson á allt sem hugurinn girnist. Hann er fallegur, gáfaður, ríkur og hans bíða ótal tækifæri. En hann er duglegur við að gera gys að öðrum og niðurlægja þá sem ekki eru eins fallegir og hann, t.d. bekkjarsystur hans og gotharann Kendru. Hann ákveður að bjóða henni út á risastórt skólaball til þess eins að svíkja hana þegar hún á síst von... Lesa meira

Kyle Kingson á allt sem hugurinn girnist. Hann er fallegur, gáfaður, ríkur og hans bíða ótal tækifæri. En hann er duglegur við að gera gys að öðrum og niðurlægja þá sem ekki eru eins fallegir og hann, t.d. bekkjarsystur hans og gotharann Kendru. Hann ákveður að bjóða henni út á risastórt skólaball til þess eins að svíkja hana þegar hún á síst von á því. Í ljós kemur að Kendra er í raun norn og til að hefna sín leggur hún á hann álög: hann skal ganga meðal manna sem það sem hann fyrirlítur mest: ófrítt úrþvætti. Kyle verður að sjálfsögðu brjálaður en Kendra segir honum að til þess að létta álögunum þurfi hann að finna einhvern sem elskar hann eins og hann er. Föður hans blöskrar svo útlit Kyle að hann sendir hann til Brooklyn með fóstru og blindum kennara. Þar sem Kyle gengur götur Brooklyn og veltir fyrir sér hvernig hann kemst úr þessari klípu hittir hann fyrir dópista sem hótar að drepa dópsalann sinn. Kyle lofar dópistanum frelsi í skiptum fyrir að dóttir hans Lindy búi hjá honum, í von um að hún læri að elska hans ófríðu ásjón. En það þarf meira til að létta álögunum...... minna

Aðalleikarar

Leikstjórn

Handrit

Tímamótaverk
Loksins segi ég nú bara! Loksins, kemur mynd sem skilur eitthvað eftir sig. Mynd sem gefur allt fyrir peninginn.

Eftir að hafa séð lokkandi umfjöllun um þessi spennandi kvikmynd í hinum marglofaða kvikmynda og menningarþætti Sjáðu með kvikmyndasérfræðingnum Ásgeiri Kolbeinssyni var mér ljóst að þarna var á ferðinni mynd sem enginn heilvita maður myndi láta fram hjá sér fara.

Stuttu eftir þetta fórum við þrír félagarnir á myndina. Reyndar krossbrá okkur þegar ég sá að það voru bara 5 manns í salnum fyrir utan okkur og það voru einhverjar 12 ára vinkonur. Líklega eru allir bara að djamma á föstudagskvöldum klukkan 20.

Hvað um það. Myndin hélt öllum í salnum í heljargreipum í 80 mínútur. Allir gátu tengt við persónurnar og samtölin voru óaðfinnanlega skrifuð.

Allir sem komu að myndinni skiluðu sínu fullkomlega og þá sér í lagi ungu stjórstjörnunar í aðalhlutverkunum. Ber þar helst að nefna stjörnu myndarinnar, Olsen systurina. Mary-Kate Olsen gjörsamlega átti þann skjátíma sem hún fékk. Algjörlega vanmetin leikkona sem mér finnst að ætti að fá mun fleiri tækifæri þarna úti.
Alex Pettyfer var með einsdæmum sannfærandi sem aðalhlutverkið enda maður sem flestir gætu látið sér nægja að horfa á ljósmyndir af tímunum saman enda afburða fagur leikari þarna á ferð. Hæfileikar ungu Vanessu Hudgens eru flestum kvikmyndaunnendum kunnugir. Hún á ógleymanleg augnablik með áhorfendum í þessari mynd. Geislar af fegurð og sannfæringu í sínum leik nú sem endra nær enda enn í hugum okkar flestra eftir frammistöðuna í myndum á borð við Thirteen og túlkunina á hinni ógleymanlegu Gebrielu Montez í HSM-þríleiknum góðkunna.

