Náðu í appið
Bönnuð innan Ekki við hæfi mjög ungra barnaMyndin vísar til eða sýnir notkun vímuefnaÍ myndinni er ljótt orðbragð

You Can Count on Me 2000

Fannst ekki á veitum á Íslandi

Frumsýnd: 30. apríl 2002

111 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 95% Critics
The Movies database einkunn 85
/100

Ýmislegt gerist í lífi Sammy, einstæðrar móður í Catskill, sem er bærinn sem hún fæddist í og líka bærinn þar sem foreldrar hennar létust í bílslysi þegar hún var lítil. Átta ára sonur hennar Rudy byrjar ímynda sér föður sinn, sem hann hefur aldrei séð, sem hetju; hún sjálf byrjar með gamla kærastanum, hún fær nýjan yfirmann og duttlungafullur... Lesa meira

Ýmislegt gerist í lífi Sammy, einstæðrar móður í Catskill, sem er bærinn sem hún fæddist í og líka bærinn þar sem foreldrar hennar létust í bílslysi þegar hún var lítil. Átta ára sonur hennar Rudy byrjar ímynda sér föður sinn, sem hann hefur aldrei séð, sem hetju; hún sjálf byrjar með gamla kærastanum, hún fær nýjan yfirmann og duttlungafullur bróðir hennar, Terry, kemur í heimsókn eftir langt hlé. Kærastinn biður hennar, yfirmaðurinn gerir nokkuð óvænt, og bróðir hennar og sonur ná vel saman, þó afleiðingarnar séu ekki endilega góðar. Þegar Terry spyr Rudy hvort hann vilji hitta föður hans, þá skapar það spennu, og systkinin þurfa að endurskoða samband sitt.... minna

Aðalleikarar


Hér er um að ræða lítið en afskaplega vandað drama þar sem meðal annars Laura Linney og Matthew Broderick fara með aðalhluverk. Myndin er sérstök að því leiti að söguþráðurinn tekur enga beina augljósa stefnu heldur er meira lagt upp úr því að skapa tilfinningalega upplifun sem varpar fram ýmsum spurningum, til dæmis um hvers virði fjölskyldutengsl eru, án þess að varpa fram neinum augljósum svörum. Helstu leikarar standa sig með prýði og gera áhorfendum erfitt fyrir með að mynda ekki einhverja samkennd með persónum þeirra. Auk þess er myndin vel skrifuð, handritið víxlar á áhrifaríkan hátt milli drama og húmors og tekst vel til. Það er í sjálfum sér ekki mikið meira að segja um þessa mynd, en ég mæli hiklaust með henni fyrir þá sem hafa gaman af góðu drama.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei

You Can Count on Me eftir Kenneth Lonergan fjallar um Sammy Prescott (Laura Linney), einstæða móður sem býr í litlum smábæ úti á landi með syni sínum (Rory Culkin). Foreldrar hennar dóu þegar hún var lítil svo að hún og bróðir hennar Terry (Mark Ruffalo) höfðu einungis hvort annað að. Samt eru þau gjörólíkir einstaklingar. Á meðan Sammy hefur komið undir sig fótunum sem starfsmannastjóri bankans og hefur alltaf verið sú með ábyrgðartilfinninguna er Terry ábyrgðarlausi flækingurinn sem kemur við og við í bæinn til þess að biðja systur sína um peninga. Og Terry er núna kominn í enn eitt skiptið út af sömu ástæðu. Sammy ákveður að nota tækifærið og láta hann kynnast stráknum sínum og reyna að fá hann til að ílengjast í bænum. Á sama tíma veit Sammy ekki í hvorn fótinn hún á að stíga í karlamálum. Hún er í sambandi við bæði heimamann á staðnum (Bob Stegerson) og hinn nýja yfirmann sinn, hinn harðgifta reglufasista Brian (Matthew Broderick). Gallinn við þá báða er hvað þeir eru leiðinlegir. Og hvað á Sammy að gera með öll þessi vandræði í kringum sig.

