Við sögðum frá því fyrr í vikunni að von væri á þrívíddar tónleikamynd með rokkhljómsveitinni goðsagnakenndu, Guns ´N Roses síðar á þessu ári. Í kjölfarið fréttum við af því að önnur þrívíddarmynd með annarri goðsagnakenndri hljómsveit væri á leiðinni á hvíta tjaldið. Hér er um að ræða bíómynd um enga aðra en eðal bárujárnssveitina Metallica.
Myndin heitir Metallica Through the Never og mun verða frumsýnd 9. ágúst nk.
Handrit og leikstjórn er í höndum Nimród Antal, sem þekktur er fyrir kvikmyndatöku í Predator bíómyndinni. Í myndinni verður sýnt efni frá tónleikum Metallica í ágúst 2012 á Rogers leikvanginum í Vancouver í Kanada. Einnig verður leikið efni í myndinni, flutt af leikaranum Dane DeHaan, sem mun m.a. leika í The Amazing Spider-Man 2, sem væntanleg er á næsta ári.
Í tilkynningu frá hljómsveitinni segir að DeHaan leiki ungan mann sem er hluti af fylgdarliði hljómsveitarinnar. Hann er sendur í áríðandi sendiferð á meðan hljómsveitin er að spila fyrir framan troðfullan leikvang, en veröld hans snarsnýst á augabragði og verður aldrei söm á eftir.