Náðu í appið
Bönnuð innan 12 áraÍ myndinni er ljótt orðbragð

Hot Rod 2007

Fannst ekki á veitum á Íslandi

Smack destiny in the face

88 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 39% Critics
The Movies database einkunn 43
/100

Myndin fjallar um ungan ofurhuga, Rod Kimble, sem ætlar að stökkva yfir 15 rútur á vélknúnu reiðhjóli til að heilla stjúpföður sinn. En fyrst þarf að safna peningum til að leigja rúturnar og undirbúa stökkið.

Aðalleikarar

Leikstjórn

Handrit

Ekki bara þolanleg heldur meinfyndin
Þegar ég sá fyrst trailerinn fyrir Hot Rod árið 2007 þá vissi ég að ég ætti með öllum líkindum aldrei eftir að sjá myndina. Í gegnum tíðina hefur samt álit mitt á Andy Samberg vaxið svakalega. Lonely Island/SNL-sketsarnir með honum eru sumir með því fyndnasta sem ég hef séð í mörg ár og þrátt fyrir að ég hafði litla sem enga trú á Hot Rod fyrirfram, þá var ég pínu forvitinn að sjá hvernig hann myndi bera heila mynd uppi einn. Mér var búið að ganga vel með það að forðast myndina (ekki viljandi þó, mér var bara slétt sama um hana) þangað til félagar mínir píndu mig til að horfa á hana. Og hvað gerðist? Ég hló... Mikið.

Það þarf samt að taka eitt fram varðandi þessa mynd; Málið er að hún er svo merkilega sérstök að það er bókað að þér muni annað hvort finnast hún vera stórkostlegt rugl eða sóðaleg skítahrúga. Það er varla neinn millivegur, en það er svosem ekki við öðru að búast þegar handritshöfundurinn er einn af þeim sem vann við South Park og Team America. Það sést samt óneitanlega að stærsti hluti grínsins hefur verið spunninn á staðnum af Samberg og hinum tveimur í Lonely Island-pakkinu.

Ég er sannfærður um að það sé erfiðara að búa til grínmynd sem nær að halda dampi frá upphafi til enda heldur en að gera áhrifaríkt drama. Tímasetning húmors skiptir nákvæmlega öllu (engar nýjar fréttir þar), og ef hún feilar mestmegnis - alveg sama hversu gott grínið er - þá hrynur öll myndin í sundur. Með drama þá þarf maður oftast bara að gæta sig á því að vera hvorki yfirdrifinn né væminn. Grínmyndir hafa nánast engar uppskriftir. Það eru til þúsund leiðir til að taka upp tiltekin grínatriði og kannski þrjár þeirra virka. Í hvert sinn sem Hot Rod reynir að vera steikt og súr af ástæðulausu þá svínvirkar hún og hittir algjörlega í mark! Ég er m.a.s. viss um að maður þurfi að búa yfir sérstökum Kubrick-hæfileikum til að láta svona handahófskennt grín ganga upp án þess að feila svo ekki sé talað um einhverja lengstu en um leið alfyndnustu senu sem ég hef séð þar sem maður dettur niður fjall. Lógískt séð hefði atriðið átt að vera styttra en í staðinn var það 3x lengra en það þurfti að vera og verður fyndnara og fyndnara með hverri sekúndu fyrir vikið. Svo má heldur ekki gleyma alveg hreint fullkomnu atriði þar sem menn marsera undir laginu You´re the Voice (magnað lag). Byrjar sakleysislega en endar með látum. Ég náði ekki andanum eftirá.

Svona húmor virkar ekki á alla (og það sama gildir í rauninni um allt grín), en hann virkaði klárlega á mig. Samberg og félagar ná einhverra hluta vegna að vera nógu öruggir með sig til að gera brandaranna ekki pínda á neinn hátt. Enginn er að *reyna* að vera fyndinn, þeir verða það bara ósjálfrátt því þeir bera sig allir svo alvarlega oftast. Og vegna þess að húmorinn er svo dásamlega handahófskenndur og flippaður er ómögulegt að vita hvernig grínið mun spilast út. Söguþráðurinn er líka skemmtilegt rugl í sjálfu sér og spilar vel á þekktar klisjur (gaur reynir að safna pening - með því að gera hættulega hluti - til að geta bjargað veikum (stjúp)föður sínum... bara svo hann geti lamið hann í klessu eftirá!).

Stíll myndarinnar er líka geggjaður, og meira að segja myndatakan og klippingin tekur eins mikinn þátt í húmornum og hægt er. '80s tónlistin setur líka skemmtilegan svip á myndina og það er erfitt að neita því að sum lögin eru hættulega grípandi, enda er ég á þeirri skoðun um að þetta tónlistartímabil hafi verið brilliant. Ef menn skoða nógu vel, þá má sjá ýmislegt sem Hot Rod á sameiginlegt við myndina Napoleon Dynamite. Báðar eru ólýsanlega spes, bæði í stíl og persónusköpun og virðast vera með sína eigin tegund af húmor. Þessi finnst mér samt gera allt rétt sem hin feilaði á (enda enginn Napoleon aðdáandi). Hún er líflegri, viðkunnanlegri og miklu fyndnari. Persónulega held ég að þetta verði ekta költ-mynd með árunum, og ég hef sjálfur tekið eftir því að því oftar sem maður horfir á hana, því meira vex hún á mann og þar af leiðandi hlær maður meira.

Ef freðinn húmor er í miklum metum hjá þér þá er þessi mynd næstum því skylduáhorf. Hún er engin snilld og er ekki alltaf eins drepfyndin og bestu atriði hennar. Hún hélt mér samt skælbrosandi allan tímann og það eitt og sér gerir það að verkum að ég vil halda utan um hana í mínu DVD safni og sýna öðrum félögum við tækifæri. Cool beans.

7/10

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Svipaðar myndir


Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn