Í stuttu máli er „Murder on the Orient Express“ vel heppnuð útgáfa klassískrar morðgátu eftir mjög svo frjóan rithöfund á hátindi sköpunargáfunnar.
Heimsþekkti einkaspæjarinn Hercule Poirot (Kenneth Branagh, sem er einnig leikstjóri) telur sig eiga gott frí inni eftir að hafa leyst enn eitt málið. Honum býðst far um borð í Austurlandahraðlestinni og gerir sér í hugarlund nokkra þægilega daga í afslöppun og lesa smá Charles Dickens. Það tekur snöggan endi þegar snjóflóð stöðvar ferð lestarinnar og einn af gestunum finnst myrtur í klefa sínum. Við tekur önnur morðrannsókn þar sem fjöldi farþega liggur undir grun en Poirot á einstaklega erfitt með að festa hendur á hver hinn seki gæti verið.
„Murder on the Orient Express“ er byggð á skáldsögu eftir Agöthu Christie og kom bókin út árið 1934. Efniviðurinn er hreint frábær en spennusagnadrottningin var hreint ótrúlega frjó þegar kom að morðgátum og „Austurlandahraðlestin“ er ein af þeim hæst skrifuðu og ekki að ósekju. Fullt af persónum fá ríka baksögu, morðgátan sjálf er margþætt og vel uppbyggð, endirinn er frumlegur og belgíski ofurspæjarinn nýtur sín í allri sinni sérvisku og sýnir óvæntar hliðar á sjálfum sér.
Sjónrænn stíll er gríðarlega vel af hendi leystur en vissulega er hér um miklar tölvubrellur að ræða en þær eru aldrei yfirþyrmandi og hjálpa til við að búa til góða stemningu þar sem umhverfið og þrönga sögusviðið spila stóran þátt. Tónlistin, eftir Patrick Doyle, er einnig mjög vel heppnuð.
Kenneth Branagh er mjög skemmtilegur í hluverki Poirot. Auðvitað er þetta yfirvaraskegg alveg svakalegur déskoti en Branagh skemmtir sér vel í að velta sér aðeins upp úr sérvisku spæjarans án þess þó að það kosti hann trúverðugleika og hann nær góðum tökum á dramatíska þætti hlutverksins. Hann er umkringdur algeru einvalaliði leikara (Michelle Pfeiffer, Derek Jacobi, Judi Dench, Johnny Depp og Penelope Cruz þar á meðal) sem öll standa sig með prýði. Helst eru það þó Depp og Daisy Ridley („Star Wars: The Force Awakens“) sem eru minnistæðust í þessum stjörnufans.
Morðgátan er, og verður alltaf, sígild og ég hreinlega öfunda þá sem koma að þessari útgáfu vitandi ekki neitt. Bókin hefur nokkrum sinnum verið kvikmynduð og frægust er útgáfan frá 1974 eftir Sidney Lumet sem skartaði Albert Finney í hlutverki Poirot. Sú mynd hefur alltaf þótt sú skársta en alltaf var eitthvað sem vantaði til að hún teldist frábær. Nýja útgáfan er betur heppnuð, að mati þessa gagnrýnanda, þar sem Branagh tekst betur að finna sálina í efniviðnum og honum tekst einstaklega vel upp með niðurlagið og…best að spilla ekki neinu.
„Murder on the Orient Express“ er vel heppnuð, vel uppbyggð, vel leikin og glæsilega útlítandi morðgáta sem byggir á skotheldum efnivið eftir einn dáðasta rithöfund fyrr og síðar. Vissulega er búið að skjóta inn fáeinum útúrdúrum sem aðeins krydda efniviðinn (svo sem smá hasar sem þó varir stutt) til að hrista þá sem búa yfir lítilli þolinmæði aðeins til lífs en kjarninn heldur sér og kemst vel til skila.
Ýjað er að því að næsti viðkomustaður Poirot sé við ána Níl. Hver veit nema „Death On the Nile“ sé á næsta leyti. Alveg til í það.