Myndin segir frá Chris Kelvin (George Clooney) sem er sálfræðingur einhvern tímann í okkar nánustu framtíð. Chris er hálf niðurbrotinn maður eftir að þunglynd eiginkona hans, Rheya (Natascha McElhone) hafði framið sjálfsmorð. Stuttu síðar fær hann boð frá stjórnvöldum um að koma til geimstöðvarinnar sem svífur yfir plánetunni Solaris en þar hafa mjög undarlegir og dularfullir atburðir átt sér stað. Chris kemst að því að einungis tveir áhafnarmeðlimir eru ennþá á lífi, hinn taugaveiklaði Snow (Jeremy Davies) og hin ákveðna Dr. Helen Gordon (Viola Davis). Chris reynir að fá út úr þeim hvað hefur verið að gerast þarna en fær fá svör. Fyrstu nótt sína í geimstöðinni vaknar hann upp við það að hin látna eiginkona hans sefur við hliðina á honum. Hvernig komst hún þangað? Er hún tilbúningur plánetunnar? Og ef svo er, hvað vill plánetan eiginlega? Þrátt fyrir að Chris geri sér grein fyrir því að Rheya er ekki raunveruleg þá ber hann samt sömu tilfinningar til hennar eftir sem áður og einsetur sér að reyna að bjarga henni og koma henni aftur til Jarðar, í mikilli óþökk Gordon.
Það er engin spurning að Solaris er mjög metnaðarfull mynd. Sagan sjálf veltir upp mörgum spurningum um eðli mannsins og einnig lítur myndin mjög vel út og plánetan sjálf Solaris er magnþrungin. Verst að myndin skyldi einnig þurfa að vera svo hrútleiðinleg að ég hef sjaldan orðið vitni að öðru eins.
Það gerist eiginlega ekkert og það litla sem gerist hefði getað verið áhugavert ef að Soderbergh og félagar hefðu nennt að fylgja því eitthvað eftir. Í staðinn eru þær áhugaverðu hugmyndir sem annars eru til staðar í sögunni látnar hanga í lausu lofti og áhorfendur hálfpartinn dregnir á asnaeyrunum að niðurstöðu sem er frekar fyrisjáanleg. Svona dót var gert svo miklu miklu betur í meistaraverkinu 2001: A Space Odyssey. Hérna er þetta bara ekki að virka.
Af leikurunum er George Clooney sá eini sem tekst að halda haus í gegnum þetta. Leikur hans er með miklum ágætum og leitt að myndin sé jafn slök og hún er. McElhone gerir það sem hún getur en getur í rauninni lítið gert með frekar óskiljanlegan og illþolandi karakter. Jeremy Davies verður ansi pirrandi til lengdar með sína taugaveiklunartakta og persónan Gordon er bara enn ein stereótýpan fyrir svarta leikkonu að leika.
Soderbergh finnst mér vera afar mistækur leikstjóri. Hann hefur gert mjög góðar myndir eins og Traffic og Out of Sight, skítsæmilegar myndir eins og Erin Brockovich og Ocean's Eleven og síðan niður í hreint afleitar myndir eins og Solaris. Í rauninni er það mjög leitt að hún skuli vera svona slæm af því að hugmyndirnar sem koma fram í henni eru fínar og áhugaverðar en þetta er einfaldlega gjörsamlega líflaust batterí.
Það hefði verið forvitnilegt að sjá hvað orkuboltinn James Cameron hefði getað gert við myndina ef að hann hefði leikstýrt henni í stað þess að framleiða. Það hefði þá kannski verið örlítill lífsneisti með henni.
Þrátt fyrir þetta langar mig talsvert til þess að sjá upprunalegu myndina frá 1972. En forðist þessa útgáfu, hún er afleit.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg?
Já Nei