Nú hefur fengist staðfest að hin gullfallega skandinavíska leikkona Malin Akerman muni taka að sér að leika Debbie Harry, hina eitursvölu söngkonu Blondie (þaðan kemur villandi fyrirsögnin).
Myndin sem um ræðir hefur fengið nafnið CBGB og segir frá Hilly Kristal, sem leikinn er af Alan Rickman og klúbbnum hans, CBGB, sem opnaður var á 8. áratug síðustu aldar. CBGB stóð fyrir Country, Bluegrass and Blues og þrátt fyrir að hafa upprunalega átt að vera vettvangur fyrir þær tegundir tónlistar breyttist staðurinn fljótlega í undirheima pönksins í New York og spiluðu þar meðal annars hljómsveitir á borð við Blondie, Patti Smith Group, Misfits og Ramones, sem héldu sína fyrstu tónleika á þessum vinsæla stað – CBGB. Hilly var aðeins með eina reglu fyrir þær hljómsveitir sem þarna spiluðu og hún var að bannað var að spila coverlög, aðeins mátti að spila upprunalegt efni.
Harry Potter-stirnið Rupert Grint hefur einnig tekið að sér hlutverk í myndinni (það er greinilega svona gaman að vinna með Alan Rickman), en hann mun leika gítarleikara hljómsveitarinnar The Dead Boys, Cheetah Chrome. Þá hafa Joel David Moore og Julian Acosta samþykkt að leika Joey og Johnny Ramone.
Kvikmyndin er í höndum leikstjórans Randall Miller, sem hefur svosem ekki fært okkur nein meistaraverk, og munu tökur hefjast í næsta mánuði.
En hvað með ykkur? Hverjum hérna fannst jafn gaman og mér að segja CBGB upphátt?