Ef fólk hafði gaman af gríninu í Cloudy with a Chance of Meatballs og 21 Jump Street (drepfyndnar að mínu mati, báðar tvær), þá ætti ekki að vera neinn vafi á því að næsta verkefni leikstjóranna Phil Lord og Chris Miller sé mikið tilhlökkunarefni. Eftir Cloudy (sem – eins og flestir/allir vita – er tölvugerð teiknimynd) þótti Jump Street vera áhugavert stökk fyrir þá, en það er ekkert í samanburði við tölvuteiknuðu 3D-steikina sem við gætum átt von á næst frá þeim í febrúar á þarnæsta ári.
Löng bið, en væntanlega þess virði.
Lego: The Piece of Resistance, eins og myndin mun heita, er um þessar mundir að hlaða til sín raddleikurum. Búið er að grípa í Channing Tatum og Will Arnett (sem fara víst með hlutverk Legó-Súpermann og Legó-Batman – án djóks?!) en nýlega tókst leikstjórunum að redda sér blíðustu og rólegustu töffararöddinni í Hollywood. Morgan Freeman er búinn að skrifa undir samninginn og er ómögulega hægt að trúa öðru en að myndin verði súrari og meira spennandi fyrir vikið… Verst er bara að hann muni ekki leika sjálfan sig, heldur í staðinn einhverja skrautlega týpu að nafni Vitruvius.
Einnig er búið að negla niður Elizabeth Banks í eitt hlutverkið, en það kemur minna á óvart að hún sé til í svona flipp.
Febrúar 2014. Munið það.