Reboot-æðið heldur áfram, og fyrst þeir Michael Meyers og Jason Voorhees fengu að byrja upp á nýtt, hvers vegna skilja þá Freddy Krueger útundan? Hann er nú að mínu mati sá allra eftirminnilegasti, sem þýðir að ef einhver leikstjóri ætlar að tækla endurstillingu á þessari seríu, þá er eins gott að hann geri það vel. En það virðist ekkert vera neitt annað en bullandi óskhyggja að ætlast til þess að Platinum Dunes-fyrirtækið (stjórnað af sjálfum Michael Bay, ásamt öðrum) skili af sér hrollvekju sem er eitthvað þess virði að mæla með. Það eina góða sem hefur komið þaðan er Texas Chainsaw-endurgerðin. Annars hefur þetta kompaní sérhæft sig í því að taka klassískar myndir og eyðileggja nöfn þeirra, eins og þeir gerðu með The Amityville Horror og The Hitcher. Þessi endurgerð á A Nightmare on Elm Street er hvergi nálægt því að vera eins íkonísk og sú upprunalega (ég verð þó að viðurkenna, sú mynd eldist frekar illa) en hún er engin hörmung heldur. Samt, þrátt fyrir að margar myndir í gömlu Nightmare-seríunni hafi verið slæmar, þá fer það ekki á milli mála að hinn nýi Freddy átti miklu betri mynd skilið heldur en þetta.
Þessi mynd má eiga það að vera vel tekin upp og flott á mörgum sviðum. Einnig er ég nokkuð ánægður með Jackie Earle Haley í lykilhlutverkinu, þótt það verði seint hægt að segja að hann sé að gera eitthvað nýtt. Þessi maður virðist njóta þess að leika annaðhvort morðingja/brjálæðinga (Watchmen, Shutter Island) eða barnaperra (Little Children), og hérna leikur hann bæði. Engu að síður þá leggur hann sig allan fram að venju og reynir ekkert að apa eftir Robert Englund, heldur gerir sína eigin hluti við þennan karakter. Svarti, perralegi húmorinn, sem hefur áður einkennt hann, laumast þó inn nokkrum sinnum – undirrituðum til mikillar ánægju. Útlitið er líka mátulega ógeðslegt og kemur mjög vel út. Hins vegar þarf þessi mynd að gjalda fyrir það að leikstjóri hennar hefur ekki minnstu hugmynd um hvernig á að gera hrollvekju. Þetta bitnar auðvitað mest á spennunni, andrúmsloftinu og sjálfum Freddy.
Í leikstjórasætinu situr hér nokkur Samuel Bayer, sem hefur ekkert gert áður en tónlistarmyndbönd. Það eina sem þessi maður fær hrós fyrir er einmitt tökustíllinn, en hvað allt annað varðar þá feilar hann skömmustulega. Óþægindin vanta alveg í þessa mynd, og fyrir vikið verður hún bara frekar hæg og leiðinleg á köflum. Senur sem eiga að vera óþægilegar verða bara - kaldhæðnislega - svæfandi og einstaka sinnum hallærislegar (skotið í baðinu er t.a.m. kjánalega fyndið). Og þrátt fyrir að Haley viti alveg hvað hann er að gera í sínu hlutverki þá er Bayer alveg ófær um að gera senurnar með honum óhugnanlegar. Í stað þess að byggja upp andrúmsloft sem gerir áhorfandann óðan af spennu þá er hér einungis verið að styðjast við (hvað annað??) bregðuatriði, sem eru næstum því öll jafn fyrirsjáanleg. Bayer gerir heldur ekkert nýtt eða skemmtilegt við draumasenurnar, þar sem akkúrat er besti tíminn til að leika sér með sjónræna stílinn. Mest megnið af brjálæðinu sem við sjáum hér er eitthvað afrit af því sem við höfum séð áður og það er eiginlega ófyrirgefanlegt í mynd sem telur sig vera uppfærsla.
Ég skal samt viðurkenna það að ég hef séð þúsundfalt verri leik hjá ungu fólki í hrollvekju heldur en þann sem hér að finna. Krakkarnir standa sig ekkert illa, en þeir virka flestir svo gríðarlega áhugalausir að maður hefur engan áhuga á því að halda með þeim. Svo er handritið svo stirt að nánast hver einasta sena breytist í einhvers konar klisju, og samtölin eru meðaltalin, en þau eru hvort eð er bara beint tekin upp úr gömlu myndunum. Annars er þessi nýja Nightmare On Elm Street-mynd voða auðgleymd og ómerkileg þrátt fyrir ýmsa kosti, sem er nokkurn veginn það sama og hægt er að segja um endurgerðina á Friday the 13th og reyndar Halloween líka. Þetta er mynd sem hefði getað komið svo miklu betur út hefði Michael Bay valið einhvern aðeins hæfileikaríkari leikstjóra til að sjá um þetta allt saman. Ekki það að ég ætlist til þess að sprengjusérfræðingur eins og Bay hefði eitthvað gott auga fyrir hæfileikaríkum leikstjórum. Það mátti samt reyna.
5/10
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg?
Já Nei