You Can Count on Me er ein af þessum litlu myndum sem koma svo skemmtilega á óvart. Þetta er ekki beinlínis neitt þungavigtarstykki en þetta er alveg virkilega yndisleg mannleg mynd sem er bæði fyndin og alvarleg í bland. Það sem ég er hrifin af er hvernig myndin sneiðir hjá allri væmni sem svo oft einkennir amerískar vandamálamyndir. Í staðinn starir hún bara þráðbeint á persónur sínar og öll tilfinningaleg viðbrögð þeirra virka þess vegna eðlileg. Við fáum til dæmis ekkert yfirþrungið tilfinningaflóð í endann þegar uppgjörið kemur fram. Lonergan ber meiri virðingu fyrir persónum sínum og áhorfendum en svo. Handrit hans er listavel samið og leikstjórn hans mjög örugg.

Leikararnir smellpassa síðan inn í hlutverk sín. Bæði Linney og Ruffalo eru mjög góð í sínum hlutverkum og mjög flottur samleikur er á milli þeirra tveggja. Hingað til hef ég ekki séð þau gera neitt brilliant en þarna geislar af þeim og hlakka ég til að sjá hvað þau gera í framtíðinni. Broderick hefur heldur ekki verið jafn góður síðan í Election hérna um árið og gerir hann mjög vel að sýna Brian bæði sem hálf einfaldan mann og einnig gjörsamlega óþolandi möppudýr.

Manni líður virkilega vel eftir að hafa séð þessa mynd og mæli ég með henni fyrir alla þá sem hafa gaman af að sjá raunverulegt fólk í trúverðugum kringumstæðum án allrar væmni.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei

Enn einu sinni sannast það að bestu kvikmyndirnar sem koma frá Hollywood eru gerðar af leikstjórum sem leggja meiri áherslu á handrit en tæknibrellur, eru framleiddar af litlu óháðu kvikmyndaverunum, og eiga minnstan möguleika á því að slá í gegn á almennum markaði. You Can Count On Me uppfyllir öll þessi skilyrði, og er jafnframt ein af betri myndum ársins 2000. Leikstjórinn og handritshöfundurinn Kenneth Lonergan hlaut Óskarsverðlaunatilnefningu fyrir þessa lágstemmdu, ljúfsáru og mannlegu mynd og átti hana vel skilið. Sagan er í sjálfu sér einföld: Einstæð móðir í smábæ í New York-fylki tekst á við erfiðan bróður og dagleg vandræði í vinnunni. Sem betur fer er frásagnaraðferðin til fyrirmyndar, og maður hrífst óvænt með atburðarásinni. Óvænt flestum myndum sem maður sér þá finnur maður til með þessum karakterum og vill sjá hvað verður um þau. Það er eitt besta hrós sem kvikmynd getur fengið. Ekki er hægt að kvarta yfir leikurunum. Laura Linney, sem einnig fékk Óskarstilnefningu, er hreint út sagt frábær í hlutverki Sammy. Í fullkomnum heimi hefði hún gefið Juliu Roberts spark í rassinn á hátíðinni sjálfri. Mark Ruffalo, sem sló í gegn í þessari mynd, er jafnframt fyrsta flokks. Þrátt fyrir að leika karakter sem er gífurlega fráhrindandi og ósympatískur tekst honum að gera hann mannlegan og viðkvæman. Matthew Broderick, sem er aldrei betri en í svona litlum myndum (sbr. Election), er bæði bráðfyndinn og brjóstumkennanlegur um leið í hlutverki bankastjóra sem hefur óvænt áhrif á líf Sammy. Enn eitt Culkin-systkinið, Rory, gerir betur en eldri bræður hans með því að slá réttan tón í hlutverki sonar Sammy. You Can Count On Me er róleg og laus við öll verstu Hollywood-einkennin, og mun þar af leiðandi eiga erfitt með að rata í bíó á Íslandi. En þeir sem njóta þess að sjá vel skrifaðar og leiknar myndir sem þora að vera öðruvísi ættu að leita þessa uppi.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei

Mjög gott drama um samband einstæðrar móður við frekar rótlausan bróður sinn. Laura Linney sýnir stórkostlegan leik og aðrir leikarar standa sig einni vel. Vel skrifað handrit fer aldrei yfir strikið í tilfinningaseminni og persónurnar virka ekta.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Svipaðar myndir


Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn