Á föstudaginn þann 5. nóvember ætlum við að bjóða notendum upp á sturluðustu, ógeðfelldustu og fyndnustu hlélausu forsýningu ársins, og það mun að sjálfsögðu vera JACKASS 3D. Sýningin verður kl. 20 í sal 1 í Laugarásbíói.
Jackass er alls ekki eitthvað sem þarf að kynna með orðum, og það eru sterkar líkur á því að þú – lesandi góður – ert þegar búinn að ákveða hvort þú ætlir þér að sjá þessa mynd eða ekki. Þessir vitleysingar hafa augljóslega ekki fallið í kramið hjá öllum, en þeir sem kunna að meta þessa steypu mega alls ekki missa af þessari, og Jackass-aðdáendur eru víða um heim sammála því að þetta sé það albesta sem sést hefur frá mönnunum.
Það sem gerir þessa Jackass-mynd pínu athyglisverða þó er sú staðreynd að hún er tekin upp (já, TEKIN UPP!) í þrívídd, sem færir subbuskapinn algjörlega upp á allt annað stig. Það er lúmskur draumur hjá okkur Kvikmyndir.is-mönnum að njóta þessarar sjúku upplifunnar með notendum okkar í pakkfullum sal núna eftir mánaðarmót.
Selt verður inn á þessa sýningu og kostar miðinn 1250 kr. (sem er sama verð og mun kosta á almennar sýningar). Miðasala fer mestmegnis fram á netinu (til að kaupa miða, skrollið neðst), en menn geta einnig mætt bara í bíóið fimmtudaginn fyrir sýningu á milli kl. 18-20 og keypt hjá okkur miða. Við munum einnig selja á sama tíma daginn sem sýningin er.
Síðan ráðleggjum við ykkur að taka helst með ykkur 3D gleraugu til að þurfa ekki að borga aukakostnaðinn!
Ef það eru einhverjar spurningar sem þið hafið þá skuluð þið ekki hika við að senda mér póst á tommi@kvikmyndir.is.
Mætir þú?
(ath. þeir sem kaupa miða á netinu fara á sérstakan lista og fá miðana sína rétt fyrir sýningu. Þið þurfið ekkert nauðsynlega að prenta út kvittunina)
T.V.