Eina sem við félagarnir skildum ekki alveg var þarna hommaleikarinn sem leik blinda gaurinn. Ég held að ég kannist við hann úr stórmyndinni "The best and the brightest" en hann var ekki að gera sérlega góða hluti hér, á miðað við marga aðra að minnsta kosti, að mínu mati.

Þessi mynd kemur góðum boðskap til skila, stendur fyrir sínu og lítur betur út en flestar þær myndir sem ég hef borið augu í kvikmyndahúsum þessa lands til þessa.

Allir standa sig með stakri prýði og útkoman er mynd sem hefur allt. Ég hugsa samt að þessi mynd sé ekki allra. Líklega munu gallharðir aðdáendur mynda á borð við Godfather og Goodfelles ekki njóta þessarar myndar enda augljóslega ekki um hundleiðinlega mynd að ræða í þessu tilfelli og því fellur þetta ekki í þeirra flokk.

Beastly er án efa óvæntasta kvikmyndahandrit sem sést hefur lengi og skildi alla bíógesti eftir í tómi. Mér finnst því óhætt að segja að Beastly sé pottþéttur pakki fyrir alla alvöru kvikmyndaunnendur.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Tilgangslaus, leiðinleg og léleg
Á undanförnum árum hafa komið talsvert mikið af live-action myndum af vel þekktum ævintýrum, hvort sem það er nútímaútgáfa, endurgerð eða framhald. T.d hafa komið myndirnar Alice In Wonderland, Ella Enchanted, A Cinderella Story, Pinocchio (ítölsk mynd frá þeim sama og gerði Life Is Beautiful, Roberto Benigni) og hef ég heyrt að það séu að koma út nýjar útgáfur af Little Mermaid, Snow White og Sleeping Beauty.

Eins og hefur oft komið fram þá er Beastly það sem kemur út ef Beauty And The Beast (en myndin er byggð á bók sem er nútímaútgáfa af sögunni) er blandað saman við Twilight. Þessi blanda virkar engan veginn fyrir mig því Disney útgáfan af sögunni er að mínu mati það besta sem fyrirtækið hefur gert undanfarin 70 ár og ég þoli ekki Twilight.

Að mínu mati virkar nær ekkert við þessa mynd. Handritið er lélegt og óminnugt, leikstjórnin er ekkert sérstök, leikurinn er lélegur og flæðið er fáranlegt. Annað hvort eru atriðin of löng eða flýta sér allt of mikið. Sambandið á milli parsins í myndinni er eitt það leiðinlegasta sem ég hef séð í dágóðan tíma. Samtölin á milli þeirra gera ekkert til að láta mann vilja að þau endi saman og eyðir Alex Pettyfer jafnmiklum tíma í að tala við stelpuna og stalka hana í fyrstu tveimur hlutum myndarinar. Karakterinn hans er óviðkunnalegur frá því að hann kemur fram fyrst og það bættist ekkert út myndina. Ég fann ekkert til með honum, hélt aldrei með honum og hann gerði ekkert sem hægt er að kalla minnugt og sama má segja um karakter Vanessa Hudgens.

Orðið ljótur er verulega grunnhyggið í þessari mynd. Samkvæmt bókinni átti karakter Vanessa að vera venjuleg unglingastelpa, sem er eitthvað sem Vanessa er ekki, og karakterinn sem Mary Kate Olsen leikur er oft kölluð ljót, þrátt fyrir að hún sé einungis Goth. Alex Pettyfer átti líka að breytast í skrímsli en eina sem breyttist við hann er að hann missir hárið, fær löng ör, tattú og önnur smáatriði. Skrímslið sem hann átti upphaflega að breytast í átti að leiða til þess að hann þurfti að reyna ótrúlega á sig til að fá einhvern til að líka vel við hann. Verðlaun hans fyrir það áttu að vera að geta komið aftur inn í samfélag frekar en að verða aftur fallegur. Það er ekki málið hér því hann er bara alls ekki það ljótur (get ekki einu sinni kallað hann ófríðan yfir heild) að hann þarf að fela sig og getur ekki haft samband við neinn. Svo bætir það ekki fyrir að skilaboðin um fegurð hafa komið oft áður og reynir myndin allt of mikið að þvinga þau í mann.

