Krúttsprengja eða ódýr klisjuhrúga?

Jesús, almáttugur! Ég ætla nú rétt að vona að tilgangslausar samkomur í líkingu við þessa fari ekki mikið meira fjölgandi á næstunni, því þetta eru splunkunýjar lægðir fyrir fallega og fræga fólkið í Hollywood og iðnaðinn sem umkringir það. Að horfa á New Year´s Eve er nákvæmlega eins og að vera staddur í mikilvægu partýi með slatta af þekktu fólki í augsýn nema það vantar alla tónlist, alla stemmningu og ekki vottur af áfengi er til staðar. Bara heilmikið af sykruðu gosi. Alltof sykruðu.

Það er einfaldlega sorglegt að það sé verið að blekkja okkur með þeirri hugsun að hér sé verið að skella saman „celeb-um“ í einhvers konar sögu. Í staðinn eru þetta leifar af klisjum sem eru ekki bara hundgamlar heldur illa lyktandi, og framleiðendur eru að nýta sér þessa afganga sem hefðu aldrei getað fyllt upp í fulla lengd, þannig að í staðinn var sorpinu bara safnað saman í einn væminn ælugraut sem kallar sig „fílgúdd“ mynd. En auðvitað er svona efni alltof eitrað, fyrirsjáanlegt og druslulegt til að hægt sé að selja það á aðlaðandi máta sem hentar glamúrleika Hollywood-mynda. Þess vegna voru öll þekktu nöfnin ráðin, svo hægt sé að punta upp á horbjóðinn og vonast til þess að áhorfendur taki þetta í sátt, brosi aulalega og segi: „Æ, hvað þetta er krúttó!“

Aðeins leikarar með hæstu sjálfsvirðingu sjá í gegnum þetta sölutrix, og þess vegna sér maður aldrei t.d. Daniel Day-Lewis eða Philip Seymour Hoffman í svona myndum. Svo eru aðrir leikarar sem gera þetta bara til þess að græða snöggt, líta vel út og hitta beint í mark hjá saumaklúbbum sem grenja gleði- og sorgartárum yfir öllu sem inniheldur væmna músík, barnsfæðingar eða dánarbeð. Stúdíóið sem framleiddi þessa mynd hefur heldur ekki sett háar kröfur fyrir leikara sína, og ég held að það hafi verið viljandi gert til að tryggja betur þátttöku þeirra. Enginn fær alvöru persónu til þess að túlka, bara pappafígúru sem fær beinagrind að sögu, og þá sögu á að vera hægt að segja á 10 mínútum. Ef maður raðar nógu mörgum örsögum saman, þá hlýtur að verða til úr þessu bíómynd. Er það ekki?

Rangt!

New Year´s Eve hefði þurft að vanda sig betur til að hægt væri að kalla þetta bíómynd, og þegar ég segi „vanda sig betur,“ þá meina ég í rauninni „vanda sig, PUNKTUR!“ Tengslanet persónanna er alveg jafn þvingað og glatað og það er óútpælt, burtséð frá þeirri litlu staðreynd að ekki stakasta persóna í allri myndinni er áhugaverð eða skemmtileg (nema kannski rússneski rafvirkinn sem Hector Elizondo lék í fimm mínútur). Söguþráður hvers og eins er fyrirsjáanleg og þróunin hjá öllum löt og dæmigerð. Það kemur aldrei neitt á óvart og hver einasti leikari reynir líka að fela það að hann sé ekkert að reyna á sig, sem gerir allt svokallaða dramað ennþá leiðinlegra. Af hverju ætti mér ekki að vera skítsama um mynd sem fullt af leikurum eru að pína sig í gegnum?

Þessi mynd gerir allt rangt sem hin ómótstæðilega Love Actually gerði rétt. Hún ætlar sér að reyna á sig en bakkar svo út úr því, eins og hún neiti að svitna til þess að ná árangri. Hún fer alltaf öruggu leiðina og heldur sig við það markmið að eina sem skiptir máli eru andlitin á skjánum, og svo lengi sem sögurnar séu allar hnýttar með dúllulegri slaufu í lokin ásamt píndum boðskap sem er hnerrað framan í okkur, þá er leikstjórinn sáttur með vinnuna sína.

Ég ætla ekki að segja að ég hafi verið að kafna úr leiðindum á meðan þessi krúttsprengja rúllaði, en aldrei festist ég við hana. Ekki í eina sekúndu. Ég var samt að verða brjálaður yfir því hversu mikið var teygt á litlum plottum sem hægt væri að skrifa upp, skref fyrir skref, á Post-It miða.

New Year´s Eve mun koma þeim í gott skap sem ákveða fyrirfram að myndin sé æðisleg, en það eru líklegast þeir sömu og elskuðu „fyrri“ myndina, Valentine´s Day. Það eina sem ég sá voru leikarar að skemmta sér í stuttum tökum, og ástæðan fyrir sífellda glotti þeirra tengist auðvitað laununum sem þeim var lofað. Svo þarf ekki einu sinni að ræða þetta yfirdrifna „product placement“ auglýsingarrugl sem rennur í gegnum myndina. Aðstandendur Warner Bros. fóru meira að segja langt yfir strikið með því að kynna sína eigin mynd (inni í þessari mynd), Sherlock Holmes: A Game of Shadows. Plakatið fyrir hana sést svona 10 sinnum.

Auglýsingin svínvirkaði! Mig langaði miklu frekar til að horfa á hana í staðinn fyrir þessa.

(3/10)