Líf hans litast af konungstigninni

Teiknimyndin Mufasa: The Lion King skartar fjölda stórleikara. Þar ber fyrst að telja þá Aaron Pierre, sem leikur Mufasa, og Kelvin Harrison jr., sem leikur Taka, ljónaprinsinn með björtu framtíðina sem tekur Mufasa inn í fjölskylduna og lítur á eins og bróður.

“Þegar leikaravalið stóð yfir var eitt af því sem mér þótti mjög mikilvægt – sérstaklega af því að við erum að tala um sögu sem á rætur í leikriti eftir Shakespeare ( Hamlet ) – að allir leikararnir hefðu frábærar raddir,” segir leikstjórinn Barry Jenkins sem þekktastur er fyrir Óskarsverðlaunamyndina Moonlight. “Þeir urðu að geta sýnt sannar tilfinningar með röddinni einni saman.”

Lengi í uppáhaldi

Persónan Mufasa hefur löngum verið í miklu uppáhaldi hjá áhorfendum um allan heim. Upphaflega lék James Earl Jones ljónið í upprunalegu myndinni frá 1994 og svo aftur í útgáfunni sem frumsýnd var árið 2019.

Mufasa hefur verið talin hin fullkomna föðurímynd, góð fyrirmynd og ráðagóður og sannur leiðtogi. Jenkins segir að á sama tíma og persónan sé einskonar föðurímynd allra – þá er hann fólki oft mjög ofarlega í huga. “Fólk setur hann næstum á stall,” segir Jenkins. “Eitt af því sem var skemmtilegast við að gera myndina var að dýfa sér í rætur allra persónanna – allt frá Mufasa til Zazu, Sarabi og Rafiki.”

Eins og sjá má í kvikmyndinni sést fljótt hvað býr í Mufasa. Hann er sjálfsöruggur og hugrakkur sem þýðir að hann getur orðið góður konungur. En ungur að árum verður hann fyrir miklu áfalli, og hann stendur eftir aleinn – langt frá fjölskyldu, vinum og öllu sem hann þekkir.

Hann kynnist Taka og þar finnur hann bræðralag og hlýju og að lokum tilgang þegar þeir fara að heiman í þroskandi ferðalag.

Mufasa: The Lion King (2024)

Ekki aðgengileg á veitum á Íslandi
Rotten tomatoes einkunn6.7
Rotten tomatoes einkunn 57%

Ljónsunginn Mufasa er einn og týndur á gresjunni. Hann hittir annan viðkunnalegan ljónsunga, Taka, sem er af konungsættum. Þessi kynni setja af stað víðáttumikið ferðalag ólíkra vina í leit að örlögum sínum. ...

“Fyrsta reynsla mín af Lion King var þegar ég var þriggja ára,” segir Aaron Pierre. “Myndin hafði mikil áhrif á mig. Ég elskaði tónlistina, söguna og persónurnar og samböndin þeirra á milli var eitthvað sem maður gat tengt við,” bætir Pierre við.

Dýpri tenging

Hann segir að nú þegar hann er orðinn fullorðinn maður finni hann dýpri tengingu við kvikmyndina. “Ég held að ástæðan sé sú að The Lion King á sér svo ríkan sess í menningu okkar því þetta var ein fyrsta Disney teiknimyndin sem óf tónlist svona þétt inn í sögusvið myndarinnar,” segir hann. “Hún hefur mjög sterka fjölskyldusögu – bræðralag og systralag – og ég held að fólk tengi við það, sama hvaðan maður er.”

Pierre trúir því að nýja kvikmyndin, sem er m.a. upprunasaga framtíðarkonungs, heiðri og bæti við arfleifð upprunalegu myndarinnar. “Í Mufasa fáum við að kynnast barnæsku hans, unglingsárum, og mótandi reynslu sem á eftir að hafa mikil áhrif á sjálfsmynd hans, persónu og siðferði og hvað hann stendur fyrir. Þú færð innsýn í fjölskylduaðstæðurnar, sambandið við bróður hans, og við sjáum hvernig það var áður en hlutirnir tóku aðra og myrkari stefnu. Ég held að allt þetta bæti við og byggi upp goðsögnina og leyfi okkur að sjá og skilja hvernig hann varð sá Mufasa sem við þekkjum og elskum. Og það er mjög sérstakt.”

Pierre er vel meðvitaður um það hvaða stóru skó hann er að fylla. “Ég er gríðarlegur aðdáandi James Earl Jones,” segir hann. “Hann var ein af hetjunum mínum. Þannig að það var taugatrekkjandi að taka að sér hlutverk Mufasa á yngri árum. Það sem hjálpaði mér var að sýna túlkun Jones fullkomna virðingu og reyna að þjóna persónunni sem hann skapaði.”

Taka er ljón frá virtri konungsætt. Sem ljónsungi vill hann ólmur gera öllum til geðs og hjálpa þeim sem eru í neyð – og þá sérstaklega ljónsunganum Mufasa sem lendir í skyndiflóði. Þeir mynda sterk bönd sín á milli og hjálpast að þegar stór og sterk ljón ógna fjölskyldu og framtíð Taka. Ferðalagið sem þeir takast á hendur kallar fram nýjan sannleika um bæði ljónin sem fylgir þeim fram á fullorðinsár.

Kelvin Harrison Jr. leikur Taka sem síðar verður þekktur sem Scar. “Taka er einstök persóna að því leiti að hann fær að vita að konungdæmið bíður hans, að það sé hans fæðingarréttur, og allt lífið litast af því,” segir Harrison.

Seinna á Taka erfitt með að hemja ótta sinn, afbrýðisemi og óöryggi enda er hann mjög flókin persóna. Og það er ekkert leyndarmál að hans örlög eru að verða hið alræmda illmenni Scar, en leiðin þangað er flókin.

Sjón er sögu ríkari. Sjáðu stikluna og svo myndina sjálfa í bíó sem allra, allra fyrst!