Tökur á stuttmyndinni Ein af þeim eru áætlaðar í janúar á næsta ári. Ragnheiður Erlingsdóttir og Eva Sigurðardóttir framleiða myndina fyrir hönd Askja Films og um þessar mundir stendur leit að ungu hæfileikafólki til þess að leika í myndinn. Leitast er eftir stelpum á aldrinum 14-16 ára og strákum á aldrinum 14-19 ára
Myndin fjallar um Soffíu, 14 ára stelpu, sem er lögð í einelti og þráir ekkert heitar en að falla í hópinn. Hún tekur afgerandi skref til þess að ná markmiði sínu en það dregur stærri dilk á eftir sér en hana hafði grunað.
Eva Sigurðardóttir mun leikstýra myndinni og verður þetta frumraun hennar í leikstjórastólnum en hún er reyndur framleiðandi og hefur framleitt fjölda stuttmynda og annarra verkefna og m.a. verið tilnefnd til hinna virtu BAFTA verðlauna fyrir framleiðslu á stuttmyndinni Good Night.
Eva fór til Cannes fyrr á árinu og sigraði pitch-keppni SHORTS-TV og hlaut 5.000 evrur fyrir sem nýtist í framleiðslu myndarinnar. Einnig var handritið að Ein af þeim valið í Doris Films verkefnið sem er á vegum WIFT á Íslandi.
Allir eru velkomnir að sækja um og geta áhugasamir sent póst á oneofthemfilm@gmail.com, áheyrnarprufurnar munu síðan fara fram seinna í mánuðinum.


