Nú stendur kvikmyndahátíðin í Cannes í Frakklandi sem hæst, og Eldfjall Rúnars Rúnarssonar verður frumsýnt þar á morgun. En það eru fleiri kvikmyndagerðarmenn sem halda uppi heiðri Íslendinga á hátíðinni. Stuttmyndin Klás eftir Atla Snorrason tekur þátt í einskonar afleggjara eða hliðarkeppni, sem heitir Cannes Short Film Corner, eða Stuttmyndahornið í Cannes. Í þeirri keppni hafa áhorfendur allt vald í hendi sér og kjósa um sigurmyndina á YouTube myndbandavefnum.
Til að horfa á Klás á YouTube er nóg að smella hér.
Til að kjósa myndina og auka þar með líkur á sigri hennar í keppninni þarf að setja „like“ á myndina á YouTube. Keppnin stendur til 18. maí.
Klás er lokaverkefni leikarans Atla Snorrasonar frá Kvikmyndaskóla Íslands haustið 2010 og var mynduð á þremur nóttum seinni hluta nóvembermánaðar í fyrra. Klás fjallar um frekar venjulegan mann í sérstaklega óvenjulegu starfi. Áföllin hafa dunið yfir bæði í einkalífi og vinnu og Klás hefur ákveðið að taka eigið líf. Það er þá sem hann hittir unga stúlku sem óafvitandi gefur honum hugsanlega ástæðu til að skoða málin örlítið betur.
Aðalleikarar eru Atli Snorrason sem leikur Klás sjálfan en stúlkuna leikur Ronja Auður Pálínudóttir.
Um tónlistina sér hljómsveitin Vigri.
Auk Klás og fyrrnefnds Eldfjalls Rúnars Rúnarssonar, þá koma Íslendingar við sögu í amk. einni mynd til viðbótar á hátíðinni. Það er í indversk-frönsku myndinni Chatrak, en með stórt hlutverk í henni fer íslenski leikarinn Tómas Lemarquis. Chatrak keppir í Quinzaine des Réalisateurs flokknum, eins og Eldfjall.