Það má eiginlega segja að 2012 marki ekki aðeins byltingarkennt ár hvað stórmyndir á sumartíma varða heldur líka ætlar Kvikmyndir.is að nýjar leiðir, með vonir um að gera vefinn að betra enn samfélagi fyrir áhugasama um afþreyingar af öllum tegundum.
Seinustu mánuðir hafa verið ansi merkilegir í sögu vefjarins en þá tók við nýtt útlit og í kjölfarið meira átak í virkni. Við bættum við þremur eldhressum og dýnamískum fréttapennum (Þorsteinn Valdimars, Axel Birgir og Róbert K…), sem hafa verið ofsalega duglegir við það að skaffa ykkur heitasta fréttaefninu og pistlar frá drengjunum hafa einnig skotið upp kollinum á þæginlegum tímum. Einkaviðtöl líka (til dæmis við ælumeistarann Tom Six).
Á þessu ári verður Kvikmyndir.is 14 ára gamall, og þar sem vefurinn er loksins kominn á hápunkt gelgjunnar er um að gera að sinna þörfum hans og gera það sem flest allt unga fólkið vill: spila fleiri tölvuleiki!
Jú jú, þarna lásuð þið rétt. Í tæplega hálfan annan áratug hefur þessi síða einungis sérhæft sig í kvikmyndum og aðeins í fáeinum tilfellum fjallað um þætti, en það mun allt breytast nú í ár. Ekki mikið, en samt smá. Meira safaríkt efni er vonandi með samasem-merki á meiri djús, en þið notendur verðið auðvitað að dæma um það. Í bili skulum við kalla þetta tilraun, en á næstunni verður tölvuleikjagagnrýni og kannski nokkrir molar um helstu fréttirnar í leikjabransanum. Smá bónus, án þess að ofgera hlutina. Margir hafa nefnilega spurt okkur þessa spurningu: „Fyrst Myndir mánaðarins er að gera þetta, af hverju ekki þið??“
Enn og aftur höfum við bætt við fleiri pennum (Sigurjón Ingi Hilmarsson og Hilmar Smári Finsen – gestapenni) og, viti menn, við viljum einn í viðbót!
Helst kvenkyns!
Vefurinn er farinn að lykta aðeins of mikið af nördapylsum. Ég er semsagt að leitast eftir ungri píu sem hefur mikinn áhuga á kvikmyndum en er samt óhrædd við að tækla „mainstream“ hliðar Hollywood-heimsins. Það sakar heldur ekki að fjalla aðeins um athyglisverða fólkið í bransanum, án þess að breytast í einhvers konar Séð og Heyrt miðil.
Semsagt, ef þú ert stelpa eða þekkir stelpu sem gæti haft áhuga á því að spreyta sig á einum vinsælasta afþreyingarvef landsins, þá vísa ég á netfangið mitt (tommi@kvikmyndir.is). Segðu mér aðeins frá sjálfri þér án þess að fara út í fullpersónulegan prófíl (þótt það megi alveg líka!) og kannski gætirðu endað með því að vera partur af þessu indæla teymi okkar.
Kvikmyndir.is hefur mjög metnaðarfull plön fyrir nýja árið, og notendum er að sjálfsögðu velkomið að kommenta og stinga upp á alls konar hugmyndum.
Kveðja,
ritstjóri