Myndin hefur samt tvo kosti: Neil Patrick Harris er sá eini í þessari mynd sem gerir eitthvað skemmtilegt við hlutverk sitt og kom mér einu sinni eða tvisvar að glotta. Hitt er útltið á Pettyfer, en örin og tattúið líta frekar vel út. Hvorugt af þessu er roslalega gott en þetta lætur myndina að minnsta kosti hafa einhverja kosti.

Beastly er óminnug, óáhugaverð, tilgangslaus með lélegu handriti en hefur fallegt fólk. Henni hlýtur að ganga vel á MTV-kvikmyndaverðlaununum á næsta ári.

3/10
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Óaðlaðandi gelgjufroða
Beastly er nákvæmlega það sem þú færð út ef þú tekur hina klassísku sögu um Fríðu og Dýrið og kvikmyndar hana fyrir unglinga, eða Twilight-hópana nánar til tekið. Hún er samt ekkert að fela það og virðist alveg vita hvað hún vill. Myndin vill vel og reynir að pína ofan í okkur hundgamlan móral og sýna að hún hafi hjarta, en hún þjáist allsvakalega fyrir slæm samtöl, ómarkvissa leikstjórn og slakar frammistöður frá ungu en fallegu fólki. Unglingamyndaglansinn með meðfylgjandi FM-tónlist kryddar beinlínis ekki upp á áhorfið heldur, eða skringilega flæðið (lengdin er ekki nema rétt rúmar 80 mínútur, með kreditlista, og myndin skiptist á því að flýta sér með sumar senur og taka sinn tíma með aðrar). Augljóst er að myndin er alls ekki að fara að ná út fyrir markhóp sinn, en hún gerir svosem enga tilraun til þess heldur og því er auðvelt að pirrast út í hana en erfitt að hata hana.

Ef þú ert semsagt ekki stúlka á aldursbilinu 10-14 ára þá mun Beastly gera skuggalega lítið fyrir þig og er satt að segja ógurleg tímaeyðsla. Það er jákvæðan punkt að finna og það mun vera hinn ávallt skemmtilegi Neil Patrick Harris. Hann gerir gott úr óspennandi aukahlutverki og lífgar aðeins upp á skjáinn þótt maður hefði viljað sjá miklu meira af honum. Skjáparið í myndinni náði aldrei að fanga umhyggju mina og ekki einu sinni nálægt því. Það verður líka svo leiðinlegt með tímanum að maður byrjar að sakna Harris meira.

Þau Alex Pettyfer og Vanessa Hudgens líta vel út (meira að segja þegar Pettyfer á að vera ljótur er hann ekki ÞAÐ slæmur) en handritið er svo illa skrifað að það er gjörsamlega ómögulegt að taka þau alvarlega. Hvorki þau né nokkurn annan. Ég hefði glaðlega þegið hallærislegu skrif Stephanie Meyer í staðinn (a.m.k. eru hennar samtöl svo bjánaleg að þú hlærð að þeim) og það er eitthvað sem enginn ætti að vilja biðja um! Svo þarf einhver að gjöra svo vel að segja Mary Kate Olsen – og kannski systur hennar líka – að frægð hennar nái ekki út fyrir ímynd brenndu barnastjörnunnar og fyrirsætunnar. Hún er einn af mörgum kjánahrollum sem ég fékk á meðan ég horfði á myndina.

Sýnishorn þessarar myndar segja þér allt sem þarf að segja. Ef þér finnst trailerinn asnalegur þá mun þér finnast myndin tvöfalt asnalegri. Ef þér leist ágætlega á þetta þá eru meiri líkur á því að þú verðir sáttur með það sem þú borgaðir fyrir. Til vonar og vara myndi ég frekar bíða eftir vídeóinu.

4/10

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Svipaðar myndir


Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn