(Með/á móti er fastur liður á síðunni þar sem tveir stjórnendur með ólíkar skoðanir á tiltekinni bíómynd segja nákvæmlega það sem þeim finnst (helst í einni efnisgrein) og er undir notendum komið að velja þá hlið sem er raunsærri, skemmtilegri eða meira sannfærandi. En svo er alltaf séns á því að skoðun þín sé mitt á milli)
Axel Birgir Gústavsson vs. Tómas Valgeirsson
Scott Pilgrim hefur fengið hlotið gríðarlega góða dóma, en feilaði svakalega í bíóhúsum. Margir hafa lýst yfir aðdáun sinni á myndinni og er hún strax byrjuð að byggja sér sterkan költ status meðal kvikmyndanördanna. Ekki eru þó allir jafn hrifnir af tölvuleikjatilvísunarfróuninni, Cera-num eða shot-for-shot uppsetningu myndarinnar eins og kemur fram í mótsókn myndarinnar hér fyrir neðan- nú er bara spurningin hvort hann Tommi telur sig nógu góðan verndarengil fyrir hönd myndarinnar og hvar lesendur standa?
Axel segir:
Fáar kvikmyndir eru jafn troðnar eins og Scott Pilgrim- þegar Edgar Wright gerði fyrrverandi gamanmyndir sínar prófaði hann að nota mikið af stílbrögðum til að krydda upp á gamanið, en hér reynir hann ALLT og tekst nánast ekkert. One linerarnir eru sársaukafullir og húmorinn er út um allt- það er ekki einn ákveðinn markhópur fyrir þessa mynd og hún þjáist af því að reyna of mikið fyrir alla; útkoman er ein stór klessa. Manni er skítsama um aðalpersónuna og Cera einfaldlega hefur ekki sjarman til að gera Scott viðkunnanlegri eða viðtengjanlegri persónu. Og ekki segja mér að útskýring á bakvið skrípalegu/stílísku einkenni myndarinnar séu að heimur myndarinnar sé byggður á tölvuleikjalógík og myndasagnaklisjum- það einfaldlega virkar ekki þegar það vantar uppsetninguna: Myndasögunni tekst það því heimurinn ER skrípalegar teikningar og hefur ekki þessa takmörkuðu sviðsetningu og innbyggðu reglur sem fylgir raunveruleikanum okkar. Uppgjörið er einnig ótrúlega ómerkilegt og illa unnið í söguþráð myndarinnar. Hefði virkað mun betur sem teiknimynd. Með ofmetnari myndum síðari ára.
Tommi segir:
Scott Pilgrim er ansi einkennilegur orkudrykkur sem hentar augljóslega ekki hverjum sem er. En það er kannski partur af ástæðunni af hverju ég elska hana svona mikið, því hún fagnar nördisma með stæl, gerir dásamlega grín að hipsterum þrátt fyrir að fjalla um þá á sama tíma. Myndin er fersk, fjörug og „edgy“ án þess að rembast, rennur á fjúríus hraða og sóar ekki einni einustu mínútu í það sem skiptir ekki málið fyrir innihaldið (já, – ótrúlegt en satt – þá er pakkað innihald), nema þegar hún reynir að vera fyndin, og (þar sem þetta er nú Edgar Wright-mynd) er hún sem betur fer alveg drepfyndin og snjöll alla leið. Þau fáeinu atriði sem ekki ganga upp eru alls ekki mörg, og ég stend enn á þeirri skoðun eftir að hafa horft á myndina svona u.þ.b. 10 sinnum. Replay-gildið er sömuleiðis frábært enda ræman sneisafull af vísbendingum, tilvísunum og földum bröndurum sem fara auðveldlega framhjá manni við fyrsta áhorf. En í hnotskurn erum við að ræða um súran, ýktan og yndislegan nördagraut sem gerir fullt nýtt sem maður sér ekki á hverjum degi. Og til að kóróna allt finnur hún sér einnig rými til að vera lúmskt sjarmerandi og útpæld þroskasaga skíthæls með hvetjandi skilaboðum. ÞAÐ er súrasti parturinn…
HVORU MEGIN VIÐ LÍNUNA ERT ÞÚ?