Jagten
Einkunn: 4/5
Kvikmyndin Jagten hefur verið ansi lengi í sýningu hér á landi en hún hefur fengið mjög góðar viðtökur frá jafnt kvikmyndagestum sem og kvimyndagagnrýnendum. Jagten er eins og nafnið gefur til kynna dönsk kvikmynd en áætlað er að framleiðslukostnaður hennar hafi numið yfir 400 milljónum íslenskra króna. Það er stórleikarinn Mads Mikkelsen sem fer með aðalhlutverkið í myndinni en hann lék eins og frægt er á móti sjálfum James Bond í kvikmyndinni Casino Royal. Þá hefur hann leikið í fjölda annarra Hollywood mynda sem og öðrum dönskum myndum. Leikstjóri Jagten er svo enginn annar en Thomas Vinterberg sem hefur m.a. tvisvar verið tilnefndur til BAFTA verðlaunanna, nú síðast árið 2012 fyrir umrædda kvikmynd, Jagten.
Jagten segir frá leikskólakennaranum Lucas sem býr í litlum smábæ í Danmörku og lifir ágætis lífi. Hann er skilinn við konu sína en saman eiga þau unglingspilt sem Lucas reynir að fá að hitta oftar. Lucas er flestum bæjarbúum kunnugur og flestum líkar mjög vel við hann enda góður maður. Þá nær hann sérstaklega vel til barnanna á leikskólanum en í byrjun myndarinnar má sjá þegar hann kemur inn á leikvöll leikskólans og börnin hlaupa að honum fagnandi. Þetta venjulega hversdagslíf Lucas tekur þó snöggum breytingum þegar ung stúlka á leikskólanum og dóttir besta vinar Lucas, segir litla lygi um að Lucas hafi misnotað hana kynferðislega við yfir fóstru leikskólans. Þetta hefur að sjálfsögðu skelfilegar afleiðingar fyrir Lucas og mannorð hans og í kjölfarið hefst atburðarrás sem erfitt er að sjá fyrir hvernig muni enda.
Mads Mikkelsen er stórkostlegur í hlutverki sínu sem Lucas og fær áhorfandann gjörsamlega á sitt band. Það er í raun langt síðan undirritaður kenndi svo mikið í brjósti um söguhetju kvikmyndar, það þarf eflaust að leita allt aftur til myndarinnar Passion of the Christ til að finna aðra eins vorkunn eins og þessa sem hér um ræðir. Það hvernig bæjarbúar og allt samfélagið snýst gegn Lucas er virkilega erfitt að horfa upp á, sérstaklega í ljósi þess að áhorfendur vita allan tímann um sakleysi Lucas. Það sem er svo enn erfiðara að fylgjast með er þegar að unga stúlkan er heilaþvegin til að nánast trúa sinni eigin lygi og hvernig aðstandendur hennar tækla aðstæðurnar og þetta erfiða mál, á gjörsamlega kolvitlausan hátt. Átakanlegast var þó að sjá hvernig vinátta Lucas og pabba stúlkunnar þróast en Thomas Bo Larsen, sem leikur besta vin Lucas, fer frábærlega með hlutverk sitt sem ráðvilltur maður sem innst inni vill ekki trúa þessu upp á vin sinn en getur heldur ekki sakað dóttur sína um lygar. Þá er einnig áhugavert að fylgjast með sambandi Lucas við son sinn sem styður föður sinn í einu og öllu á sama tíma og hann berst við þennan blákalda veruleika. Í raun má segja að allir leikarar í myndinni standi sig vel og Thomas Vinterberg hefur svo sannarlega tekist að gera gott handrit að góðri kvikmynd.
Á heildina litið er Jagten frábær mynd og vel þessi virði að sjá í kvikmyndahúsi. Myndin er vissulega mjög þung og alvörugefin, eins og viðfangsefni hennar gefur tilefni til, en myndin snýst einnig um hversu sterkur mannsandinn er og hversu mikilvægt það er hverjum manni að hafa einhverja að þegar á brattann er að sækja. Kvikmyndin fjallar þannig um mannlegar tilfinningar og samskipti og hversu erfitt það getur verið að aðskilja rétt frá röngu og að sjá sannleikann í erfiðum aðstæðum, hvort sem þú ert fullorðin manneskja eða einfaldlega bara lítið barn. Vinátta, fjölskyldubönd, sjálfsbjargarviðleitni og hugrekki eru orð sem e.t.v lýsa myndinni hvað best og Jagten sendir með sönnu áhorfandann í tilfinningalegan rússíbana sem skilur svo sannarlega mikið eftir sig.
Málið er einfalt, allir í bíó að sjá Jagten – núna.