Aðdáendur bresku sjónvarpsþáttanna Luther um samnefndan rannsóknarlögreglumann, sem bindur bagga sína ekki sömu hnútum og samferðarmennirnir, og leikinn er af Idris Elba, ættu nú að sperra eyrun því mögulega er kvikmynd á leiðinni um kappann.
Búnar voru til þrjár seríur af Luther á BBC, en ekki verða gerðar fleiri seríur. Elba framleiddi sjálfur þættina ásamt því að leika aðalhlutverkið.
Neil Cross höfundur þáttanna hefur sagt við breska fjölmiðla að hann stefni að því að búa til kvikmynd á næsta ári, en búið er að skrifa handrit sem er forsaga að þáttunum. Þar fá menn fá að kynnast persónunni Luther betur, og afhverju hann endar sem sá óstöðugi, harðsoðni lögreglumaður sem hann er, sem dansar í starfi sínu oft á mörkum þess sem er löglegt og ólöglegt.
Myndin myndi gerast snemma á ferli Luther þegar hann er enn kvæntur Zoe, og síðasta atriði myndarinnar yrði fyrsta atriðið í fyrsta þætti í sjónvarpsseríanna.
Höfundur þáttanna hefur nú þegar skrifað skáldsögu um persónuna sem er einskonar forsaga þáttanna, sem heitir The Calling, en hún fjallar um barnamorðingja og endar með því að rannsóknarlögreglumanninum er vikið úr starfi í sjö mánuði.
Cross sagði the Edinburgh International Television Festival að sjónvarpsþættirnir hafi runnið sitt skeið á enda þar sem Elba væri nú orðin þekkt kvikmyndastjarna, en eins og menn vita þá lék hann t.d. eitt af aðalhlutverkunum í Pacific Rim fyrr í sumar og hann leikur Nelson Mandela, fyrrum forseta Suður-Afríku, í mynd sem verið er að gera um ævi frelsisleiðtogans.
Fyrr á þessu ári sagði Elba sjálfur að hann vildi gera bíómynd um Luther.
Elba sem er 40 ára gamall, hefur unnið Golden Globe verðlaunin fyrir bestan leik í stuttseríu fyrir leik sinn í hlutverki Luther, en þættirnir voru frumsýndir árið 2011 á BBC. Þættirnir hafa síðan orðið vinsælir um allan heim.