Þessar fréttir koma sennilega fáum á óvart, a.m.k. ef maður kann að tengja saman tvo og tvo. Fyrsta stiklan fyrir nýju Superman-endurræsinguna gaf strax ofsalega kaldan og jarðbundinn tón, og þar að auki segir það eitt eða annað þegar Christopher Nolan á svona stóran þátt í verkinu.
Handritshöfundurinn David S. Goyer (sem er vafalítið í gríðarlegu uppáhaldi á meðal hörðustu kvikmyndaáhugamanna), sem skrifar handritið ásamt Nolan, staðfestir fréttirnar engu að síður samkvæmt vefsíðunni ComingSoon.net. Þetta eru hans orð:
„Við (aðstandendur) vildum alltaf fara náttúrulegu leiðina. Við viljum að sögurnar okkar séu jarðbundnar. Það er ekki auðvelt að fara í þessa átt með Superman og þó hún verði raunveruleg þýðir það ekki nauðsynlega að við séum að gera myrka bíómynd. Við nálguðumst þessa reboot-mynd með því hugarfari að kanna hvað myndi gerast ef sagan sem við erum að segja hefði gerst í alvörunni. Hvernig áhrif myndi svona hetja og tilvist hennar hafa á raunheiminn?“
Hvað finnst þér? Er þetta bara einhver tískustefna í stórum bíómyndum eða hárrétta leiðin til að segja Superman-sögu? Er kannski fínt að Zack Snyder komi sér aðeins aftur á jörðina eftir Sucker Punch?
Man of Steel verður ein af stærstu myndum næsta sumars/árs.