Jackie Chan leikur Jackie Chan sem er sérdeildarmaður í leiniþjónustu sem tekur að sér að stela mjög verðmætum steini sem hefur ótrúlega krafta inni í sér. En þeir eru sviknir og allir deyja nema Jackie að sjálfsögðu, sem missir minnið. Hann verður nú að komast að því hver hann er og koma steininum aftur undir réttar hendur svo að hann valdi ekki óbætanlegum skaða fyrir mannkynið. Þeir sem hafa séð Jackie Chan myndir vita að söguþráðurinn er bara bull enda viðurkennir Jackie það sjálfur. En þeir ættu einnig að vita að myndir hans eru nær alltaf bráðskemmtilegar og með hreint ótrúlegum bardagaatriðum. Þessi er engin undantekning. Myndin er mjög fyndin líka sem sýnir að Jackie Chan er ekki bara frábær bardagamaður heldur einnig hinn fínasti gamanleikari og sumar senurnar í þessari mynd eru bókstaflega drepfyndnar. Maður þarf að bíða dálítið eftir að slagsmálaatriðin byrji en þau eru vægast sagt mögnuð og sennilega ein af þeim bestu sem Jackie hefur gert á ferlinum. Maðurinn er hreint og beint ótrúlegur sé tekið tillit til þess að hann er orðinn 45 ára. Who Am I? er hin besta skemmtun og mæli ég með henni fyrir alla þá sem vilja sjá eitthvað létt og flott í bíó.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg?
Já Nei