Einkunn: 3,5/5
Af og til koma rómantískar gamanmyndir á markaðinn sem bæði karlar og konur geta vel við unað og það á svo sannarlega við um kvikmyndina I Give It a Year. Hún er frá framleiðslufyrirtækinu Working Title sem fært hefur kvikmyndaáhorfendum rómantísku gamanmyndirnar Notting Hill, Love Actually og Bridget Jones´s Diary. Með aðalhlutverk í myndinni fara þau Rose Byrne og Rafe Spall en þau hafa bæði verið á hraðri uppleið upp á stjörnuhimininn en flestir kannast eflaust við Rose Byrne úr kvikmyndinni Bridesmaids og þá lék Rafe Spall núna síðast aukahlutverk í kvikmyndinni Life of Pi. Með önnur hlutverk í myndinni fara þau Anna Faris, Minnie Driver og hjartaknúsarinn Simon Baker. Handritshöfundur og leikstjóri myndarinnar er Dan Mazer en hann skrifaði m.a. handritin að kvikmyndunum Ali G, Borat og Bruno.
I Give it a Year fjallar um hjónin Nat (Byrne) og Josh (Spall) sem hafa verið gift í 9 mánuði og hafa ekki átt sjö dagana sæla síðan þá. Þau ákveða því að leita til ansi skrautlegs hjónabandsráðgjafa og meðan að þau deila síðustu 9 mánuðum í lífi sínu með ráðgjafanum fá áhorfendur einnig að kynnast persónunum og raunum þeirra þessa síðustliðnu 9 mánuði. Eftir að hafa séð parið gifta sig uppgvöta áhorfendur fljótlega að parið muni ekki verða hamingjusamt til æviloka. Á fyrstu vikunum voru þau strax farin að fara í pirrurnar á hvert öðru og höfðu ansi ólíka sýn á lífið, hann sem heimavinnandi rithöfundur í basli með sína aðra skáldsögu á meðan hún vann fyrir stóra auglýsingastofu í London. Málin flæktust svo enn frekar þegar fyrrverandi kærasta (Farris) Josh kemur aftur inn í líf hans á sama tíma og Nat hittir fyrir myndarlegan og moldríkan Bandaríkjamann (Baker) sem hún þarf að reyna að heilla til þess að ná honum í viðskipti við auglýsingastofuna sem hún starfar fyrir.
Líkt og forverar sínir frá framleiðslufyrirtækinu Working Title gerist I Give it a Year í London og umhverfið setur strax sinn svip á myndina. Þó svo að myndin fjalli um erfiðleika í hjónabandi er aldrei langt í kímnina og má í raun segja að á köflum sé húmorinn allsráðandi. Honum er sérstaklega komið til skila af mjög öflugum aukaleikurum en þar má t.d. nefna vin Josh sem einnig var svaramaður hans í brúðkaupi þeirra Nat og Josh. Þá má einnig nefna systur Nat sem gerir fátt annað en að bölva eiginmanni sínum og hjónabandsráðgjafann sem í raun ætti ekki að gefa nokkrum manni ráð. Auk þess má heldur ekki horfa framhjá aðalleikaranum sjálfum, Rafe Spall, sem svo sannarlega átti góða spretti í myndinni. Þrátt fyrir allan þennan húmor er þó aldrei langt í dramatíkina sem fylgir stormasömum samböndum en það má segja að Dan Mazer takist að dansa fullkomlega á línunni milli húmors og alvarleika sem skilar sér í skemmtilegri upplifun fyrir áhorfandann. Þá ná þau Byrne og Spall mjög vel saman í hlutverkum sínum og þá fara Anna Faris og Simon Baker einnig mjög vel með hlutverk sín. Myndatakan er mjög í anda fyrri mynda Working Title og hjálpar til við að setja stemminguna fyrir gamansama rómantíska gamanmynd.
I Give it a Year er ein af þessum rómantísku gamanmyndum sem er fersk og heldur sig frá hinum hefðbundnu klisjum. Hún er nákvæmlega það sem hún er og reynir ekki að vera neitt annað, tekur sig ekki of alvarlega á sama tíma og hún tæklar öll þau vandamál sem komið geta upp í samböndum. Hún fer í raun aldrei út af sporinu og heldur áhorfandanum við efnið frá byrjun til enda, sem fær áhorfandann svo sannarlega til að tengja við persónurnar í myndinni og skilja þeirra hliðar á málunum. Ef það mætti líkja henni við eitthvað þá mætti segja að hún fari í sama gæðaflokk og Bridesmaids og fyrrnefnd Love Actually. Á heildina litið hittir því I Give It a Year beint í mark sem rómantísk gamanmynd með fersku og gamansömu ívafi.